Stóra gosið í Tianchi eldfjalli var samtíma Eldgjárgosinu

 

Brennisteinn í ískjarnaÉg hef fjallað hér fyrir neðan um Tianchi eldfjall, sem er á landamærum Kína og Norður Kóreu. Risastóra sprengigosið, sem varð þar hefur verið talið frá árunum um 965 til 1000 Anno Domini.  Nú hafa verið gerðar fimmtíu góðar aldursgreiningar með geislakolaaðferð  á koluðum trjábút, sem finnst í gjóskuflóði frá gosinu.  Þær gefa aldur frá 921 til 941 AD.  Þrjátíu og tvær aðrar aldursgreiningar á öðrum trjábút gefa aldurinn 921 til 942 AD.  Nú er því talið að gosið hafi orðið annað hvort um haustið 938 eða vorið 939 AD.  Gosið mikla, sem myndaði Eldgjá og Landbrotshraun er talið hafa orðið árið 934 AD en hefur aldrei verið nákvæmlega tímasett.   Þetta er eitt af stórgosum Íslandssögunnar, ef til vill það stærsta, með allt að 18 rúmkílómetra af kviku. Það er um helmingur af gosmagni  því, sem kom upp úr Tianchi á sama tíma.  Í ískjörnum, sem boraðir hafa verið á Grænlandi, kemur fram mikið brennisteinslag í ísnum á um 272 metra dýpi undir yfirborði jökulsins.   Brennisteinsmagnið og einnig klór innihald íssins á þessu dýpi er sýnt í fyrstu myndinni fyrir ofan. Þar er greinilegur tindur í línuritinu, sem er vafalaust tengdur eldgosi – eða eldgosum.  Lóðrétti ásinn á línuritinu er magn af brennisteini og klór í ísnum.  Hæsti toppurinn er í kringum árið 938 e.Kr. Jöklafræðingar telja að brennisteinslagið sé frá eldgosi, sem var árið 938 og er skekkjan talin aðeins um 4 ár á þessari aldursákvörðun.  Þeir skelldu skuldinni beint á Eldgjá, en nú verður að endurskoða það í ljósi nýrra upplýsinga um Tianchi gosið mikla.  Allar líkur eru á, að Tianchi og Eldgjá hafi gosið nær samtímis. Er því brennisteinstoppurinn í ískjörnum sennilega frá báðum þessum gosum.  Það skýrir einnig fremur kísilrík glerkorn, sem finnast í þessu lagi í ísnum og passa ekki við efnasamsetningu kvikunnar úr Eldgjá.  Nú er ekki lengur hægt að kenna Eldgjá einni um óvenjulegt veðurfar á norðurhveli á miðri tíundu öldinni, heldur er líklegt að Tianchi sé sökudólgurinn. Hvað segir sagan um þetta tímabil? Michael McCormick og félagar hafa einmitt kannað það mál. Þar kemur í ljós að vetrarnir árin 939 og 940 voru með þeim hörðustu í Hollandi, Belgíu, Svisslandi, Írlandi og víðar.  Hungursneyð ríkti, búpeningur féll, ár og vötn lagði.  Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem við höfum kennt einu íslensku gosi um, þegar annað og fjarlægt stærra gos átti sökina, eða var meðsekt. Ofarlega í huga er sprengigosið í Asama eldfjalli í Japan árið 1783.  Það var samtíma Skaftáreldum, þegar jarðsprungan mikla myndaðist sem skapaði Lakagígana.  Þegar Móðuharðindin ríktu á Íslandi þá gekk mesta hungursneyð sögunna yfir Japan vegna áhrifa Asama gossins þar í landi. Það er Temmei hungursneyðin. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fróðleikinn, kanski erum við Íslendingar alltaf of fljótir að taka á okkur "sökina". 

Veistu nokkuð hvaða stórgos olli 3. ára harðindum í Evrópu líklega á bilinu 620 til 700?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.11.2012 kl. 22:48

2 identicon

Sæll og blesaður.

Ég vil þakka þér fróðlega pistla, sem ég les mér ili mikillar ánægju og fróðleiks.

Þar sem ég veit að þú veist ekki haus né sporð á mér, þá er ég bóndi í Hrútatungu í Hrútafirði. Með bestu kveðju.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 30.11.2012 kl. 23:11

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Bjarni: Ískjarnar frá Grænlandi sýna að það var stórt gos einhvers staðar á jörðu í kringum 690 til 700.  Ekki er mér kunnugt um eldfjallið og hef ekki séð sögulegar heimildir um það. Hins vegar er frægur af endemum veturinn 763 til 764 allt frá Írlandi til Eystrasalts og Konstantínópel.  Írskir annálar lýsa til dæmis snjókomu sem varði í þrjá mánuði. Það er ekkert í ískjörnum sem bendir til sérstakrar eldvirkni á þessum tíma:  ekki alltaf hægt að kenna eldfjöllunum um óvenjulegt veðurfar.

Gunnar: Takk fyrir að lesa þessi skrif mín. Það er ánægjulegt að vita að einhver hefur gagn og gaman af.  Einu sinni var bróðir minn Gunnar Oddur í sveit á Þóroddsstöðum í Hrútafirði. Ég kom þar stunmdum í heimsókn til Gróu frænku og Þorvaldar.

Haraldur Sigurðsson, 1.12.2012 kl. 10:02

4 identicon

Maður á víst aldrei að treysta á hið svikula minni ;-)   

Ég tók víst hundraða feil.  Það var þriggja ára hallæri í Evrópu sem byrjaði líklega 536 eða þar um bil sem ég var að forvitnast um hvaða eldgos hefði valdið ef eitthvert.   Annars bestu kveðjur og takk ef þú nennir að svara þessu!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.12.2012 kl. 14:02

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Eitthvað stórt gerðist árið 536. Um það vitna gögn frá Kína, Róm og víðar. Sumir hafa stungið uppá stóru eldgosi, aðrir telja að þá hafi loftsteinn fallið.  Málið er umdeilt og ekki er ljóst hvað orsakaði miklar loftslagsbreytingar og fyrirbæri á himni á þessum tíma.

Haraldur Sigurðsson, 2.12.2012 kl. 14:33

6 identicon

Það er magnað hvað Snorri Sturluson hefur verið nákvæmur eða öllu heldur sögurnar sem hann skráði niður.  Hann segir "Dómaldi tók arf eptir föður sinn Visbur or réð löndum. Á hans dögum gerðisk í Svíþjóð sultr ok seyra. Þá eflðu Svíar blót stór at Upsölum. It fyrsta haust blóuðu þeir yxnum, ok batnaði ekki árferð at heldr;en annat haust fófu þeir mannblót en árferð var söm eða verri. En it iii. haust kómu Svíar fjölment til Upsala, þá er blót skyldu vera ; þá áttu höfðingjar ráðagerð sína ok kom þat ásamt með þeim , at hallærit myndi standa af Dómlda, konungi þeira, ok þat með, at þeir skyldu honum bloóta til árs sér ok veita honum atgöngu ok drepa hann ok rjóða stalla með blóði hans, ok svá gerðu þeir"

Síðan rekur Snorri kóngana og nefnir Dómar son Dómalda og svo son hans Dyggva hvers afi var sonur Rígs "er fyrstr var konungr kallaðr á danska tungu"  

   "Samtímaheimildir" frá Róm nefna bæði nýtt konungdæmi Dana og það að Herúlar drápu konung sinn og sendu eftir nýjum til Svíþjóðar og þetta gerðist skömmu eftir þriggja ára hallærið.  

Snorri er semsagt að lýsa nokkuð nákvæmlega atburðum sem gerðust 7 öldum fyrr, segi menn svo að þetta séu ómarktækar heimildir, þessar fornsögur!

Þetta eru nú hugrenningarnar sem eldgosa og harðærisfróðleikurinn geta vakið!

ps. Enn fremur má kanski draga af þessu þann lærdóm að þorrablótin eigi að vera um jólinn eða áramót, svo er náttúrulega spurning hvað skal gera við óhæfa pólitikusa en það er önnur saga ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.12.2012 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband