Fólksfjölgun er enn stærsta vandamálið

Lengi hefur það verið almennt haldið að draga myndi fljótlega úr hinum hraða vexti á fólksfjölda á jörðu. Nú reynist það rangt. Spár Sameinuðu Þjóðanna hafa alltaf reynst rangar. Fólksfjölgun er enn mjög mikil og hefur það bein áhrif á loftslagsbreytingar. Mannfjöldinn á jörðu tvöfaldast nú á aðeins um 40 árum. Þannig fjölgaði okkur frá 3 milljörðum árið 1960 til 6 milljarða árið 2000.   Línuritið í fyrstu mynd sýnir þróunina og það er ljóst að lítið hægir á fjölguninni. FjölgunTakið eftir að lóðrétti ásinn er logri eða logariþmi, í milljörðum. Við bætum við um 82 milljónum á hverju ári, sem er eins og eitt Þýskaland bætist við mannfólkið á jörðu á hverju ári. En fjölgun mannkyns dreifist nú öðruvísi en áður var. Viss lönd, einkum Kína, hafa náð góðri stjórn á fólksfjölda með ástundun og mikilli hörku, en í mörgum öðrum löndum, einkum í Afríku, er fjölgunin enn mjög mikil. Fjölgun á jörðu skapar mörg vandamál. Eitt er að fæða allt þetta fólk, en hitt gleymist oft að fólksfjölgun hefur bein áhrif á hnattræna hlýnun. Við brennum og borðum auðvitað í réttu hlutfalli við fólksfjöldann.   Með fólksfjölgun fylgir vaxandi losun lofttegunda, sem valda vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Um þetta hefur Stephen G. Warren fjallað nýlega í vísindaritinu Earth´s Future.   Stóra málið á bak við fjölgun mannkyns er frjósemi kvenna, eða fjöldi barna sem hver kona ber. Í Asíu hefur frjósemi minnkað úr 5,9 börnum á hverja konu árið 1950, niður í 2,2 börn árið 2013. Í Afríku stendur frjósemin hins vegar í stað, um 4,8 börn á hverja móður. Í Evrópu og Norður Ameríku er hún aðeins 1,6 og 1,9 börn á hverja móður. Frjósemi á Íslandi hefur breyst mjög hratt á síðustu öld. Frjósemi á Íslandi var hærri en annars staðar í Evrópu á fyrri árum. Eins og línuritið sýnir, þá var frjósemi kvenna hér á landi um 4,0 í kringum 1950 til 1960, en hefur svo lækkað um helming, niður í um tvö börn á hverja konu. Frjósemi á Íslandi

Vöxtur eða fjölgun allra tegunda í lífríkinu heldur áfram þar til einhver utanað komandi áhrif stöðva hann. Það geta verið takmarkanir eins og fæðuskortur, sjúkdómar, styrjöld, eða umhverfistruflun (loftslagsbreytingar ofl.). Páskaeyja í Kyrrahafi er eitt lítið dæmi. Þessi einangraða eldfjallsey var uppgötvuð í kringum 600 e.Kr. og aðeins 20 til 30 Polynesar komu hingað í smábátum. Þeim fjölgaði og árið 1600 voru þeir orðnir um 6000 að tölu. Þá var mannþröng svo mikil á eynni að allir skógar voru höggnir, hungursneyð ríkti, styrjöld og mannaát tók við.  Mannfræðin sýnir okkur að þessi offjölgun á Páskaeyju varð vegna þess að frjósemin var um eða yfir 2,3. Það þarf ekki mikið til að koma kerfinu í algjört öngþveiti.

Kína er alveg sérstakt tilfelli, sem vísar okkur veginn í stjórn fólksfjölgunar á jörðu. Í Kína var frjósemi lengi um sex börn allt til 1970, eins og línuritið sýnir. Þá innleiddi stjórn landsins harða stefnu um eitt barn, og síðan hefur frjósemi fallið niður í 1,8.   Það er magt sem hefur áhrif á frjósemi kvenna yfir leitt. Til dæmis er frjósemi í öfugu hlutfalli við menntun. Annað mikilvægt atriði er að getnaðarvarnir séu fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ef til vill er mikilvægasta atriðið samt einfaldlega frelsi kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Frjósemi er há á svæðum þar sem trúarofstæki er ríkjandi, eins og til dæmis meðal mormóna í Utah í Bandaríkjunum og í Ísrael. Sínasta línuritið sýnir svo frjósemina í Kína. Kína frjósemi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Mengun umfram náttúrulega mengun hér á jörð, stafar af of mörgu fólki sem étur of mikið og drullar of mikið og það versta við menn er að þeir þurfa alltaf að sameinast um að drulla sem flestir í sama pyttinn. 

Öðruvísi hafast dýr merkurinnar að og leggja frá sér úrgang sinn hér og þar sem hann gagnast til uppgræðslu.  En frá stórborgum manna streymir óþveri.

Ég sagði einhvern tíman að okkur íslendingum lægi ekkert á að verða miljón. En þá snérust öndverðir gegn því tali mínu trúaðir og vantrúaðir, þannig að það er ekki einfalt að halda fram skoðunum sínum á Íslandi.  

Hrólfur Þ Hraundal, 22.4.2015 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband