Klofajökull var aldrei klofinn

Sveinn Pálsson 1794Sumir lesendur virðast hafa þá skoðun, að á landnámsöld og söguöld hafi Vatnajökull verið mun minni og að hið forna nafn jökulsins, Klofajökull, styrki það.  Þessir lesendur vísa á þetta sem sönnun þess, að þá hafi loftslag verið gjör ólíkt því, sem nú ríkir á 21. öldinni.  Að þá hafi jökullinn verið klofinn af miklu skarði sem Gnúpa-Bárður fór um er hann fluttist frá Bárðardal og suður í Fljótshverfi.  Það er ljóst að nafnið Klofajökull hefur ekki þann uppruna og er á engan hátt vísbending um að Vatnajökull hafi verið mun minni.   Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árinu 1772 er fjallað um uppruna nafnsins Klofajökull:  “Klofajökull dregur nafn af tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár.”   Hér vísa því Eggert og Bjarni til klofans sem kemur í Vatnajökul vegna Kverkfjalla.  Sveinn Pálsson tekur í sama streng, en hann gerði fyrsta uppdrátt af Klofajökli eða Vatnajökli árið 1794:  “Heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana, sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmargra fjallgarða, sem skerast upp í hann.”  Hér er mynd af korti Sveins.  Allir sem hafa séð Vatnajökul úr norðri átta sig á nafngiftinni, því Kverkfjöll virðast algjörlega kljúfa norður rönd hans. Í merku riti sínu, Jöklar á Íslandi (2009), hefur Helgi Björnsson gert líkan af myndun og vexti Vatnajökuls (bls. 372). Helgi Björnsson 2009Það er ekkert sem kemur þar fram, sem gæti stutt þá hugmynd að jökullin hafi verið klofinn frá norðri til suðurs á landnámsöld.   Mynd Helga af sennilegri útlínu Vatnajökuls fyrir um eitt þúsund árum fylgir einnig hér með.  Var loftslag mun mildara á þjóðveldistímanum en nú í dag?  Töluvert hefur verið deilt um það, en þetta er tímabil, sem loftslagsfræðingar nefna “Medieval Warm Period”. Ég fjalla um það síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Haraldur

Ég spjallaði lítillega við Helga Björnsson um nafnið Klofajökull fyrir fáeinum árum, en ég kannast aðeins við hann síðan ég vann sem sumarstarfsmaður á háloftadeild Raunvísindastofnunar, en þá voru menn einmitt á stofnuninni að þróa lágtíðniradar sem var notaður við rannsóknir á þíðjöklum.   Helgi útskýrði nafnið einmitt með þessum skriðjöklum sem ganga fram úr jöklinum eins og skálmar á buxum og klofi þar á milli.

-

Hjörleifur Guttormsson skrifaði í árbók Ferðafélagsins 1993:

„Á landnámsöld og fram eftir öldum voru jöklar hér sem annars
staðar á landinu langtum minni en nú er. Jökulhetta var á
Hnappafelli, eins og Öræfajökull var nefndur í öndverðu, og
skriðjöklar teygðu sig þar eitthvað niður eftir hlíðum. Vatnajökull
var til en langtum minni en síðar varð, hugsanlega að mestu skorinn
sundur í tvo eða þrjá jökulskildi, enda lengst af kallaður
Klofajökull. Meginskriðjöklarnir frá honum voru litlir í samanburði
við það sem síðar varð. Það sem við köllum einu nafni
Breiðamerkurjökul voru þrjár skriðjökultungur sem óvíst er
hvort náðu að renna saman neðan við Mávabyggðir en sú nafngift
náði þá einnig yfir Esjufjöll. Jökuljaðarinn hefur þá legið allt
að 15 kílómetrum innar en nú er en utan við var slétta sem verið
hafði sjávarbotn í ísaldarlokin. Drjúgur hluti þessarar miklu
sléttu hefur verið gróinn og skógivaxinn á köflum eins og múlarnir
beggja vegna og þar var víða allþykkur jarðvegur.“

                Árbók Ferðafélags Íslands1993. Hjörleifur Guttormsson.

 Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, 8. tbl. 2004,  er fjallað um jarðir sem farið hafa undir jökul.

Fyrir fimm árum spunnust fjörugar umræður um jökla fyrr og nú á bloggsíðunni
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/811115/ 


Ágúst H Bjarnason, 29.7.2014 kl. 08:16

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Nafnið "Klofajökull" er greinilega umdeilt. Minnir mig reyndar á hrepp nokkurn sem hét "Skilmannahreppur". Nágrannar þess hrepps sögðu að nafnið væri til komið vegna hroka íbúanna, sem hefðu skilið frá öðrum (eða verið skildir frá öðrum) hreppum.

Sú skýring stenst auðvitað ekki, heimamenn hefðu ekki nefnt eigin hrepp eftir uppnefnum annarra.

Skoðum þá Klofajökul. Sögnin að klofa gæti verið hér á ferð, að jökulinn hafi mátt "klofa", með því að vaða blautt hjarnið, stundum upp í klof. Ferðir voru tíðar yfir jökulinn, enda samgangur milli t.d. Suðursveitar og norðurlands, þar sem norðlendingar höfðu útræði í Hálsahöfn og hugsanlega víðar. Nafn norðlinga gæti því vel verið Klofajökull, enda þurftu þeir að klofa hann árlega.

Önnur skýring, sú sem hér um ræðir, er sú að jökullinn hafi fengið nafn af því að hann var klofinn. Sú tilgáta að hann hafi fengið nafn vegna Kverkfjalla sem virðist kljúfa hann finnst mér nokkuð langsótt, gæti þó allt eins verið.

En það er einn alvarlegur galli við þá skýringu að hann hafi verið nefndur Klofajökull af því að hann hann hafi verið klofinn í tvo eða fleiri jökla. Af hverju ættu menn að horfa á tvo eða fleiri jökla og gefa þeim nafn eins og um einn klofinn jökul væri að ræða? Aldrei sáu menn hann "klofna" og þar sem jöklar voru í vexti á þessum tíma eftir hámark hlýskeiðsins fyrir 8000 árum þá hafa ekki verið nein sýnileg ummerki um að um fyrrum heilan jökul væri að ræða.

Loks má benda á að það eru fyrst og fremst jökultungurnar sem hljóta nafngiftir fyrr á öldum. Klofin jökultunga gæti fengið nafnið "Klofajökull", en hvenær fóru menn að nefna allan jökulinn einu nafni? Mig grunar að það hafi verið frekar seint.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.7.2014 kl. 09:27

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fróðleg grein eftir Halldór Stefánsson er í Lesbók Morgunblaðsins 1. júní 1968:

Vatnajökull, Klofajökull og Vonarskarð.
Greinina má lesa hér:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3291569

Einnig:
Hjörleifur Guttormsson. 2011. Grímsvötn, Vatnajökull og Klofajökull. Hvað vitum við um bakgrunn þessara nafngifta? Fjöruskeljar. Afmælisrit til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri 29. mars 2011. Reykjavík. Bls. 117-130.

Ágúst H Bjarnason, 29.7.2014 kl. 09:58

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Greinin hans Halldórs er skemmtileg, en inngangurinn eru tómar getgátur og stenst illa skoðun þegar kemur að hugrenningum hans um lögun og legu jökla á landnámsöld.

Og jafnvel þótt menn hafi skrifað "í gamla daga" og kunnað vel fornsögur og ævintýri þá breytir það ekki þeirri staðreynd að fornmenn hafa aldrei farið að nefna einhverja jöklaþyrpingu samheitinu "Klofajökull" í merkingunni "einn jökull sem er klofinn".

Ef við gefum okkur að núverandi Vatnajökull hafi, fyrir 1000 árum eða meira, ekki verið til, en í staðinn verið tveir aðskildir jöklar á sitthvoru hálendinu en einhvers konar jökullaust dalverpi skilið þá að.

Ekkert hefði á þeim tíma getað gefið til kynna að um einn, "klofinn" jökul væri að ræða. Enda voru jöklarnir tveir (eða fleiri - trúlega aldrei tveir).

Landslag undir jöklinum er þess eðlis að dalur gengur upp undir Skeiðarárjökul, teygir sig norðaustur undir jökulhettuna, og opnast sitt hvoru megin við Kverkfjöll. Áður en núverandi jökulbreiða myndaðist hefur verið jökulhvel á Bárðarbungu og Grímsvötnum með skriðjöklum niður í dal þennan, en sunnan og austan hans hafa verið jöklar á ýmsum tindum og fjallgörðum. Einn stór jökull öðru megin, margir smájöklar hinu megin.

Hvenær í myndunarsögu Vatnajökuls, eftir nærri jökullaust tímabil fyrir um 8000 árum, ætti hann að hafa líkst klofnum jökli, þ.e. einum jökull klofnum í tvennt? Líkast til aldrei.

Annars skiptir þetta engu sérstöku máli í umræðunni um hnattræna hlýnun. Jöklar á Íslandi hafa stækkað jafnt og þétt frá því á hámarki núverandi hlýskeiðs, þegar landið var nánast jökullaust, og náðu mestri útbreiðslu á síðustu öld. Trúlega hefur stækkunin hægt á sér, jöklar jafnvel hörfað, á miðöldum, en það skiptir ekki nokkru einasta máli.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.7.2014 kl. 11:15

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Að jökullinn hafi verið klofinn í tvo hluta fyrir árþúsundi kemur ekki víða fram. Ekki einu sinni á korti jarðfræðinganna Grétars Guðbergssonar og Þorleifs Einarssonar "Sennileg stærð jökla við landnám" sem birtist í Árbók Landgræðslu ríkisins 1965-1966.  Þar sést að jökulskildirnir eru tengdir saman.

Hjörleifur skrifar 1993 í Árbók ferðafélagsins: "...hugsanlega að mestu skorinn sundur í tvo eða þrjá jökulskildi...", en segir ekki að hann hafi verið í tveim hlutum.

---

Í skýrslu Fornleifanefndar ríkisins frá árinu 2008 um fornleifar við Kverkfjöll er á blaðsíðu 7 sagt frá ferðum bænda og vermanna yfir jökulinn.

Það er greinilegt að ferðir yfir jökul á þessum tíma hafa verið nokkuð tíðar, en væntanlega hafa menn þurft að fara yfir hjarn hluta leiðarinnar.

http://www.rammaaaetlun.is/media/fornleifavernd/Kverkfjoll.pdf

Í mínum huga skiptir það máli að gera sér grein fyrir hvernig jöklar voru fyrir árþúsundi. Auðvitað getum við aldrei vitað það nákvæmlega, en í megindráttum þó. Það gefur okkur ásamt öðru vísbendingu um hlýindin miklu fyrir 1000 árum, áður en Litla ísöldin skall á. Nafnið Klofajökull vísar að öllum líkindum til klofanna milli jökulsporðanna, það er ljóst.

Ágúst H Bjarnason, 29.7.2014 kl. 12:01

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvernig sem þetta Klofajökulsnafn er til komið þá hefur það oft verið ranglega nefnt að Klofajökulsheitið sé einhver sönnun fyrir því að hlýrra hafi verið hér á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en er í dag.

Vatnajökull var minni fyrir 1000 árum en í dag, það er ekki umdeilt. Og eins og við ættum að einnig að vera sammála um þá ræðst stærð jökulsins í dag að kaldara loftslagi síðustu alda enda er fer hann minnkandi nú á dögum vegna hlýnunnar. Fyrir 1000 árum hafði engin „lítil ísöld“ verið á undan og því var hann minni í þá daga. Raunar var Vatnajökull almennt að vaxa frá því hann hvarf nánast alveg fyrir einhverjum 8000 árum þar til hann náði hámarki rétt fyrir 1900.

Annars grunar mig að jökullinn hafi ekki átt neitt samheiti lengi framan af en verið kallaður ýmsum nöfnum eftir því hvernig menn voru í sveit settir. Sunnanlands gæti hann hafa verið kallaður ýmsum nöfnum og eitt þeirra hefur Vatnajökull „vegna hinna hart nær ótelja elfa, sem eiga upptök sín í honum“, eins og Sveinn Pálsson segir árið 1794. Aðrir hafi kallað hann Klofajökul vegna skarða og fjallarana - í Kverkfjöllum eða annarsstaðar. Annars þekktu menn hálendið norðan jökuls ekki vel í gamla daga og voru kannski ekki mikið að spá í hvort þetta væri eitt samfellt jökulfæmi eða ekki. Þegar menn fóru af einhverri alvöru í náttúrurannsóknir og kortagerð þurfti þó eitthvað heildarheiti á þetta og þá gæti Klofajökulsnafnið hafa orðið ofaná, en Vatnsjökulsnafnið svo síðar orðið vinsælla eftir því sem jökulárnar fóru að flæmast víðar um.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.7.2014 kl. 13:01

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Mér sýnist við allir vera sammála! Minna umfang Vatnajökuls fyrir 1000 árum (hvort sem hann var "klofinn" eða ekki) sannar ekki að miðaldir hafi verið hlýrri en í dag.

Bestu áætlanir á hitafari jarðfræðilegs nútíma sýna að eftir hámark núverandi hlýskeiðs fyrir um 8000 árum hafi farið kólnandi, með nokkrum uppsveiflum, t.d. svokölluð mýkenskt og rómverskt hlýskeið, sem og á hámiðöldum.

Meðaltal síðasta áratugar eða svo virðist vera nokkuð hærra en hámarkið fyrir 8000 árum og því hlýrra en áðurnefnd hlýskeið. Línuritið á Wikipedia (http://en.wikipedia.org/wiki/Holocene_climatic_optimum) sýnir þetta vel, en þar er 2004 merkt inn.

Línuritið fylgir hér, ég hef merkt meðaltal síðustu 15 ára inn með rauðu.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.7.2014 kl. 13:56

8 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Nú, ekki tókst að setja inn línuritið, prófa aftur (ekki að það skipti svo miklu)

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.7.2014 kl. 13:59

9 Smámynd: Rauða Ljónið

Sælir. Hrafnkell gengur þegar til búðar og lætur taka hesta sína og ríður á brott af þingi og undi illa við sínar málalyktir, því að hann átti fyrr slíkar. Ríður hann austur Lyngdalsheiði og svo austur á Síðu, og eigi léttir hann fyrr en heima Hrafnkelsdal.

Rauða Ljónið, 29.7.2014 kl. 14:48

10 identicon

Skemmtilegar umræður og fróðlegar. Varðandi bæði för Gnúpa-Bárðar og svo "reiðtúr" Hrafnkels ber að hafa í huga, að miklar breytingar hafa orðið á hálendinu frá þessum tíma, sér í lagi á svæðinu frá Síðu og norður úr. Eldgjárgosið hefur reyndar orðið nærri landnámstímanum, en svo koma Veiðivatnagosin, gosið sem myndaði Tröllahraun á nítjándu öld, kunn og óþekkt gos á Dyngjuhálsi og nágrenni og svo feikimörg gos á Öskjusvæðinu, Kverkfjöllum og víðar. Öll þessi gos og aðrar náttúruhamfarir hafa leitt af sér mikið torleiði á þessum ferðaleiðum umfram það sem var við landnám.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 15:26

11 identicon

Já, og svo nefndi ég ekki Lakagígagosið á nafn!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 15:27

12 identicon

Einhversstaðar hef ég lesið að Norðlendingar ættu ítök suður í öræfum og þar um slóðir, javnvel á miðöldum.

Harðdrægt hefur verið að nytja þær ef krækja þurfti fyrir jökulsporða.

Ólafur Jónsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 17:51

13 identicon

Merkilegt hvað bestu menn virðast eiga það til að festast í afneitun :) Rökleiðsla HS virðist vera: Af því að Klofajökull var ekki klofinn var loftslag ekki mun mildara á þjóðveldistímanum en nú um stundir. Eins og venjulega setur hann fram fullyrðingu án þess að rökstyðja hana.

Aðrir fræðimenn virðast vera á annarri skoðun:

"Á miðöldum ferðuðust Norðlendingar ár hvert suður yfir öræfi til sjóróðra í Hornafirði og Suðursveit. Leið þeirra lá lengi vel um hjarnsvæði og stækkandi jökul sem þeir sem fjær bjuggu nefndu því óljósa hugtaki Austurjökla og lengi bar heitið Klofajökull... Nálægt 1600 höfðu ferðir yfir jökul lagst af en áfram kræktu menn um hríð austur fyrir jökul um fjallendið upp af Lóni þar sem Norðlingaheiti lifa enn góðu lífi" (http://www.eldhorn.is/hjorleifur/eldriv2k/041000.htm)

"Frumnafn Vatnajökuls er Klofajökull, eflaust gefið eftir útliti hans og lögun tilsýndar. Þá hefur hann verið ein samtengd lengja fastajökla á háfjöllum þessa hálendis hluta landsins með skörðum jökli þöktum á milli. Daladrög (klof)frá norðri og suður hafa stefnt hvert móti öðru til jökulhaftanna milli hájöklanna,sem síðan hafa fyllzt af falljöklum og gefið jöklinum núverandi lögun og stærð.

Ókunnugt er hvenær Klofajökull hefur tekið að vaxa, fylla upp skörðin milli hájökla og „klofin" og skriðjökullinn

tekið að falla fram á sléttlendið til morðurs og suðurs. Að líkindum hefur það byrjað isnemma á öidum og haidið áfram smátt og smátt.

Órækar heimildir eru fyrir þvi að fyrr á öldum voru samgöngur yfir Klofajökul milli Möðrudals og Skaftafells í

Öræfasveit, allt fram til loka 14. aldar a.m.k. Samkvæmt Willkinsmáldaga Möðrudalskirkju,1397, átti kirkjan skógarítak í Skaftafeils skógi. Í notum þess

átti jörðin Skaftafell fjórtán hrossa sumarbeit í Möðrudalslandi, að því er segir í jarðarbók frá 1797."

(http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3291569)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 20:01

14 identicon

Auðvitað vita það allir sem ekki eru haldnir afneitun og vantrú að jöklar og veðurfar var óbreytt í milljónir ára. Það var fyrst við komu fjölskyldubílsins sem veðurfar fór að breytast svo eftir væri tekið. Enda ekkert afl í heimi kröftugra en vald mannsins og stjórn hans á veðrinu. Allar fullyrðingar um annað eru gervivísindi, misskilningur og trúarbrögð sem ekki byggja á neinum haldbærum gögnum. En gamlar ferðabækur Íslendinga sanna að hér var sama veðrið frá ísöld til Volvo og að aðeins getur verið ein ástæða fyrir veðurfarsbreytingum.

Gústi (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 01:30

15 identicon

Landnám (landflótti) Eíríks Rauða til Grænlands (980) Rennir stoðum undir þá kenningu,að það hafi verið hlýrra hér á norðurslóðum og fyrri öldum byggðar á Íslandi.

Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 08:46

16 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Mikið er þetta vitlaust hjá Gústa. Hann virðist álykta að vísindamenn viti ekki að loftslag hafi áður breyst. Auðvitað hefur það breyst áður - það var bara ekki af völdum útblásturs manna eins og nú.

Höskuldur Búi Jónsson, 30.7.2014 kl. 09:34

17 identicon

Það kom að því að kórdrengur John C(r)ook fékk málið :)

Auðvitað þurfti hann að tjá sig um meinta vitleysu almennings í þessu landi. Loftslag hefur nefnilega breyst áður - bara ekki eins og það breytist núna!

Heilaga gengið í loftslagsumræðunni tekur nefnilega engum sönsum. Jarðfræðingar veifa prófskírteinum sem segja nákvæmlega ekki neitt um innsýn og þekkingu á loftslagsvísindi.

Nú nýlega hafa forritarar slegist í hóp allra-heilagra, þrátt fyrir að þekkja hvorki haus né sporð á umræðuefninu - enda er hlutverk forritara bara að halda utan um hátimbruðu tölvulíkönin sem aldrei standast hjá IPCC.

Jafnvel íslenskir veðurspámenn eiga fullt í fangi með að spá þrjá daga fram í tímann með meira en 50% nákvæmni. Verður slagveðursrigning á Þjóðhátíð í Eyjum eftir tvo daga eða ekki? - maður spyr sig.

En lesnir háskólamenn eru auðvitað lausir við allan breyskleika - alviturir 97% samhygðarmenn. Þeir eru alltaf boðnir og búnir að leiða almenning inn í "ljósið".

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband