Spádómar í Vísindum

spáÞað er lítið gagn af vísindum, ef við getum ekki beitt þeim til að spá um framvindu mála.  Auðvitað er spá algeng í okkar daglega lífi. Þegar ég flýg frá Boston kl. 2135, þá spáir Icelandair því að ég lendi í Keflavík kl. 640 næsta morgun. Þessi spá rætist oftast, enda eru mjög góðar upplýsingar til um flughraða, vinda í lofti og aðra þætti, sem stýra fluginu.   Veðurspá þar sem ég bý á austurströnd Norður Ameríku er nokkuð góð, alveg upp á klukkutíma, enda má “sjá” veðrið koma úr vestri yfir meginlandið og vel fylgst með. Veðurfræðingar hafa góð líkön (góða kenningu) og fá stöðugt upplýsingar frá fjölda stöðva. En um spá á því, sem gerist inni í jörðinni gegnir öðru máli.

Mig grunar að spádómar um sólmyrkva séu ef til vill fyrstu spárnar meðal mannfólksins. Hvernig skyldi fávísum manni hafa liðið til forna, þegar sólmyrkvi skellur á um miðjan dag? Í lítt þróuðum þjóðfélögum til forna hefur sólmyrkvi ætið verið talin mikil ógnun og valdið skelkun meðal almennings. Með því að spá fyrir um sólmyrkva og undirbúa trúarlega stórathöfn fyrirfram, þá gátu konungar Mayanna sýnt vald sitt. Þannig beittu þeir upplýsingum sem fræðimenn eða “prestar” í þjónustu konungs höfðu safnað í alda raðir til að spá um slíka atburði og gang himintunglanna almennt. Dagatal Mayanna í Mexíkó og Mið-Ameríku var gert á 11 og 12. öld f.Kr. Það er svo nákvæmt að það spáði til dæmis vel fyrir sólmyrkvann sem varð í júlí 1991.   Kínverjar voru farnir að spá fyrir um sólmyrkva um 2300 f.Kr. en gangur sólar var talin mikilvæg vísbending um heilsufar keisarans. Spá er eitt af höfuð tólum vísindanna til að sannreyna kenningar. Vísindi er aðferð okkar mannkyns til að rannsaka náttúru og umhverfið. Þegar við rannsökum eða athugum eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, eins og til dæmis eldgos, og sjáum að það virðist fylgja einhverri ákveðinni hegðun, þá getum við komið fram með kenningu, sem skýrir atburðinn. Til þess að kenningin geti verið tekin gild í heimi vísindanna, þá þarf kenningin að hafa spádómsgildi. Spá er þriðja stóra skrefið í ferli hinnar vísindalegu aðferðar. Fyrsta skrefið er athugun eða rannsókn. Annað skref er þá kenning sem byggist á athugunum og það þriðja síðan spá um það sem framundan er. Ef kenningin er rétt, þá mun spáin rætast. Spáin er stærsta og mesta prófraun vísindanna, en það er því miður ekki oft sem spá um atburði í jarðvísindunum hefur verið gerð eða hefur tekist. Það stafar af því að við “sjáum” illa það sem gerist niðri í jörðinni, en sjáum betur það sem gerist á himni eða á yfirborði jarðar. En rétt er að benda á að spá getur einnig verið rétt einungis af tilviljun. Því oftar sem hún reynist rétt, því betur getum við treyst henni. Þá getum við byrjað að treysta líkaninu, sem spáin byggist á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já Haraldur, spávísindin eiga sér margar ólíkar hliðar og viskuvíddir. Margar samþykktar og margar ósamþykktar hliðar, af hinu opinbera stjórnsýslu-heimsveldiskerfi.

Sannleikans siðferðisnæmni væri vel þegin og nauðsynlegur förunautur, í þessum vísindaleiðangri jarðarbúa.

Opinbera fréttakerfið á eftir að fatta mikilvægi sannleikans og réttlætisins, og heildarhagkvæmni samstöðunnar velviljuðu og vel upplýstu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.3.2015 kl. 21:56

2 identicon

Nú er BB farin að blása út, ef sama teori er notuð þá gýs sirka í oktober, veðja á 27

.Audunn Thorsteinsson (IP-tala skráð) 12.3.2015 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband