Þegar möttull Íslands var undir Grænlandi

Basaltsvæði Grænland ÍslandBasaltkvikan, sem veldur eldgosum, myndast við bráðnun í möttli jarðar. Hér á landi er yfirborð möttulsins á um 20 til 40 km dýpi undir jarðskorpunni.  Basaltkvikan, sem kemur upp úr möttlinum og gýs á yfirborði Íslands, er í stórum dráttum allstaðar á landinu mjög keimlík hvað snertir efnasamsetningu.  En þegar jarðefnafræðingar greina viss snefilefni, einkum samsætur eða ísótópa þeirra, þá kemur í ljós að viss svæði á Íslandi hafa séreinkenni hvað snertir ísótópa af efnunum neódiníum og blýi.   Fyrsta myndin sýnir niðurstöður Abigail Barker og félaga um efnafræði basaltkvikunnar á þessum svæðum á Íslandi.  Þar eru þrennskonar svæði afgreind: Reykjanes (rautt),  Snæfellsnes og syðri hluti eystra gosbeltisins (blátt), og að lokum nyrðri hluti eystra gosbeltisins (grænt).  Auðveldasta skýringin er sú, að basaltkvikan á þessum þremur svæðum komi uppúr þrennskonar möttulefni.  Það þýðir að möttullinn undir Íslandi er alls ekki allur eins, heldur ríkja þar nokkrar vel aðgreindar bergtegundir, sem bráðna og gefa af sér mismunandi basalt.  Eftir þennan fremur langa inngang snúum við okkur loks að Grænlandi.  Möttullinn, sem nú er undir Íslandi á sér langa sögu, sem er miklu lengri en aldur Íslands (16 milljónir ára).  Möttullinn “okkar” er fremur óvenjulegur, ef til vill óvenju heitur, og honum er oftast lýst sem “hot spot” meðal jarðfræðinga.  Vegna flekahreyfinga hefur þessi heiti reitur ferðast víða.  Þannig var hann undir Baffin eyju fyrir um 65 milljón árum, síðan ferðaðist hann undir allt Grænland, frá vestri til austurs og var undir Scoresby sundi í austur Grænlandi fyrir um 55 milljón árum. Önnur mynd sýnir dæmigert landslag á austur Grænlandi, þar sem blágrýtismyndunin er alveg eins í útliti og á til dæmis Vestfjörðum.   Takið eftir að heiti reiturinn í möttlinum er reyndar staðbundinn, hreyfist ekki, en jarðskorpan fyrir ofan hreyfist og rekur stöðugt til vesturs.  Ef sami möttullinn var undir austur Grænlandi fyrir 55 miljón árum, þá ætti hann hafa gosið þar samskonar basalti og nú gýs á Íslandi.  Geikie PlateauOg einnig, þar ætti að koma fram sama dreifing basalttegunda hvað snertir bý og neódiníum ísótopa eins og á Íslandi.  Ungfrú Barker og félagar hafa einmitt kannað þessa hugmynd, eins og kemur fram á fyrstu mynd.  Það er mikill stafli af basalt hraunum í og fyrir sunnan Scoresby sund á austur Grænlandi.  Efnafræðirannsóknir á þessum hraunum sýna, að þau hafa sama innihald af bý og neódiníum ísótopum og basaltsvæðin á Íslandi.  Hér í grennd við og fyrir sunnan Scoresby sund eru vel afmörkuð basaltsvæði, sem hafa sömu efnaeinkenni og svæðin á Íslandi, eins og litirnir sýna.  Þetta er reyndar stórmerkilegt, og sýnir að sami heiti reiturinn var forðum undir Grænlandi og er undir okkur nú, og sýnir einnig að vel aðgreind svæði möttulsins koma fram  bæi hér og á Grænlandi.  Að lokum:  Á fyrstu mynd er Ísland og Grænland sýnt í sama stærðarskala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þína fróðlegu pistla. Mann langar að spyrja um basalt lögin í Færeyjum og Vestur-Írlandi sem í sumum bókum allavega eru talin frá því tímabili jarðsögunnar þegar Evrasíuflekinn og Ameríkuflekinn lágu saman, eða hafa komið fram aðrar upplýsingar/kenningar um þetta?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 8.7.2014 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband