Sjö Ítalskir jarðvísindamenn dæmdir sekir um manndráp

L´AquilaÍtalir hafa aldrei farið vel með sína vísindamenn og gera ekki enn. Á Ítalíu býr þjóðin, sem brenndi Giordano Bruno á bálkesti árið 1600  vegna hugmynda hans um heimsmyndina og um grundvallaratriði í stjörnufræði, sem braut í bága við kenningar kaþólskrar kirkju.  Árið 1633 var stjörnufræðingurinn Galileo Galilei dæmdur í fangelsi fyrir að aðhyllast kenninguna að sólin væri hin rétta miðja kerfisins, sem jörðin snýst um.  Í gær dæmdi ítalskur dómstóll sjö jarðvísindamenn seka um manndráp í tengslum við jarðskjálftann undir borginni L´Aquila árið 2009. Það var hinn 6. apríl árið 2009 að jarðskjálfti varð beint undir L´Aquila, en hann var af stærðinni 6,3.  Hann var á aðeins 9,5 km dýpi og að minnsta kosti 308 manns fórust og borgin var lögð í rúst.  Ég hef bloggað um skjálftan og umdeild viðbrög jarðvísindamanna áður hér:

http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1154541/

 Smáskjálftar voru tíðir undir L´Aquila í byrjun ársins 2009 og sjö manna nefnd dæmdir sekirjarðvísindamanna var skipuð til að rannsaka málið.  Íbúar voru mjög órólegir og áhyggjufullir, einkum þegar jarðeðlisfræðingurinn Giampaolo Giuliani spáði stórum jarðskjálfta á grunni radon gas mælinga sinna. Sjömanna nefndin hélt almennan fund með borgurum hinn 31. mars 2009 og birti yfirlýsingu þess efnis, að það væri engin hætta á stórum skjálfta. Sex dögum síðar reið stóri skjálftinn yfir, 6,3 að stærð, með hörmulegum afleiðingum, eyðileggingu og dauða.   Nú hafa meðlimir nefndarinanr verið fundnir sekir um manndráp og fengið sex ára fangelsisdóm fyrir að hafa ekki varað íbúana við yfirvofandi hættu.  Sjömenningarnir sem hlutu fangelsisdóminn voru öll ítalska ríkisnefndin um spá og forvörn frá jarðvá.     Ég þekki vel einn af hinum dæmdu.  Hann heitir Franco Barberi og er eldfjallafræðingur, sem hefur á seinni árum orðið einn áhrifamesti jarðvísindamaður á Ítalíu.  Við höfum áður starfað saman að málum sem snerta eldgos og eldgosahættu frá Vesúvíusi.   Dómurinn í L´Aquila vekur margar spurningar og þær snerta okkur hér á Íslandi einnig. Er hægt að ætlast til að jarðvísindamenn geti spáð fyrir um stóra jarðskjálfta eða eldgos? Eiga vísindamenn yfirleitt að vera að gefa út yfirlýsingar til almennings um mál sem snerta hættuástand, þegar þeir hafa ekki nægileg gögn í höndum?  Þessi dómur mun vafalaust hafa mikil áhrif á hegðun jarðvísindamanna á Ítalíu varðandi jarðvá á næstunni. Ég tel líklegt að enginn ítalskur fræðimaður fáist nú til að gefa yfirlýsingar eða spá um jarðvá í kjölfar þessa dóms.    Allir aðilar þurfa nú að hugsa vandlega sinn gang og ákvarða hvaða ráðgjafar er óskað eftir frá jarðvísindamönnum og hvaða ábyrgð henni fylgir.   Enn er ósvarað stórum spurningum varðandi vísindin og skjálftann mikla undir L´Aquila. Var radon gasið sem Giampaolo Giuliani mældi góð vísbending um yfirvofandi hættu? Voru smáskjálftarnir undan þeim stóra einnig góð vísbending, sem nefndin tók ekki með í reikninginn? Jarðskjálftafræðingar telja almennt, að smáskjálftar séu ekki áreiðanleg vísbending um yfirvofandi stórskjálfta. Á Ítalíu eru smáskjálftar áberandi á undan um helmingi af öllum stórskjálftum, en aðeins í um 2% af öllum tilfellum fylgir stórskjálfti í kjölfarið á smáskjálftahrinu. Ég mun nú samt halda ótrauður áfram að birta mínar skoðanir á jarðvá, enda er Kvíabryggja hér alveg í næsta nágrenni við Stykkishólm og virðist vistin þar vera nokkuð góð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þessar fréttir frá Ítalíu eru með ólíkindum. Gætu verið frá miðöldum.  

Vonandi þurfa íslenskir vísindamenn ekki að hafa áhyggjur af svona vitleysu. Eða hvað? Hver veit?  Það er þó gott til þess að vita að Kvíabryggja er eins og fínasta lúxushótel, m.a. með nýjum rúmum

Ágúst H Bjarnason, 23.10.2012 kl. 07:03

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég held að morðóðir vísindamenn séu látnir dúsa á Litla hrauni innan um aðra skipulagða glæpamenn, oftar en ekki í einangrun.

En svona að öllu gamni slepptu þá er það sláandi að þessi hópur hafi verið dæmdur. Getur verið að þeir hafi búið yfir vitneskju sem óumdeilanlega hefði átt erindi við almenning?

Það er auðvita aldrei hægt að segja með 100% vissu hvernig náttúran hagar sér (annars væru allir veðurfræðingar í fangelsi), en í sumum tilfellum eru yfirgnæfandi líkur á að eitthvað muni gerast og það er hægt að ganga að því gefnu.

Í þessu samhengi dettur mér ein góð bíómynd í hug sem heitir Dante's Peak (http://www.imdb.com/title/tt0118928/) en hún fjallar einmitt um eldfjallasérfræðing sem er sannfærður um að eldgos er yfirvofandi en stjórnmálamenn og aðrir sérfræðingar leggja orð hans í efa.

Það hlýtur að vera erfitt að vera vísindamaður, búa yfir einhverri vitneskju en mega ekki tjá sig opinberlega vegna andstöðu "hagsmunaaðila".

Sumarliði Einar Daðason, 23.10.2012 kl. 07:38

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Vísindamenn, sem beðnir eru um að gefa álit sitt á jarðvá, verða lika að kunna að segja: ´ég veit það ekki´ eða þá ´það getur vel verið, en okkur vantar frekari gögn.´ Í þessu tilfelli gaf nefndin afgerandi svar, sennilega einungis til að róa fólkið.  Það voru mistök.  Þeir hefðu átt að hugsa málið frekar, og gefa meira yfirvegað svar.

Haraldur Sigurðsson, 23.10.2012 kl. 07:55

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ítalir hafa ekkert lært af sögunni. Vonandi á sú alda mótmæla vísindamanna sem nú er að rísa um víða veröld eftir að kenna þeim lexíu. Vonandi er til æðra dómsstig sem getur hreinsað mannorð jarðvísindamannanna.

Auðvitað er hættan sú að vísindamenn kjósi nú fremur að þegja en segja. Það væri miður.

Þeir verða þó auðvitað að gæta sín á því að vera ekki heldur of fullyrðingaglaðir, heldur skýra frá óvissunni sem alltaf ríkir í náttúruvísindum. Gæta sín á að hrópa ekki úlfur úlfur, því þá hætta menn að hlusta.  Mér hefur alltaf fundist meira í vísindamenn spunnið sem kunna að segja "ég veit það ekki", frekar en að þykjast vita.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þetta blogg þitt sem er til fyrirmyndar. Það er mikill fengur í vísindamönnum sem gefa sér tíma til að fræða almenning um sitt fræðasvið.

Ágúst H Bjarnason, 23.10.2012 kl. 10:25

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Satt að segja finnst mér ítölsku fræingarnir ekki vera alsaklausir. Þeir gáfu út yfirlýsingu, sem sennilega var ekki byggð á miklum rökum og hafði þær afleiðingar að íbúarnir trúðu því að þeir væru óhultir í ónýtum múrsteinshúsum sem hafa enga járnbindingu. Sammála Ágústi: betra að segja "ég veit það ekki"

Haraldur Sigurðsson, 23.10.2012 kl. 11:10

6 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég sé í fréttum að Veðurstofan segir að búast megi við 6,8 á Richter fyrir norðan, þ.e. að spennan er orðin það mikil.

Þeir ætla greinilega ekki að gera sömu mistök og ítalskir starfsbræður þeirra.

Sumarliði Einar Daðason, 23.10.2012 kl. 17:08

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvað næst? Dauðadómur fyrir hvassvirði?

Guðmundur Ásgeirsson, 23.10.2012 kl. 20:51

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Guðmundur: EF þú spáir bíðu, og í staðinn kemur stormur, þá er þess vert að kanna hvort þú hafir nægilega kanað heimildir áður en þú gafst út þína spá. Það er spursmálið með ítölsku fræðimennina sjö.  Sumir kunna að segja að þeir hafi ekki kannað nægilega gögnin, einkum um radon gasútsreymi.

Haraldur Sigurðsson, 24.10.2012 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband