Askja: tvær orsakir berghlaups

SuðurbotnarÞað er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um berghlaupið í Öskju.  Fjölmiðlar hafa gert þessu fyrirbæri mikil skil.  Ég vil þó benda á tvennt. Jarðhiti hefur lengi verið mikill á svæðinu í suðaustur hluta Öskju, þar sem berghlaupið á upptök sín. Þetta eru Suðurbotnar, og hér runnu tvö hraun í kringum 1922 eða 1923: Suðurbotnahraun og Kvíslahraun.  Sumarið 1989 tók að bera á auknum jarðhita á þessu svæði og Guðmundur Sigvaldason gat sér til að hér kynnu hafa verið kvikuhreyfingar í jarðskorpunni undir.  Jarðhitasvæðin í Suðurbotnum einkenndust þá af heitri jörð, gufuaugum og útfellingum af brennisteini.  Svæðið er afmarkað á korti þeirra Kristjáns Jónassonar og Sigmundar Einarssonar, sem fylgir hér með.  Gufuútstreymi og miklar brennisteinsþúfur sáust þá hátt í hlíð við Suðurbotna.  Jarðfræðingar úti í heimi áttuðu sig á því fyrir um tuttugu árum að jarðhiti í eldfjöllum veikir mjög bergið.  Hitinn ummyndar berg og breytir því smátt og smátt í leir og laus efni.  Afleiðingin er þá sú, að brött fjöll hrynja eða mynda skriður og berghlaup.  Þetta hefur nú gerst í Suðurbotnum.  Í viðbót ber að geta þess, að askjan eða hringlaga sigdalurinn, sem byrjaði að myndast árið  1875, er reyndar enn í myndun. Yfir vatninu í suðri gnífur hinn hái (yfir 1500 m) og bratti Þorvaldstindur, sem að sjálfsögðu verður að hlýða þyngdarlögmálinu, eins og önnur fjöll. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk. Þetta er miklu meira í samræmi við það sem maður hefði ímyndað sér og haft tilfinningu fyrir heldur en þær skýringar sem menn hafa verið að bera á borð t.d. tengdar úrkomu og fleira tilfallandi og óviðkomandi landsiginu og virkni öskjunnar sjálfrar.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.7.2014 kl. 12:45

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Manni sem leikmanni er þetta fréttir sem eru okkur kært að vita,aftur er það spurningin um Gos sem við erum hrædd við,vitum við ekkert,en við treystu á ykkur fræðigna að vera á verði ,kær kveðja

Haraldur Haraldsson, 30.7.2014 kl. 17:39

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir góða grein. Þetta er afar áhugavert náttúrufyrirbæri og vert að skoða víða um land þar sem jarðhiti er í bratta. Spurning er hins vegar hvað er að gerast í Almenningi þ.e. í Siglufjarðarskriðum? Er þar um að ræða jarðhita, sem veikir jarðveginn eða er þar um að ræða sífrera, sem er að bráðna? Er ekki ástæða til að ætla að þar geti orðið stórt berghlaup og hvaða afleiðingar gæti slíkt berghlaup haft?

Júlíus Valsson, 3.8.2014 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband