Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Uppruni Nafnsins Basalt

Krotsteinn touchstoneBasalt er algengasta bergtegund á Jörðu, og hún er einnig útbreitt á tunglinu, á Mars og hinum innri plánetum sólkerfisins. Basalt hraun mynda nær allan hafsbotninn umhverfis Jörðu. Hvaðan kemur þá þetta mikilvæga nafn? Það er sennilega upprunnið í Egyptalandi fyrir meir en fimm þúsund árum. Egyptar nota nafnið basanos fyrir svartar og vel slípaðar steinplötur, sem voru notaðar til að greina gæði málma, einkum gulls. Basanos er krotsteinn (touchstone), en þegar gull eða annar málmur var dreginn yfir svörtu plötuna, þá skildi gullið eftir sig gyllta rák, eins og fyrsta myndin sýnir. Litur rákarinnar sem myndaðist á plötunni var mælikvarði á gæði gullsins.  Kleópatra basaltÚr orðinu basanos í Egyptalandi kom síðan orðið basants í Grikklandi hinu forna og enn síðar orðið basalt í latínu Rómarveldis. Egyptar höfðu annað og mun mikilvægara brúk fyrir basalt, en það var sem hráefni í fagarar höggmyndir, ker og skálar. Hér til hliðar er til dæmis fögur mynd úr basalti af sjálfri Kleópötru frá því um 40 fyrir Krist. Maður skilur vel að hann Markús Antóníus hafi fallið fyrir henni … og einnig Júlíus Keisari. Basalt hefur verið eftirsótt hráefni fyrir listamenn í Egyptalandi, í fyrsta lagi vegna þess að það er nær svartur steinn, og í öðru lagi vegna þess hvað bergið er fínkornótt. Þess vegna verður áferðin óvenju jöfn og vel slípuð, eins og sjá má á styttunni af Kleópötru, þar sem allur búkurinn glansar af fegurð. Haddadin basaltNú er búið að finna grjótnámunar þar sem basaltið var unnið til að skapa þessar frábæru myndarstyttur af Kleópötru og faróum Egyptalands. Námurnar eru flestar í einu basalthrauni, sem er um 25 milljón ára gamalt. Það er Haddadin basalt hraunið, fyrir vestan og norðvestan Kaíró borg, eins og kortið til hliðar sýnir. Engin eldvirkni hefur verið í Egyptalandi síðan þetta hraun rann.

Mesti Fjársjóður Heims

Sri Padmanabhaswamy musteriSem börn lesum við ævintýri og sögur um mikla fjársjóði af gulli og gersemum falda í jörðu eða í hirslum auðugra konunga. Þegar við þroskumst gerum við okkur grein fyrir því að slíkur auður tilheyrir aðeins ævintýrum til. En er það alveg satt? Kannske er eitthvað til í þessu! Nýlega hefur fundist einn mesti fjársjóður sögunnar í indversku musteri. Það er Sri Padmanabhaswamy musterið í Kerala héraði í suðvestur Indlandi, en það var fyrst reist á áttundu öldinni. Siðan var það endurbyggt á sextándu öld, sem sjö hæða stórhýsi úr graníti. Musterið er helgað hindu guðnum Vishnu, og hvílir stórt líknesi af Vishnu inni í musterinu, gert úr hreinu gulli. Enda er talið að Vishnu búi í þessu musteri, og er það þar með eitt hið allra mikilvægasta í Indlandi. Fjölskylda maharaja eða konungsins í Kerala héraði hefur um alda raðir varðveitt og séð um musterið, en Travancore konungsríkið réði lengi yfir öllum syðri hluta Indlands. Það var lengi siður að konungsfjölskyldur gáfu musterinu gull öðru hvoru þegar ungir prinsar fengu meiri tign, og þá var magnið af gulli jafnt og þyngd prinsins.  MusteriAlmúginn hefur stöðugt fært musterinu gjafir, og um alda raðir hefur því ógrynni af gulli og gersemum safnast fyrir hér. Musterin á Indlandi hafa lengi safnað fé. Árið 77 fyrir Krist ritaði Plinius Eldri að til Indlands bærist að lokum allt gull jarðar. Á miðöldum streymdi gull til Indlands einkum vegna kryddverslunarinnar við vesturlönd. En nýlega komst orðrómur á kreik um að konungsfjölskyldan hefði gengið í fjársjóð musterisins og selt gull, silfur og gimsteina. Þá hófst opinber rannsókn á musterinu og þeim sex hirslum eða kjallörum þar sem fjársóðurinn er geymdur. Hirslur þessar eða steinhvelfingar nefnast kallaras á Hindu tungu, og dettur manni þá strax í hug að hér sé kominn fram uppruni íslenska orðsins kjallari (kelder á hollensku og källare á sænsku). Flestar af steinhvelfingunum hafa ekki verið opnaðar í hundruðir ára, en þessar steinhvelfingar eru lokaðar af voldugum og margföldum járndyrum og stálgrindum. Fimm af sex kjallörum musterisins hafa nú verið opnaðir af sérstakri rannsóknarnefnd. Þegar voldugar stálgrindur og járnhurðir voru opnaðar, þá kom í ljós haugar af gulli og gimsteinum á gólfinu.Guðinn Vishnu  Fjársjóurinn hafði verði í trékistum, sem höfðu fúnað og rotnað í sundur og eftir var aðeins mylsna á gólfinu en gullið flóði út um allt. Hefur fjársjóðurinn nú verið metinn sem að minnsta kosti $22 milljarðar dala, eða um 2750 milljarðar króna. Nú hefur hafist vörutalning á fjársjóðnum í fimm af sex kjöllurum, en sá sjötti er enn læstur. Tvö hundruð vopnaðir verðir gæta nú musterisins, til að vernda stærsta fjársjóð jarðar frá frekara hnupli af konugsfjölskyldunni og prestum.

Sveipir á Mars

Yfirborð MarsÞegar ég horfi á þessa mynd, þá dettur mér fyrst í hug gólfteppi, sem ég þekkti vel einu sinni, en það er auðvitað rangt. Þessi mynd var tekin nýlega af yfirborði plánetunnar Mars, nálægt miðbaug, og sýnir hún yfirborðið miklu betur en nokkru sinni fyrr. Það sem vekur strax furðu eru sveipir, spíralar eða rúllur á myndinni, sem minna óneitanlega á það hvernig skelin á kuðung er undin upp. Hraun á HawaíiÞessir spíralar eru frá 5 til 30 metrar í þvermál. Hvernig hafa þeir myndast? Ein hugmyndin er sú, að sveipirnir eða spíralarnir myndist á yfirborði hrauna, og að hér sé komin ein sönnun um stóra hraunfláka á þessu svæði á plánetunni rauðu. Ég læt fylgja hér með tvær myndir af slíkum sveipum, sem eru teknar á yfirborði ungra hrauna á Hawaíi. Lesandinn getur svo dæmt um hvort þetta sé líkleg skýring. Hraun með sveip á HawaíiEn það er fleira merkilegt á myndinni frá Mars. Eitt eru bólur á yfirborði, sem gætu verið gasbólur í hrauni, og hitt atriðið eru tíglarnir, sem einkenna allt yfirborðið. Þeir minna óneitanlega á það mynstur sem verður til á yfirborði vegns stuðlabergsmyndunar í hrauni.  En snúum aftur af sveipunum á Mars. Takið eftir að þeir eru ALLIR með hægri snúning.  ÞAð minnig mig á þá staðreynd, að um 90% af öllum tegundum kuðunga eru einnig með hægri snúning.  Er þessi stöðuga snúningsstefna í sveipunum háð stefnu hraunrennslis?

Maðurinn sem uppgötvaði íslandít

Ian CarmichaelHinar ýmsu bergtegundir sem myndast á Jörðu bera hver sitt nafn, og fjallar bergfræðin m.a. um þá nafngift.  Þannig höfum við nöfn eins og basalt, líparít, gabbró, granít ofl. Það er ekki oft að nafn bætist við í þessa mikilvægu nafnaröð vísindanna, en árið 1958 kom út doktorsriterð í Bretlandi með nýtt nafn, icelandite eða íslandít.  Það var jarðfræðingurinn Ian Carmichael sem gaf bergtegundinni þetta nafn, en hann uppgötvaði íslandít auðvitað á Íslandi, í fjallinu Þingmúla uppaf Reyðarfirði.  Ian starfaði við jarðfræðirannsóknir á Þingmúla og nágrenni undir handleiðslu George Walker´s, sem kenndi þá við Imperial College í London. Ian tók eftir því að í Þingmúla voru forn hraun, sem höfðu marga eiginleika andesíts (hraunkvika með um 55 til 65% kísil), en bergið í Þingmúla hafði aðra efnafræðilega eiginleika, svo sem mjög hátt járn innihald, og hann lagði til að það væri svo sérstakt að bergið þyrfti nýtt nafn.  Þessi bergtegund er reyndar nokkuð algeng á Íslandi, til dæmis í Grundarmön á Snæfellsnesi, og hana má einnig finna á nokkrum öðrum eldfjallsvæðum Jörðu, einkum á Galapagos eyjum.  Íslandít er mjög dökkt berg, oftast fínkornótt, næstum eins og gler, og mjög stökkt. En þetta var aðeins ein af mörgum uppgötvunum Ians Carmichael.  Hann átti mjög glæsilegan feril sem vísindamaður, og starfaði í fjölda ára sem prófessor við Berkeley Háskóla í Kalíforníu. Hann gaf út kennslubækur og grundvallarrit í bergfræði, ól upp mikinn hóp af frábærum stúdentum sem nú skipa veglegar stöður bergfræðinga í mörgum háskólum heims.  Ian skifti sér ekki mikið meir af jarðfræði Íslands eftir doktorsritgerðina, heldur rannsakaði lengi eldfjöll í Mexíkó, Nýju Gíneu og víðar.  Hann lést árið 2011, og þar með féll frá einn merkasti jarðvísindamaður tuttugustu aldarinnar ... sem kom nafni Íslands inn í kennslubækurnar á sínu sviði.  Eintök af íslandíti frá Grundarmön má meðal annars skoða í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.

Tindfjallajökull - Stærsta gosið á Íslandi?

Tindfjallajökull

Ég gekk á Tindfjallajökul í blíðu veðri nú í vikunni og naut mikillar náttúrufegurðar þar.  Þótt Tindfjallajökull sé sennilega eitt óþekktasta og minnst kannaða eldfjallið á Íslandi, þá er það einmitt sú eldstöð sem hefur fætt af sér stærsta gosið sem við vitum um hér á landi. Það voru reyndar ekki jarðfræðiathuganir á landi, heldur rannsóknir á setlögum á hafsbotni suður í Atlantshafi árið 1941 sem gáfu fyrstu vísbendingar um mikið sprengigos á Atlantshafssvæðinu á ísöld. Frekari kannanir sýndu að það má rekja mikla  öskudreif á hafsbotni allt frá svæðinu fyrir norðan Azoreyjar og til Íslands og hlaut hún nafnið Ash Zone-2.  Síðan sýndum við fram á árið 1998 að efnasamseting á gleri eða tinnu í öskunni er sú sama og í gjóskuflóðsmyndun sem finnst í Þórsmörk, en hún er komin úr Tindfjallajökli.  Þá aldursgreindum við bergið í Þórsmörk sem er komið úr Tindfjallajökli og reyndist það vera frá sprengigosi sem varðfyrir um 54 þúsund árum síðan. Askan frá þessu gosi finnst einnig í  Grænlandsjökli, og hefur aldur gossins verið áætlaður um 57þúsund ár samkvæmt því. Við áætlum að heildarmagn gjósku frá þessu gosi, bæði í sjó og á landi, sé ekki innan við 20 km3.  Þegar Tindfjallajökull gaus, þá var Ísland að mestu hulið jöklum. Gjóskan streymdi sem gjóskuflóð yfir jökla og yfir láglendi, á haf út.  Gjóskufall var mikið á hafísinn umhverfis landið. Ísinn rak til vesturs og suðurs, út í Atlantshafið, og bar á yfirborðinu gjóskuna frá Tindfjallajöklis em töluvert öskulag.  Ísinn rak sunnar þar til hann bráðnaði nokkuð fyrir norðan Azoreyjar og askan féll til botns, og blandaðist venjulegu sjávarseti.  Í dag eru mestu vegsummerkin eftir gosið form og lögun Tindfjalla. Eins og sést á myndinni eftir Odd Sigurðsson, er greinileg hringlaga askja í fjallinu, og hefur hún sennilega myndast við þetta stórgos.   Tindfjallajökull er alls ekki dauður í öllum æðum.  Hér varð til dæmis jarðskjálftahrina árið 2000 og sumarið 2001. Jökullinn er um 15 ferkílómetrar og er talinn vera um 50 til 150 m á þykkt, en hann þynnist og minnkar stöðugt.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband