Ásgrímur og Eldgosin

SkjaldbreiðurFyrsti íslenski listmálarinn sem reyndi í alvöru að mála eldgos var Ásgrímur Jónsson. Við sýnum þrjár myndir efir hann í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem fylgja hér með, en þær eru frá Listasafni Íslands. Í skrá Listasafns Íslands eru samtals 2082 verk talin eftir Ásgrím Jónsson. Þar af eru að minnsta kosti þrjátíu og fimm verk sem eru beinlínis af eldgosum eða áhrifum þeirra. Í viðbót eru allmargar landslagsmyndir eftir hann af eldfjöllum, einkum af Heklu og Öræfajökli, en myndin hér fyrir ofan er af Skjaldbreið frá 1922. Þannig hafa eldgos og eldfjöllin átt ótrúlega ríkan þátt í myndsköpun Ásgríms.  Flótti frá EldgosiÞað er merkilegt að eldgosamyndirnar voru flestar gerðar á tveimur tímabilum. Það fyrra var frá um 1904 til 1908, og síðar á árunum 1945 til 1955. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) hefur lengi verið talinn meðal ágætustu málara Íslands. Reyndar er ferill hann ævintýri líkastur, en hann fæddist á bænum Rútsstaðahjáleigu í Flóanum. Sagan segir að hann sá Heklu gjósa þegar hann var tveggja ára og mundi alla ævi eftir eldglæringunum. Það getur nú ekki verið rétt, þar sem Hekla gaus 1845, 1913 og 1947. Katla gaus 1918, Eyjafjallajökull 1823, svo það er ekki ljóst hvaða gos Ásgrímur kann að hafa séð, ef nokkur, en auðvitað hefur hann heyrt mikið talað um fyrri eldgos, einkum Heklugosið 1845 og Skaftárelda 1783.  Skaftáreldar eftir ÁsgrímHann byrjar sem fátækur bóndasonur og sjómaður, og heldur út til Danmerkur til að helga sig listinni. Fyrst vann hann á verkstæði og málaði húsgögn en síðar fer hann í nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1899. Hann kynnist einnig listinni í Þýskalandi á þessum tíma. Hann komst alla leið suður til Ítalíu árið 1908 og málaði þar sínar fyrstu eldgosmyndir. Er hann snýr aftur heim 1909 hjálpar hann Íslendingum að sjá land sitt í nýju ljósi, og hann verður fljótt af einum mestu jötnum íslenskrar listasögu, og fyrsti málarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi hér á landi. Einnig var hann virkur kennari og Jóhannes Kjarval var í tímum hjá Ásgrími. Naturalismi og raunsæisstefna eru efst í myndsköpun hans, en það er oft rætt um að Ásgrímur hafi fengið stíl sinn að hluta til frá franska málaranum Jean-Baptiste-Camille Corot (1796-1875). Corot var frægur landslagsmálari af Barbizon skólanum, og er oft talinn forfaðir Impressionismans. Þekktasta eldgosamynd Ásgríms er kölluð Flótti undan Eldgosi, og er máluð frá um 1945 til 1950 (LI-AJ-0017). Tveir menn eru á ferð með hesta og mikill jarðeldur er í bakgrunni. Eru þeir á flótta undan hrauninu í Skaftáreldum? Ásgrímur gerði tvær vatnslitamyndir af eldgosum þegar hann var á ferð á Ítalíu 1908. Mörg eru eldfjöllin á Ítalíu, og Vesúvíus þeirra frægast.  Hann gaus 1906 og hefur enn verið rjúkandi ef Ásgrímur fór þar um. Önnur vatnslitamyndin (LI-ÁJ-527, Eldgos) sem var gerð á Ítalíu árið 1908 er vafalítið byggð á hugmynd Ásgríms um Skaftárelda og þann fræga atburð þegar séra Jón Steingrímsson hélt eldmessuna hinn 20. júlí 1783 sem sagan segir að hafi stöðvað framrás Skaftáreldahrauns og þar með bjargað Kirkjubæjarklaustri. Það er heilmargt að gerast í þessarri vatnslitamynd og mikil hreyfing. Söfnuðurinn stendur óttasleginn við kirkjudyrnar. Séra Jón er hempuklæddur og með bíblíuna undir hendi. Bláklædd kona í skautbúningi stendur í kirkjudyrum og ber hönd að enni, eins og það sé að líða yfir hana. Allir horfa til fjalls, þar sem eldar geisa, væntanlega frá Lakagígum. Mér finnst hin vatnslitamyndin sem var gerð á Ítalíu 1908 (LI-ÁJ-403 Eldgos) vera besta gosmyndin hans Ásgríms og sú djarfasta. Eldský rís yfir fjallinu, og furðulegir bjartir geislar stafa frá því til himins. Snævi þakin sléttan skilur eldfjallið frá fólkinu í forgrunni. Konur með skuplur eða klúta bundna yfir höfuð halda á ungum börnum, og allir stara í áttina til eldfjallsins. Ég hef sett fram hér aðeins nokkra púnkta varðandi eldgosamyndir Ásgríms, en áhugi hans á eldgosum og túlkunin sem kemur fram í myndum hans er mikilvægt verkefni sem er verðugt fyrir listfræðinga að kanna frekar.Eldgos eftir Ásgrím

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband