Unobtainium og Kvikmyndin Avatar 3D

Avatar 3DÍ frumefnatöflunni eða lotukerfinu eru talin alls 118 frumefni sem eru möguleg í heimi okkar. Þar af eru 94 þekkt frumefni sem koma fyrir í náttúrunni. Hin frumefnin eru gerviefni, sem hafa verið búin til í ýmsum tilraunum, en þau eru ekki í jafnvægi og hverfa um leið. Það nýjasta er frumefni númer 118, sem ber nafnið Ununoctium og var framleitt í kjarnaofni í Rússlandi árið 2006. Nú virðist enn eitt frumefni í viðbót bætast í hópinn, en það er Unobtainium, sem finnst í miklu magni á plánetunni Pandóru, eins og kemur nú fram í kvikmyndinni Avatar 3D. Vel vopnað lið Bandaríkjamanna ræðst inn á Pandóru árið 2154, til að hefja námugröft á hinu verðmæta frumefni Unobtainium (ísl. ófánalegtíum?). Græðgi, rányrkju og grófustu náttúruspjöllum er hér stillt upp andspænis innfæddum þjóðflokki, sem nefnast Na´vi, en þeir lifa í sátt og jafnvægi við náttúruna. Kvikmyndin er stórkostleg, einkum fyrir tölvuvinnu með GCI tækni, en allt fer vel á endanum. En myndin er listaverk og mjög áhrifamikið áróðurstól sem mun marka tímamót, að mínu áliti. UnobtainíumBoðskapur hennar er hreinn og tær, einmitt nú þegar almenningur um allan heim er að vakna af vondum draumi varðandi spillingu umhverfis okkar og hætulegra loftslagsbreytinga. Það kemur ekki fram í myndinni til hvers nota átti hið verðmæta og eftirsótta Unobtainíum. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem heitið Unobtainium kemur fram í dagsljósið. Í kringum 1960 notuðu bandarískir flugverkfræðingar nafnið Unobtainium fyrir léttan og sterkan málm sem þeir sóttust eftir en gátu ekki fengið í flugvélarnar, en það er efnið títaníum. Sovétríkin sátu á öllum birgðunum af títaníum á þeim tímum Kalda Stríðsins og vildu ekki láta af hendi. Síðan hafa verfræðingar notað nafnið fyrir öll ímynduð efni sem þeir vildu helst hafa við hendina en eru ekki ennþá uppgötvuð eða fáanleg. Satt að segja var ég alveg hissa á því að James Cameron skyldi nota nafnið Unobtainíum í kvikmynd sinni, og leyfa sér slíkan prívat brandara, sem kynni að gera hluta verksins að gamanmynd. James Cameron leyfir sér annan prívat brandara í myndinni, þegar hann skírir plánetuna Pandóru. Í grísku goðafræðinni er Pandóra fyrsta konan. ÓfáanlegtíumHenni var gefin askja þar sem guðirnir komu fyrir ýmsum gjöfum, með þeim fyrirmælum að hún skyldi ekki opna öskjuna. En Pandóra var gædd kvenlegri forvitni, og gat ekki staðist freistinguna. Þá slapp úr öskjunni allt hið illa, sjúkdómar, hégómi, öfund, og fleiri mannlegir brestir. Neðst í öskjunni var vonin, en Pandóra skellti lokinu á áður en vonin komst út. Í Avatar er vonin sjáanleg.Það er enginn guð í þessari mynd, heldur er náttúran sjálf mikilvægasti og æðsti krafturinn. En þetta hafa lengi verið skilaboðin frá Hollywood, til dæmis með myndunum Dancing with wolves og Pocahontas. Þótt þeir innfæddu séu bláir, þá er myndin Græn, og mikil ádeila á hernað. Sjálfsagt mun mörgum íhaldsmönnum þykja boðskapurinn rangur og ganga of langt á móti stefnu um iðnvæðingu og “framfarir”, en Hollywood hefur nú yfirleitt farið sínar eigin leiðir í þeim málum (að undanskildum leikurunum Ronald Regan, John Wayne og Charlton Heston).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband