Kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál?

KvikuinnskotÍ tengslum við jarðskjálftaumbrotin í Eyjafjarðarál hef ég heyrt jarðvísindamenn velta því fyrir sér í fjölmiðlum að hér gæti kvikuinnskot hafa átt sér stað, en annar fræðingurinn benti á að hér eru ekki nein vegsummerki um eldgos á hafsbotni.  Nú ætla ég að reyna að sýna fram á hvað felst í þessum staðhæfingum í sambandi við Eyjafjarðarál.  Dýpi álsins þar sem skjálftarnir koma fram er um  500 metrar, eins og kom fram á korti af Eyjafjarðarál í fyrra bloggi mínu um þetta svæði.  Þar undir er um 3 til 4 km þykkt lag af sjávarseti.  Sennilega er það set mest sandur og leir, sem hefur borist til hafs við rof á landi. Setlögin eru ókönnuð, en þau eru sennilega runnin í sandstein eða leirstein, nema efsti hlutinn, sem er enn sandur og leir.  Eyjafjarðaráll er sigdalur, sem er að gliðna vegna flekahreyfinga.Flekamót Flekamótin ná alla leið niður í möttul og basaltkvika mun því rísa upp um flekamótin og inn í setlögin. En basaltkvika hefur nokkuð hærri eðlisþyngd en setlögin. Þá myndast ástand eins og það, sem er sýnt á fyrstu myndinni fyrir ofan. Á einhverju dýpi er eðlisþyngd basaltkvikunnar svipuð og setsins. Á því dýpi hættir kvikan að rísa og dreifist til hliðanna til að mynda kvikuinnskot, sem er sýnt með rauðri línu á myndinni, eins og lítið eldfjall INNI í setlögunum.  Þetta er fyrirbærið sem jarðfræðingar kalla density filter, og hefur þær afleiðingar að hin eðlisþunga basaltkvika kemst ekki upp á hafsbotninn til að gjósa neðansjávar, heldur myndar kvikuinnskot inni í setinu.  Slíkt kvikuinnskot gerist hvað eftir annað á flekamótunum og myndar þá einskonar jólatré inni í setinu, eins og sýnt er á annari myndinni. Aðal skilaboðin eru þau, að kvikan kemst ekki upp í gegnum setlögin með léttari eðlisþyngd og getur því ekki gosið á yfirborði.  Er þetta að gerast undir Eyjafjarðarál í dag?  Enginn veit, en líkurnar eru miklar, að mínu áliti.  En ef svo er, þá er eitt víst: hitinn frá kvikuinnskotum er svo mikill að hitastigull í setinu verður hár og þar með breytist öll olía í setinu í metan eða jafnvel í gagnslaust koltvíoxíð og vatn.  Ekki gott fyrir þá sem vilja finna olíu hér á landgrunninu.  Eðlisþyngd setlagaFrekari skilningur á slíkum kvikuinnskotum fæst með því að ákvarða með borun hver eðlisþyngd setsins er á hverju dýpi, eins og sýnt er á síðustu myndinni. Þar er eðlisþyngd basalts sýnd með grænu brotalínunni en bláa og svarta línan sýna tvö dæmi um eðlisþyngd setlaganna, sem ávalt minnkar þegar ofar kemur í setinu. Ég tek eftir því að órói hefur verið nokkur á jarðskjálftamælum í grennd við Eyjafjarðarál. Er það vísbending um kvikuhreyfingu? Ég veit ekki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fróðlegan pistil. 

Þar sem Ísland er á flekamótum sem eru að fara hvert í sína áttina ætti þá ekki almenna reglan hér að vera sprungugos, þ.e. nýtt berg gluðast upp svona eins og rafsuðustrengur í bilið milli flekanna? Í framhaldi af því af hverju er þá svona mikið um lífseig eldfjöll á landinu, þar sem "alltaf" gýs á sama stað?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.10.2012 kl. 19:13

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Kvikan á rætur í möttlinum, sem er á um 30 til 40 km dýpi undir skorpunni. Það er því æði margt, sem getur komið fyrir kvikuna á hinni löngu leið sinni upp á yfirborðið. Oft safnast hún fyrir í kvikuþróm og dvelur þar í árþúsundir. Á meðan breytist hún og tekur á sig aðrar myndir: andesít eða líparít osfrv.  Megineldstöðvar hafa sennilega flestar eða allar einhverskonar kvikuþró í dýpinu. Hún tryggir þeim langa lífdaga og mikla fjölbreytin í kvikugerð.

Haraldur Sigurðsson, 23.10.2012 kl. 19:53

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Fleiri sjónarmið eru betri en fá, og þín eru jafnvel trúverðugri en annarra vegna þinnar hæversku og að nenna leggja af stað til að að skýra málið.   

Ekki alveg ótrúverðugt.

Hrólfur Þ Hraundal, 23.10.2012 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband