Þjófurinn festur á mynd

 img_5522.jpg

Það var hinn 26. mars 2012 að mér bárust fregnir af hvalreka nærri Beruvík undir Snæfellsjökli. Ég flýti mér á staðinn og kom að um fjögur leytið. Þá sá ég stærðar búrhval liggja í fjörunni. Þetta var fremur stórt karldýr, ef dæma má af um tveggja metra löngum tittling, sem hékk utan á bolnum. Þegar nær kom tók ég eftir því að framhluti neðri kjálkans hafði verið sagaður af og blóðið steymdi úr sárinu, eins og önnur mynd sýnir. Í polli rétt hjá lá handsögin, með rautt handfang. Þjófurinn hafði flýtt sér á brott. Búrhvalstennur hafa töluvert verðmæti á svarta markaðnum og eru unnar í minjagripi, skartgripi og aðra smágripi, líkt og fílabein. Þegar heim kom fór ég að skoða myndirnar frá hvalstrandinu. Þá kom í ljós að ég hafði náð þjófnum á tvær myndir, þar sem hann er að hlaupa á brott, með frampartinn af neðri kjálkanum í höndum sér. Þetta er gráhærður meðalmaður á stígvélum, í bláum vinnugalla með rauða hettu, eins og myndin sýnir. Þrjóturinn var fljótur að laumast á brott þegar við komum að og kastar frá sér söginni í poll í fjörunni. img_5537.jpg

Þótt hvalrekinn ætti sér stað inan þjóðgarðsins, þá sýndu yfirvöld hvalnum engan áhuga og létu rotna á saðnum. Þarna var glatað ágætt tækifæri til að eignast heila beinagrind af sjaldgæfri hvaltegund, sem hefði verið merkilegt efni til sýninga í þjóðgarðinum. Ekkert hefði þurt til nema að varpa netdruslu yfir hræið og festa það niður í nokkra mánuði.

Rúmum þremur árum síðar, í byrjun maí árið 2015, var ég á göngu í Búðahrauni. Þá rakst ég á hvalreka í klettafjöru skammt fyrir suðvestan Fremribúðir. Þetta var heillegt hryggjarstykki af mjög stórum hval, eins og þriðja myndin sýnir. Beinin virtust ungleg, með mikið brjósk á milli liða, sem hélt þeim saman á öllum liðamótum.  Grindin var svo ungleg, að hundurinn Snælda vildi hvergi nærri koma að svo stórum beinum. Ég tel að þetta sé hryggurinn úr búrhvalnum, sem rak á land í Breiðuvík, fyrir vestan Búðir. Ef svo er, þá hefur hann rekið um 38 km leið með ströndinni á þremur árum.img_0164.jpg

 


Bloggfærslur 23. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband