Gullið í Grænlandi

NalunaqAf hverju finnst gull á Grænlandi, en eiginlega ekkert í bergi á Íslandi? Það er aldur og jarðsaga sem ræður því. Grænland er meðal elstu landa jarðar, allt að 4 milljarðar ára gamalt. Gamalt berg hefur gengið í margt í gegnum jarðaldirnar, eins og gefur að skilja. Grænland hefur til dæmi verið staðsett fyrir sunnan miðbaug, en rak síðan norður. Grænland hefur líka verið grafið djúpt í jörðu, tugi kílómetra, sem hefur hitað og soðið jarðskorpuna og skilið að ýmsar efnasamstæður og frumefni á vissum svæðum. Þá ummyndast bergið og hnoðast, eins og þegar við bökum marmaraköku. Heitir vökvar, sem eru eins konar millistig milli hraunkviku og heita vatnsins okkar, bera með sér þessi efni úr dýpinu, en svo falla þau út og kristallast þegar vökvinn kemur upp í kaldara berg. Þá myndast málmæðar, sem eru grundvöllur fyrir námurekstri.

Það er ótrúleg fjölbreytni í málmum og verðmætum frumefnum í jarðskorpu Grænlands. Framtíðin mun skera úr um, hvernig Grænlendingar munu fara með þessi miku auðæfi í jörðu, en námuvinnsla þar mun hafa gífurleg og neikvæð áhrif á umhverfið, allt til Íslands. Til þessa hefur námugröftur gengið fremur illa, vegna þess að aðstæður allar eru erfiðar og innviði vantar (orka, hafnir, vinnuafl, samgöngur, veðurfar ofl.). Í dag eru fiskveiðar aðal atvinnugrein Grðnlendinga, með fisk um 90% af öllum útflutningi.

En þetta mun breytast með hnattrænni hlýnun jarðar. Auðæfi Grænlands er risastór og merkileg saga. Þar er gull, demantar, rúbínar, heilt fjall af járni, sjaldgæfu jarðefnin (rare earths) sem eru ómissandi í raftækni iðnaðinn og ef til vill olía. Til þessa hafa það verið aðallega námufélög frá Ástralíu og Kanada, sem grafa í Grænlandi, sem eyða um 500 milljón danksar krónur á ári þar.

            Þrátt fyrir öll þessi auðæfi, þá er gull eiginlega eina efnið sem hefur verið unnið í námum Grænlands til þessa. Það er gullnáman Nalunaq á suður Grænlandi, sem Angel Mining félagið hefur grafið í síðan árið 2004 í fjallinu sem nefnist Kirkespiret eða “kirkjuturninn” (sjá mynd). Hún er staðsett um 100 km fyrir suðaustan Bröttuhlíð. Hér kemur gullið fyrir í æðum af kvartzi, sem eru allt að 1 meter á breidd. Í æðunum er magnið af goldgulli milli 18 g 21 grömm í hverju tonni af bergi.   Um tíma komu um 11 til 15 kg af gulli út úr námunni í hverjum mánuði.  Þetta er sem sagt hágæða náma, en þrátt fyrir það var námunni lokað í ágúst árið 2013 vegna falls á gulli á heimsmarkaðnum. Þá féll gull um 30%, frá $1872/oz. og niður fyrir $1300/ oz. Það borgaði sig ekki að halda áfram rekstri. Eins og línuritið sýnir, þá hefur gull frekar lækkað eða staðið í stað á heimsmarkaðnum síðan.

Nú berast fréttir þess efnis að íslenskt fyrirtæki, Alopex Gold, sé að hefja gröft eftir gulli í Nalunaq námunni. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur með námugröft og rekstur á þessu einangraða og erfiða svæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þetta hljóta að vera einhverjir Gullrefir, þar sem þeir nota nafnið Alopex Gold. Alopex lapogus er fræðilegt heiti heimskautarefsins og þess íslenska.

Ef eitthvað gengur há þeim rebbum, dratthölum og lágfótum, verður það aðeins til þess að gullverðið lækkar og það stuðlar að því að þeir ríkustu hér í heiminum verða ríkari og þeir fátækustu fátækari.  Annars hef ég lesið mér til um að gullið á Grænlandi sé ekki auðunnið. Það gerir líklega fljótt út af við þessa íslensku tófu.

FORNLEIFUR, 15.7.2017 kl. 06:11

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Þetta er Eldur í Geysir með kínverskt kapítal í rassvasanum. Læra menn aldrei af mistökunum?

FORNLEIFUR, 15.7.2017 kl. 06:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband