Gosið heldur áfram

sigjan2015.jpgÍslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : "Ekkert samband nú sem stendur". Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Gleðilegt árið Haraldur.

En ef þetta er nú ekki svona heldur omvent? Fallið sem þú sýnir og er réttilega ótrúlega stærðfræðilegt, meira að segja afi hefði notað þetta sem dæmi í MR og HÍ ef þetta hefði verið mælt og lesið fyrir 30 árum. Ef (aftur ef..) það snýr nú á hvolfi með aðfelluna núna sem botn og síðan pundar allt áfram eins og ekkert hafi í skorist, er það ekki hinn möguleikinn?

Kv.

Sindri

Sindri Karl Sigurðsson, 18.1.2015 kl. 20:47

2 identicon

Hvað er R í þessu falli?

Einar Steingrimsson (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 23:09

3 identicon

Og tvær spurningar í viðbót:

2.  Er einhver einföld skýring á því af hverju þetta er annars stigs margliða?

3.  Ef ég tek alla skjálfta í Bárðarbungu í einn sólarhring, hef 10 upp í veldið af styrk hvers þeirra og legg allar þær tölur saman, og geri svo það sama fyrir næsta sólarhring, fæ ég þá rétt hlutfall milli orkunnar sem leysist í jarðskjálftum hvors sólarhrings fyrir sig?

Þ.e.a.s., ef summa þessara velda er t.d. 4000 einn sólarhring og 8000 næsta, þýðir það þá að losnað hafi tvöföld orka síðari sólarhringinn miðað við þann fyrri?

Einar Steingrimsson (IP-tala skráð) 18.1.2015 kl. 23:17

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Einar: R2 er mælikvarði á hvað mælingarnar eru nálægt því að falla á kúrvuna. Ef R2 er 1,000 þá eru allir púnktarnir á línunni. Gögnin eru mjög nálægt því. Þetta er staðalfrávik í samfylgni mælinganna.

Haraldur Sigurðsson, 19.1.2015 kl. 00:00

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Einar: Hvað snertir orku í jarðskjálftum, þá er það ekki log 10.  Munurinn til dæmis á skjálfta sem hefur styrkinn 3 og skjálfta með styrkinn 4 er ekki tíu, heldur um 32.  Annars ertu á réttri leið.

Haraldur Sigurðsson, 19.1.2015 kl. 00:03

6 identicon

Takk fyrir svörin, Haraldur, og takk fyrir þetta mjög svo áhugaverða blogg!

Einar Steingrimsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 00:21

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Einar: Ég tel að ástæðan fyrir því, að fyrirbærið er best sýnt sem annars stigs margliða sé sú, að hér er tvennt að gerast.  Í fyrsta lagi er sig öskjunnar vegna hraunrennslis út úr kvikuþrónni undir Bárðarbungu og til norðurs. Í öðru lagi hefur sigið stöðugt verið að hægja á sér frá upphafi.

Haraldur Sigurðsson, 19.1.2015 kl. 07:33

8 identicon

Sæll og blessaður Haraldur og Gleðilegt ár.

Búinn að lesa yfir greinar þínar og spáðir því að innan ekki langs tíma verði þarna sprengigos þegar klakastykki hundruðin tonna detta ofan í kvikugatið og um leið verður breyting á högum gossins.

Það eru enn hraunrásir sem koma upp 100km beint út af Reykjanesi á 20km dýpi og þú varst búinn að skoða og þetta fer undir íbúðabyggð við Álverið eftir hryggjastykkinu ofan við þorpið og svo áfram austur en hinn austur með suðurlandinu.Þessir tveir hraunstraumar mætast í 1 fara framhjá helstu stöðum en stöðvast við Kötlu gömlu.

Þangað inn eru nokkrir inngangar 2 að vestanverðu um miðbik hennar og 1 voð sv.hornið þar sem hún mun byrja. Miklar tundrur eru þarna inni ofarlega og komist eldglóðin í þetta efni og kveikir í eru áhrifin +á við amk.1 kjarnorkusprengju.

með kveðju

ÞG

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 12:15

9 identicon

Sæll Haraldur,

Er ekki mögulegt að þetta sé veldisvísisfall af gerðinn

H(t)=a(exp(-bt)-1)  Þá væri a = endanleg lækkun og b = hraðafasti lækkunar?  - þetta er bara tilgáta leikmanns.

Bestu kveðjur 

Ragnar

Ragnar Johannsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 15:38

10 identicon

Sæll Haraldur,

Er ekki mögulegt að þetta sé veldisvísisfall af gerðinn

H(t)=a(exp(-bt)-1)  Þá væri a = endanleg lækkun og b = hraðafasti lækkunar?  - þetta er bara tilgáta leikmanns.

Bestu kveðjur 

Ragnar

Ragnar Johannsson (IP-tala skráð) 19.1.2015 kl. 15:41

11 Smámynd: Njörður Helgason

Er það möguleiki að við eldvarpið í Holuhrauni myndist dyngja?

Njörður Helgason, 21.1.2015 kl. 16:53

12 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nei, ég tel það ólíklegt.  Dyngjur myndast úr mjög frumstæðu basalti, sem kemur beint úr möttli.  Þetta basalt, sem nú gýs í Holuhrauni er þróað, enda úr kvikuþró í jarðskorpunni undir Bárðarbungu. Dyngjur eru sennilega flestar eða allar myndaðar skömmu eftir að ísöld lauk.  Þá varð mikill léttir á jarðskorpunni, þegar ísinn fór hratt af, og við það varð mikil partbráðnun í möttli. Einnig virðast flestar ef ekki allar dyngjur gjósa upp um einfalt op, en ekki á sprungu, eins og hæer gerist.

Haraldur Sigurðsson, 21.1.2015 kl. 17:02

13 Smámynd: Njörður Helgason

Kærar þakkir Haraldur.

Njörður Helgason, 21.1.2015 kl. 18:36

14 Smámynd: Njörður Helgason

Kæra þakkir!

Njörður Helgason, 21.1.2015 kl. 18:37

15 identicon

 Sæll Haraldur.
Takk fyrir fræðandi og skemmtilegt blogg.

Þegar sighraði öskjunnar er skoðaður sést einmitt að það hægir á sigi. getur ekki ástæðan verið sú að kvikuþróin er einfaldlega að stækka því neðar sem við förum, þ.e. ímyndað yfirborð kvikuhólfsins á sérhverjum lóðréttum stað stækkar því neðar sem við förum og því hægir á siginu í samræmi við það?
Ef svo er, er þá möguleiki að línuritið sem þú gerðir sýni í raun þegar yfirborð kvikunnar í þrónni nálgast óendanlegt í stað áætluð goslok?
Hefur sig öskjunnar verið borið saman við áætlað hraunrennsli úr eldstöðinni á hverjum tíma fyrir sig?
Það væri fróðlegt að sjá svipaða jöfnu yfir áætlað hraunrensli á tímaskala. Með því móti ætti að vera hægt að reikna teoriska lögun kvikuþrónnar/"tappans". Eða hvað?
Kveðja
Reynir

Reynir Georgsson (IP-tala skráð) 22.1.2015 kl. 14:46

16 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Haraldur
Á Fb-vef Jarðfræðistofnunnar kemur fram ef ég skil rétt að Bárðarbunga hafi undanfarið sigið um 60.000 m3 á sekúndu en hraun sem komi úr gígunum í Holuhrauni flæði upp sem nemi 100.000 m3 á sekúndu. Þá vitum við að hraunið sem kemur upp er bæði mjög óþroskað, þunnfljótandi og heitt umfram það sem mætti búat við um þroskaða hraun úr kvikiþró.

Veist þú hvort þetta hraun sé efnafræðilega og jarðfræðilega skilt basalt hraunum „Siberian Traps“. T.d. vegna brennisteins-díoxíð magnsins?
Sá atburður (ef hægt er að kalla það einn atburð) stóð auðvitað  margfalt lengur en Holuhraun, líklega milljónfalt lengur þar sem talað er um að „Siberian Traps“ hafi komið úr gosi sem stóð í milljón ár.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.1.2015 kl. 19:56

17 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Er þá kvikuþró Bárðarbungu nægilega stór til að rúma allt Þjórsárhraunið og kvikuþró Grímsvatnastöðvarinnar til að rúma allt Lakagíga-hraunið? Eða gerist kannski eitthvað fleira við svona stór flæðigos en það eitt að kvikuþróin losi úr sér eftir sprungukerfi eldstöðvarinnar og uppá yfirborðið. Nú þekki ég ekki þessa efnafræði og eldfjallafræði nægilega vel en er Holuhraunið ekki fremur frumstætt, þunnt og heitt miðað við hraun sem við þekkjum og örugglega hafa komið beint úr kvikuþró eldstöðvar svo ekki sé talað um sem lengi hefur verið í dvala? Eða er það bara misskilningur minn?

Helgi Jóhann Hauksson, 27.1.2015 kl. 20:16

18 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Helgi:  Margar góðar spurningar hjá þér, en svör við flestum þeirra má finna í fyrri bloggum mínum. Til dæmis með hlutfall kviku sem kemur út úr þrónni og rúmmál hraunsins.  Ég fjallaði áður um það, og benti á að það er algengt að hraunin eru meiri að rúmmáli, sennilega vegna þess að á og nærri yfirborði vex rúmmál hraunsis vegna þess að gas leysist úr læðingi og berir hraunið blöðrótt.

Varðandi efnafræði kvikunnar, þá bloggaði ég áður um, að þessi kvika er EKKI frumstæð, heldur nokkuð þróuð. Hún kemur ekki beint úr möttli, heldur hefur sitið í kvikuþró í jarðskorpunni einhvern tíma. Ég bloggaði einnig um hita hennar, en þessi kvika er ekki sérlega heit. Heit kvika er yfir 1200 stig. Þessi er um 1170 stig. Já, hún er þunn, en það er vegna efnasamsetningarinanr, aðallega hás járns.  Kvikuþró Bárðarbungu hefur einhverntima verið mjög stór, til að innihalda allt Þjórsárhraun, 20 rúmkílómetra. Það er þar með sagt að hún sé það stór nú.  Sennilega eru kvikuþrær eins og harmónikkur: þær þenjast út og dragast aman eftir því hvað mikið magn streymir inn.

Siberian Traps eru flest basalt lög, og nú er vitað að þau voru nokkuð brennisteinsrík. Samt sem áður er ekki kominn góður skilningur á því hvort eða hvernig þessi gos í Síberíu hefðu valdið mesta útdauða á jörðu.  Ef til vill var annar þáttur þar að valdandi.

Haraldur Sigurðsson, 28.1.2015 kl. 13:11

19 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Bestu þakkir Haraldur. Mjög gott að fá skýr svör fyrir okkur amtörana og hina vonandi líka.
Maður les margt, en þó ekki allt, og sumt virðist mótsagankennt. T.d. er sagt á vef Jarðfræðistofnunar HÍ á síðunni með fyrstu efnagreiningunni (og þeirri einu sem ég finn) að efnasamsetningin segi þá sögu að hraunið komi af meira en 10 km dýpi. Mér skyldist að það væri vegna þess hve lítið hlutfall er af öðru efnum en þessum algengustu, en er ekki viss.
Þau sýni sem mæld séu í slíkri einfaldri mælingu úr nýja Holuhrauninu séu að 99,87% hlutum efni (í Holhrauni 29. ágúst 2014), en meðaltal 95 eldri mælinga úr Bárðarbunguhraunum séu 99,49% og úr 145 Öskju-hrauna-mælingum sé summan 98,80%.

Þ.e. það sem sé annað en þessi fáu efni og efnsambönd sé 0,13% í Holuhrauni; 0,51 í meðaltali Bárðarbungu-hrauna og 1,20 í meðaltali Öskjuhrauna.

Hvað segir þetta okkur ef eitthvað?

http://jardvis.hi.is/efnasamsetning_holuhraunsins_nyja_er_komin

Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2015 kl. 18:07

20 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Helgi:  Taflan sem þú vísar til sýnir efnasamsetningu hrauna, þar sem mæld eru tíu efni. Þetta eru aðal efnin, en við skulum minnast þess að í kviku finnast nær öll frumefni sem eru til í náttúrunni, eða um 92. Þess vegna er summan á greindum efnum ekki 100%.  Það vantar hér greiningu á svokölluðum snefilefnum (nikkel, króm, blý, baríum ofl.).  Einnig vantar greiningu á brennisteini og vatni og CO2, sem eru mikilvæg. Slíkar greiningar eru erfiðari.  Aðal atriðið er, að þegar þessi aðalefni eru borin saman, þá er sáralítill munur á kviku sem kemur frá Öskju og þeirri sem kemur frá Bárðarbungu.  En jarðeðlisfræðin bendir tvímælalaust til Bárðarbungu sem uppruna kvikunnar.

Haraldur Sigurðsson, 28.1.2015 kl. 18:36

21 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

„þessi efni“ átti að standa þarn ahjá mér og vís til þessara 10 efna sem greind eru fyrst.

Bestu þakkir fyrir allan fróðleikin Haraldur og fyrir að skerpa á skilningi okkar.

Helgi Jóhann Hauksson, 28.1.2015 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband