Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Eftirköst Parísargöngunnar

Göngunni miklu er lokið. Frakkar luku göngunni á þann hátt, sem þeir kunna best: að halda veizlu. Ég var gestur í einni slíkri í kvöld í 16. hverfi borgarinnar. Við vorum tólf saman og kampavín og krásir á borðum. Þá losnaði um málbeinið. Mér þótti merkilegt að af þessum tólf höfðu aðeins fimm (allt konur) farið í gönguna, en karlarnir fjórir allir setið heima. Sumir sátu heima til að lýsa mótmælum við stefnu vinstri stjórnarinnar. Almennt er stemningin sú, að ríkið þurfi að taka miklu harðar á málum sem varða hættulega einstaklinga og hreyfingar innan Frakklands. Ég varð margs vísari af því, að hlusta á spjallið yfir matborðinu. Mig grunar að það sé ef til vill að gerast grundvallarbreyting á hugarfari Frakka varðandi réttvísi. Nú vilja margir Frakkar, að það verði heimilt að taka fasta og setja í fangelsi þá, sem gætu verið grunsamlegir og hættulegir ríkinu. Hingað til hafa að sjálfsögðu aðeins þeir verið fangelsaðir, sem hafa hlotið dóm fyrir rétti. Stefna George Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum er nú að ná vissri fóstfestu hér í landi, sem er vagga lýðræðisins (að forn-Grikkjum ógleymdum). Bush hafði þá aðferð að varpa grunsamlegu fólki í fangelsi í Guantanamo í Kúbu án dóms og laga. Nú tala Frakkar um að setja upp fangabúðir, til dæmis í Guiana, nýlendu Frakka í Suður Ameríku, fyrir óæskilega einstaklinga. Eins og kunnugt er, þá voru öfgamennirnir, sem unnu hryðjuverkin í París í síðustu viku allir á skrá hjá lögreglu, bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum, sem vafasamir einstaklingar. Þeim hefið til dæmis aldrei verið hleypt inn til Bandaríkjanna. Fangelsun án laga og réttar er auðvitað eitt af fyrstu skrefum til fasisma, en margir Frakkar líta ekki á það sem stórt vandamál. Þeir vilja að ríkið geri eitthvað róttækt í málinu, til að forðast slíka atburði í framtíðinni.   Það verður spennandi að fylgjast með þróun stjórnmála í Frakklandi á þessu sviði á næstunni, en þau munu hafa áhrif um alla Evrópu.  Já, og að lokum: það tók enginn hér eftir því að forsætisráðherra Íslands vantaði í gönguna.  Þið getið því öll andað léttara þarna heima á Fróni.


Sviðsmenn Carnegie Hall fá 40 milljónir í árslaun

labour-unions.jpgÉg hef verið í verkalýðsfélagi í Bandaríkjunum frá 1974 (AAUP, stofnað 1915) og hef notið góðs af því, en ef til vill valdi ég ekki rétt! Ef ég væri að velja mér verkalýðsfélag í dag, þá væri það tvímælalaust félag sviðsmanna í Carnegie Hall í New York. Einn trésmiðurinn er með $441,223 í árslaun, einn rafvirkinn með $425,872 og aðrir eftir því. Carnegie Hall er að sjálfsögðu einn fremsta hljómleikahöll í heimi, en fyrr má nú vera! Eins og gefur að skilja þá ganga stöður oftast frá föður til sonar í þessu verkalýðsfélagi.   Fyrsta konan fékk loks inngang í félagið árið 1975. Ein kona sem starfaði í hljómsveit á sviðinu sagði mér að það hefði kostað $2000 að fá einn hljóðnema fluttan um fimm metra á sviðinu. Svona mafíu-háttarlag hefur yfirleitt eyðilagt mikið fyrir verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum og hafa þau því verið sprengd upp hvert á fætur öðru. En á Íslandi er þessu öðruvísi háttað. Mér sýnist helst að atvinnurekendur ráði mestu hér í verkalýðsfélögunum?


Kjarnorkuvetur eftir stríð milli Indlands og Pakistan

pakistan_nuclear_missile.jpgKjarnorkustyrjöld milli stórveldanna væri svo hryllileg tilhugsun, að hún virðist óhugsandi. En styrjöld milli tveggja ríkja, sem hafa yfir einhverjum kjarnavopnum að ráða, er alls ekki svo fjarstætt dæmi. Ísrael og Íran? Jú, þeir hata hvorn annan, múslimar öðru megin og gyðingar hinu megin. Ísrael hefur átt kjarnorkusprengjur í meir en 20 ár. En Íran ekki ennþá. Indland og Pakistan? Hér er stóra vandamálið. Þar er hatrið ekki síðra, hindú trú öðrumegin og múslimar hinumegin og fullt af sprengjum þegar fyrir hendi á báða bóga. Á meðan Ameríkanar hafa reynt að koma í veg fyrir að Íran komi sér upp kjarnavopnum, þá hefur Pakistan haldið stöðugt áfram að bæta við vopnabúr sitt.  Nú er talið að Pakistan hafi á milli 100 og 120 kjarnorkusprengjur, en Indland, nágranninn fyrir sunnan, hefur um 90 til 110 kjarnavopn.   Sérfræðingar telja því að langlíklegasta kjarnorkustyrjöldin í framtíðinni sé á milli Pakistan og Indlands. Pakistan hefur fremur lélegan her, og hugsar sér því að vinna slaginn strax með stórum sprengjum, sem að sjálfsögðu leggja bæði löndin í algjöra auðn.  Michael J. Mills og félagar (2014) hafa nýlega birt merkilega grein í vísindaritinu Earth´s Future um áhrif slíkrar styrjaldar á loftslag á jörðu. Hér er loksins komið fram það vísindarit, sem margir hafa beið eftir, helgað því að beita vísindunum til að spá fyrir um framtíðina – hugsanlega, raunverulega eða ímyndaða framtíð. Í líkani þeirra byrja þeir með kjarnorkustyrjöld, þar sem hvor þjóð beitir 50 kjarnorkusprengjum og er hver sprengja jafn stór og sú sem grandaði borinni Hiroshima í Japan árið 1945, eða jafnt og 15 kílótonn af venjulegu sprengiefni. Eitt kílótonn er eitt þúsund tonn, og er ein Hiroshima kjarnsprengja því jafn kraftmikil og 15 þúsund tonn af venjulegu sprengiefni. Þetta er þá um eða undir helmingur af vopnabúrinu í hverri þjóð. Bruni borganna leiðir af sér sót ský, sem rís upp í heiðhvolf og reiknast magn sóts um 5 Tg eða 5 milljón tonn. Þegar stórborg brennur, þá er hitinn svo gífurlegur að jafnvel tjaran í malbiki gatnanna brennur líka. Sótið sem myndast dreifist jafnt um heiðhvolf umhverfis jörðu. Eins og sést á annari mynd, þá er magn af sóti í lofti mjög hátt fyrsta árið en varir allt að 13 ár um heim allan. Sót hefur þann hæfileika að það drekkur í sig og endurvarpar meira magni af sólargeislum en nokkuð annað efni. Það hleypir því mjög litlu af sólargeislum niður til jarðar. Þetta veldur því að heiðhvolf hitnar en jörðin kólnar að sama skapi. Eftir 13 ár hefur megnið af sóti fallið til jarðar og áhrifin dvína. Yfirborðshiti jarðar kólnar um 1,1 gráðu um heim allan fyrsta árið og heldur áfram að kólna í fimm ár, niður um 1,6 gráður. Þá byrjar jörðin aftur að hlýna. Úrkoma minnkar í meir en einn áratug um heim allan. Hafís breiðist hratt út fyrstu fimm árin á norðurslóðum, eins og önnur mynd sýnir (bláa línan), og enn meir og lengur á suðurskautinu (rauð lína) í um 20 ár. Heimshöfin kólna í allt að 20 ár niður á 300 metra dýpi.sót

Vegna þess að heiðhvolf hlýnar um allt að 30 stig, þá verður stórfelt tap af ósón frá lofthjúp jarðar. Af þeim sökum streyma útfjólubláir geislar sólarinnar óhindrað niður á jörðina árum saman og valda sjúkdómum, stökkbreytingum og krabbameini. Þannig mætti lengi telja, því Mills og félagar hafa gert líkan einnig af áhrifum á landbúnað og fleira. Hörmungarnar eru ótrúlegar, þótt aðeins sé um að ræða styrjöld með 100 kjarnavopn. Gleymum því ekki, að Rússar og Bandaríkjamenn eiga sennilega ennþá um 10 til 20 þúsund kjarnavopn í sínum vopnabúrum í dag. Samt sem áður trúi því að kjarnorkuver séu ein skynsamlegasta orkulind mannkyns í framtíðinni, en kjarnavopn geta líka bundið enda á okkar skammvinna skeið á jörðu.hafís


Sléttbakurinn verður elsta spendýr jarðar: um 200 ára

ke_jan.jpgElsta dýr jarðar var kúfskel, sem fannst við Grímsey, undan norður strönd Íslands árið 2007. Hún var 507 ára gömul, þegar hún var drepinn í þágu vísindanna. Ég hef bloggað um hana hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280069/     En elsta spendýr jarðar er einnig að finna í grennd við Ísland og það er sléttbakurinn., en hann getur orðið meir en 200 ára gamall og vigtað um 100 tonn.  Honum fækkar nú óðum vegna ofveiði. Í dag telja vísindamenn að í Norður-Atlantshafi séu aðeins um 700 dýr eftir af þessari hvalategund, en stofnarnir sem lifa í Norður-Kyrrahafi telja allt að 8000 dýr. Michael Keane og félagar birtu nú í vikunni merka grein um erfðamengi sléttbaksins í vísindaritinu Cell. Þar koma margar spurningar fram, meðal annars: hvernig getur hann náð svo háum aldri? Hverjir eru helstu ættingar hans? Hvernig hefur hann forðast sjúkdóma eins og krabbamein öll þessi ár? Annar helsti draumur manna er að lifa lengur (hinn er að sjálfsöðu að verða ríkur…) og þess vegna er mikill áhugi á að rannsaka sléttbakinn frekar. Myndin sýnir hvar sléttbakurinn og hvalirnir yfirleitt sitja í keðju tegundanna og hverjir eru næstu ættingjar hans. En hvalir þróuðust frá landdýrum fyrir um 50 milljón árum síðan.  Hann virðist vera skyldari nautgripum og hrossum en öðrum tegundum, hvað snertir erfðamengi. Það er merkilegt að stórir hvalir, sem hafa meir en þúsund sinnum fleiri frumur í líkamanum en menn, hafa miklu minni líkur á að sýkjast af til dæmis krabbameini. Stóru hvalirnir virðast hafa einhvern náttúrulegan eiginleika, sem heldur krabbameini í skefjum eða kemur í veg fyrir það. Nú geta sérfræðingarnir skoðað þetta nýbirta erfðamengi sléttbaksins til að reyna að finna þá þætti, sem veita hvalnum lengra og heilbrigðara líf.


Borpallurinn Kulluk á norðurslóðum

artic-articlelarge-v3.jpgSumir láta sig dreyma um að finna olíu á norðurslóðum, en aðrir demba sér út í verkefnið og berjast við náttúruöflin. Það er dýrt spaug, eins og olíufélagið Shell hefur komist að nýlega. Árið 2005 keypti Shell olíuborpallinn Kulluk, sem var frekar óvenjulegur í laginu. Hann rís tæpa 80 metra yfir sjó, og er hringlaga, til að standast betur sjó og hafís. Stálið umhverfis borpallinn og í bolnum er um 4 cm á þykkt. Hann getur borað meir en 6 km niður í hafsbotninn. Shell vantaði olíu, sem þá var á háu verði, um $70 tunnan og fór hækkandi. Í dag er tunnan komin niður fyrir $50.  Þeir tóku þá ákvörðun að byrja að leita á norðurslóðum, þar sem engin samkeppni var fyrir og Kulluk var hannaður sérstaklega fyrir þær aðstæður. Shell keypti því réttindi til olíuleitar fyrir $73 milljónir í Beuforthafi, fyrir norðan Alaska. Svo settu þeir $300 milljónir í að gera upp Kulluk borpallinn. Svo fóru $400 milljónir í að smíða hjálm til að vernda borpallinn frekar. Svo var hann útbúinn 12 akkerum til að verjast sjó og ís. Svo sigldu þeir með Kulluk norður fyrir Alaska í júní 2012. Margvísleg vandamál urðu á vegi þeirra, hjálmurinn eyðilagðist í hafsjó og áður en varir var komið haust og allt fullt af ís. Kulluk var nú kominn nærri landamærum Alaska og Kanada og hér byrjuðu þeir að bora í Beuforthafi. Kulluk byrjaði að bora í október, en hætti strax aftur vegna veðurs og var dreginn til hafnar í Alaska. Shell vildi koma Kulluk sem fyrst aftur til Seattle til viðgerða, og í desember var lagt af stað. Hér getur oft verið slæmt í sjóinn á þessum árstíma, með ölduhæð 5 til 10 metra. Stundum fór togkrafturinn á vírnum milli dráttarbátsins og Kulluk upp í 228 tonn þegar mestu öldurnar gengu yfir. Hinn 27. desember slitnaði toglínan og Kulluk rak stjórnlaust. Þeir komu annari línu á milli, en skömmu síðar byrjuðu fjórar vélar dráttarbátsins að bila, hver á fætur annari. Það var kominn sjór í díselolíuna. Tveim dögum síðar tókst þyrlum að ná allri 18 manna áhöfn á brott af Kulluk. Nú voru tveir dráttarbátar byrjaðir að draga Kulluk, en fljótlega slitnar önnur línan og hinn dráttarbáturinn hefur ekki undan í 50 hnúta vindi og yfir tíu metra ölduhæð. Þeir berast nær og nær landi og skáru loks á línuna. Kulluk rak upp í fjöru. Tveimur mánuðum síðar tilkynnti Shell að þeir gerðu nú hlé á olíuleit sinni fyrir norðan Alaska. Flakið af Kulluk var dregið til Kína og selt í brotajárn. Nokkrir af forstjórum Shell sögðu af sér, aðrir voru reknir. Enn dreymir þá um að komast aftur á norðurslóðir….  Til allrar hamingju gat Kulluk ekkert borað í þessari tilraun.  Þið getir rétt ímyndað ykkur olíumengunina og öll vandræðin við að reyna að ráða við virka olíulind undir þessum aðstæðum í norðurhöfum. 


Kjarnorkuvetur og útdauði tegundanna

vopnabúrÞað var á tímum kalda stríðsins, um 1980, að vísindamenn fóru að rannsaka hvaða hnattræn áhrif gætu orðið af kjarnorkustríði milli heimsveldanna, aðallega þá Sovíetríkjanna og Bandaríkjanna. Á þeim tíma voru kjarnorkuvopnabirgðir stórveldanna gífurlegar, en hvort þeirr átti þá tugir þúsunda kjarnavopna í búrum sínum, eins og fyrsta myndin sýnir. Megin uppistaðan í hugmyndinni um kjarnorkuvetur er sú, að í kjarnorkustyrjöld myndi kvikna mikið eldhaf í stórborgum heimsveldanna. Lítil dæmi um slíkt gerðust í lok seinni heimsstyrjladar, árið 1945, þegar Hiroshima og Nakasaki brunnu. Magnið af eldsneyti í stórborg er gífurlegt og slíkt eldhaf, sem varir dögum og vikum saman, framleiðir mikið magn af fínu sóti, sem lyftist upp í heiðhvolf, fyrir ofan 10 til 15 km hæð. Það safnast sótið fyrir en sót hefur þann eiginleika að það endurkastar sólargeislum burt frá jörðu betur en nokkuð annað þekkt efni. Slíkt sót getur varið í heiðhvolfi árum saman og á meðan kælir það jörðina um margar gráður. Loftslagsáhrifin eru því miklu verri en áhrif geislavirkra efna í kjarnorkustríði og þessi áhrif eru hnattræn: þau eru jafn slæm fyrir sigurvegarann og hina sigruðu. Þessi uppgötvun hafði mjög mikið áróðursgildi á dögum kalda stríðsins og hjálpaði til að samfæra almenning og jafnvel suma leiðtoga um að kjarnorkustríð væri fáviska ein.cold-dark-ehrlich-sagan-5183m7htmql_ss500.jpg

Nokkrar mikilvægar spurningar koma fram þegar rætt er um kjarnorkuvetur: 1) Hvað er magnið af vopnum, sem beitt er? 2) Hver verður kólnunin og hve lengi varir hún? Árið 1983 birtu þeir Richard Turco, Carl Sagan og félagar í Bandaríkjunum merka grein í tímaritinu Science, þar sem hugtakið “nuclear winter” eða kjarnorkuvetur kom fyrst fram.  Líkön þeirra Turco og félaga sýna eftirfarandi: Í styrjöld með 5000 MT af kjarnorkuvopnum og bruna eitt þúsund borga mun myndast svart ský af sóti í heiðhvolfi að magni um einn milljarður tonna. Þá mun ekki sjást til sólar og myrkur mun ríkja. Kólnun væri 15 til 42 °C yfir 14 til 35 daga eftir styrjöldina. Vísindamenn bæði í austri og vestri voru sannfærðir um hættuna, kynntu niðurstöður sínar fyrir almenningi og reyndu að hafa áhrif á stjórnir stórveldanna. Ekki virtist það gera mikið gagn, en þó er talið að Mikail Gorbachev hafi áttað sig á hættunni, sem getur stafað af slíkum kjarnorkuvetri. Árið 1984 kom út bók eftir Carl Sagan og félaga: “The Cold and the Dark”, sem fjallaði um hættuna á mannamáli. Myndin er af forsíðu hennar. Reyndar var Carl Sagan aðal hugmyndafræðingur bak við málið um kjarnorkuvetur. Richard Turco og hinir voru flestir stúdentar, sem höfði lært hjá honum. Árið 1990 gerður Turco og félagar enn meira þróuð líkön, með svipuðum niðurstöðum. En svo kom styrjöldin í Kúvait árið 1991 og setti mikið strik í reikninginn hjá vísindamönnum. Olíulindir í Kúvait brunnu stjórnlaust dögum og vikum saman og sót barst út um allt nágrennið sem svartur reykur. Vísindamenn spáðu mikilli kólnun, en sótið náði lítt eða ekki til heiðhvolfs og áhrifin urðu því lítil eða engin. Að vísu voru olíueldarnir ekki alveg sambærilegir við kjarnorkustríð, en þetta hafði samt neikvæð áhrif á þróun hugmyndarinnar.  Árið 2007 var önnur mikil rannsókn gerð á hugsanlegum áhrifum kjarnorkustyrjaldar, með raunsæjum vopnabirgðum. Þetta líkan sýndi að yfirborð jarðar myndi kólna að meðaltali um –7 °C til –8 °C og kólnun mundi vara í nokkur ár. Eftir tíu ár væri yfirborðshiti jarðar enn aðeins um–4 °C samkvæmt þessu líkani.   Áhrifin væru því lík og þegar ísöld gengi yfir jörðina.   Þannig standa málin í dag, en eftir að þiðna tók í kalda stríðinu hefur dregið úr spennu varðandi kjarnorkuvetur. Hann er samt alvarlegur raunveruleiki, jafnvel í kjarnorkustyrjöld tveggja ríkja eins og Indlands og Pakistan.   Ég held að í grundvallaratriðum séu fyrstu niðurstöðurnar nokkuð nærri lagi: kjarnorkustyrjöld stórveldanna getur orsakað kjarnorkuvetur, sem kann að vara árum saman og valda ótrúlegri truflun á lífríki. Nú í dag, þegar samskifti austurs og vesturs virðast aftur vera að versna, er ekki úr ráði að dusta rykið af gömlum kenningum og hugsa aftur um hið óhugsanlega: kjarnorkuvetur. Á síðastliðnu ári hafa Rússar framleitt marga nýja kjarnokuknúna kafbáta, sem eru vopnaðir langdrægum eldflaugum með kjarnorkusprengjur um borð. Ekki er útilokað að Bandarikjamenn fari nú aftur að hugsa til Keflavíkurflugvallar, sem lengi var aðal eftirlitsstöð þeirra varðandi ferðir rússneskra kafbáta inn í Atlantshafið úr norðri.  Enn líklegra er kjarnorkustríð milli Indlands og Pakistan. Ég mun fjalla um hugsanleg áhrif þess á loftslag í seinni pistli.


Súrnun hafsins

súrnun hafsinsSjórinn er saltur, en hann hefur einnig annan mikilvægan efnaeiginleika: sýrustigið. Nú er það að breytast, í samspili við hnattræna hlýnun. Hlýnun í lofti og súrnun hafsins eru afleiðingar af vaxandi útblæstri mannkyns af CO2. Fyrir iðnbyltinguna var CO2 í andrúmslofti um 280 partar úr milljón (ppm), en með vaxandi bruna af kolum, olíu og gasi hefur það aukist í nær 400 ppm og fer vaxandi. Til allrar hamingju fer um einn fjórði af þessu koltvíoxíði niður í hafið og leysist þar upp en það hefur þær afleiðingar að hafið er að byrja að súrna. Súrnun er mæld í einingunni pH. Nú er pH heimshafanna 0,1 pH stigi lægri en var fyrir iðnbyltinguna. En pH skalinn er log skali og er því 0,1 breyting jafnt of 30 prósent hækkun á sýrustigi. Fyrsta mynd sýnir vaxandi CO2 í lofti jarðar (brún kúrva), vaxandi CO2 í hafinu (blá) og vaxandi sýrustig í hafinu (lækkandi pH, græn kúrva). Hvaða máli skiftir það fyrir okkur og annað líf á jörðu? Jú, við hækkandi sýrustig leysast til dæmis upp skeljar, kórall, kalkþörungar og önnur efni lífvera, sem eru gerðar úr kalki (CaCO3). Skelin er fyrst og fremst vörn og um leið og hún þynnist er aumingja skelfiskurinn varnarlaus fyrir kröbbum, steinbítum og öðrum gráðugum tegundum. Hækkandi sýrustig veldur því að kórallar geta ekki þrifist. Kóralrif eru gerð úr kalki og er þegar farið að bera á því að kóralrif til dæmis í Karíbahafi eru farin að láta á sjá. En vaxandi sýrustig hafsins hefur ekki einungis áhrif á kalk og skeljar, heldur á allt líf í sjónum. Fyrir lífríkið í hafinu er það eins og einhver væri að fikta við efnasamsetningu blóðsins í líkama okkar. figure-10-24-l.png

Það sem verst er, að sennilega mun sýrustig halda áfram að hækka. Mynd númer tvö sýnir spár um losun CO2 eða koltvíoxíðs út í andrúmsloftið (efsti partur).  Það eru margar spár, en tökum þá verstu, sem er sennilega næst lagi (rauða línan). Miðmyndin sýnir áhrif þess á pH eða sýrustig hafsins. Samkvæmt þeirri spá væeri pH heimshafanna komið niður í 7,75 um 2100. Neðsta myndin sýnir hvaða áhrif þetta hefur á mettun (saturation) steindarinnar aragonit, sem er aðal kalktegundin í skeljum og öðrum kalklífverum. Samkvæmt því er hafið mettað, þ.e. kalk getur myndast, þar til um 2060. Eftir þann tíma myndast aragonít eða kalk ekki í hafinu og skeldýrin eru orðin skeljalaus. Eins og alltaf, þá er hér um spá að ræða, en hún byggist einfaldlega á því að gera ráð fyrir að við höldum uppi sama líferni, og dælum stöðugt út koltvíoxíði út í andrúmssloftið eins og ekkert sé að gerast.


Það sem enginn þorir að tala upphátt um í Frakklandi

Það er enginn vandi að dvelja nokkra daga í Frakklandi án þess að hafa neinar áhyggjur af innflytjendamálum. En samt sem áður kemur að því fyrr eða síðar að maður fer að taka eftir fólkinu, oft hjónum, sem er að koma sér fyrir úti í skúmaskotum á kvöldin, liggur á tómum pappakössum og breiðir yfir sig og nokkur börnin einhverjar plastdruslur fyrir nóttina. Innflytjendamálin eru stóra málið í þessu landi. Fyrrum forseti Nicolas Sarkosy sagði í ræðu nýlega að innflytjendur væru í þann veginn að eyðileggja hinn franska lífsstíl. Rithöfundurinn Michel Houellebecq, í nýrri skáldsögu sinni Soumission, gerir Frakkland að múslimaríki árið 2022. Þetta er auðvitað pólitík og skáldskapur. Hverjar eru staðreyndirnar? Það er margt rangt í hinum almennu skoðunum um innflytjendur í Frakklandi. Aðeins níu prósent af Frökkum eru innflytjendur, en þeir streyma nú inn í vaxandi mæli um 200 þúsund á ári. Eru þeir allir múslimar frá Afríku? Rangt. Nær helmingur innflytjenda til Frakklands eru Evrópubúar (46%), ekki Afríkubúar (30%), eins og margir kynnu að halda. Portúgalar eru reyndar stærsti hópurinn af innflytjendum til Frakklands (8%), þá næst Marokkó og síðan Alsírbúar.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir er andúð á móti innflytjendum mjög útbreidd.  Eða er kannske ekkert mark takandi á þessum opinberu tölum um innflytjendur? Enginn veit hvað margir smjúga inn bakdyramegin yfir landamærin.  Skoðannakannanir sýna að um 60% af Frökkum eru á móti því að veita útlendingum kosningarétt. En mótstaðan er fyrst og fremt gegn múslimum. Skoðanakönnun blaðsins Le Monde sýnir að 74% af Frökkum telja Islam vera trú, sem virðir engin önnur trúarbrögð (intolerant) og er því ekki gjaldgeng trúrbrögð í Frönsku samfélagi. Það veit reyndar enginn hve margir músimar búa í Frakklandi, því það er á móti lögum að spyrja um trúarbrögð og kynþátt í opinberum skoðanakönnunum eða manntali. En almennt er talið að nú séu um 10% þjóðarinnar múslimar. Með mannfjölda sem er um 66 milljónir, þá hefur því Frakkland fleiri múslima en nokkur önnur þjóð í Evrópubandalaginu. Í sumum borgum eru múslimar mjög fjölmennir. Til dæmis í Marseille eru þeir taldir milli 30 og 40% og er sú borg talin hin hættulegasta allra borga í Evrópu. Það vakti mikla athygli nýega að í einni skoðanakönnun kom í ljós að einn af hverjum sex íbúum Frakklands hefur samúð með ISIS skæruliðum, sem eru að berjast í Sýrlandi. Hver er framtíðin? Þeim fjölgar hraðar en okkur hinum. Múslimar eru taldir ná 26,4% af mannfjölda jarðarinnar árið 2030, en voru 23,4% árið 2010. Talið er að Frakkar nái 70 milljónum árið 2030 og þar af verða 28 milljón þeirra múslimar, eða um 40%. Kannske er Michel Houellebecq á réttu róli?


Hvað olli mesta útdauða jarðar?

f1_large_1252210.jpgÉg hef nýlega fjallað um mesta útdauða eða aldauða lífríkis jarðar, í lok Perm tímabilsins. Þá dóu út um 96% af lífverum og mjög litlu munaði að jörðin yrði líflaus með öllu. Í fyrri pistlum benti ég á, að þessi útdauði, fyrir um 252 milljón árum, er nokkurn veginn á sama tíma og stórgosin urðu í Síberíu, þegar heiti reiturinn sem nú er undir Íslandi fyrst kom upp á yfirborð jarðar. Margir hafa því tengt útdauðann við eldgosin miklu. Þá hafa þeir vitnað til áhrifa frá gastegundum, sem fylgja gosunum. Brennisteinstvíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að kæla jörðina og valda útdauða. Klórgasi frá eldgosum hefur verið kennt um að eyða ósón laginu og valda stökkbreytingum. Koldíoxíði frá eldgosum hefur verið kennt um að valda gífurlegum gróðurhúsáhrifum og mjög háum hita. Þetta eru allt góðar uppástungur, en þær eru á engum rökum reistar. Hvað er það sem við vitum um þessi tímamörk? Ekki svo mikið. En nú vitum við að minnsta kosti að útdauðinn gerðist mjög hratt. Seth Burgess og félagar hafa nú ákvarðað mjög nákvæmlega hvenær þessi mikli útdauði varð. Það hafa þeir gert með aldursgreiningum á geislavirkum efnum frá þessum tímamótum í jarðsögunni. Þá kemur í ljós að útdauðinn varð fyrir um 252 milljón árum og hann stóð yfir tímabil sem er ekki lengra en um 2,1 til 18,8 þúsund ár! Þetta er sýnt á fyrstu myndinni. Þar er einnig sýnt að mjög miklar breytingar urðu á efnafræði heimshafanna, sem byrjuðu rétt fyrir útdauðann og kunna að hafa valdið honum. Þetta er sýnt sem hlutfall á tveimur samsætum eða ísótópum kolefnis, C12 og C13. C12 er mjög algengt, en C13 er yfirleitt í eða um 1%.  Þetta bendir til að mjög mikið magn af CO2 hafi borist út í andrúmsloftið og í hafið rétt fyrir útdauðann, og orsakað súrnun og hlýnun hafanna áður en CO2 barst dýpra eða veðraðist út. Slík súrnun getur beinlínis hafa orsakað útdauðann. En hvaðan kom allt þetta CO2? Er það úr eldgosum eða af öðrum rótum? Það er alls ekki ljóst. Sumir halda fast við loftsteinskenningu um þennan útdauða, en engar heimildir eru enn fyrir hendi sem styðja það. Næsta skref er að gera einnig nákvæmar aldursgreiningar á blágrýtismynduninni í Síberíu og sjá hvort hún passar við aldur útdauðans mikla. Ef til vill orskaðist þessi mesti útdauði lífríkis á jörðu af einhverjum þáttum, sem við vitum all ekkert um -- ennþá.


Jöklar hopa hratt á norðaustur Grænlandi

zachariae.jpgBráðnun Grænlandsjökuls gerist nú hraðar með ári hverju. Margir kannast við það hvernig Jakobshavn jökullinn á vestur strönd Grænlands hopar hratt, en hann hefur hopað um 35 km á 150 árum. Það er annað svæði Grænlands sem er mun mikilvægara. Það er svæðið á norðaustur Grænlandi, sem er merkt NEGIS á kortinu. Aðal skriðjökullinn hér er Zachariae jökullinn. Fram til 2003 var hann í jafnvægi, en síðasta áratuginn hefur þessi jökull hopað um 10 kílómetra og tapað um 15 til 20 gígatonnum af ís á ári í hafið (gígatonn er einn milljarður tonna).  Eins og sést á kortinu, þá er vatnasvið Zachariae jökuls eða NEGIS eitt hið stærsta á Grænlandi. Litaskalinn sýnir hversu hröð bráðnun er, en rautt er 1000 m á ári.  Það kemur nokkuð á óvart að hopun er svo mikil á þessu svæði, þar sem það liggur mjög norðarlega, í kaldara loftslagi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband