Hneykslið um Náttúruminjasafn Íslands

Í öllum menningarlöndum eru náttúrufræðasöfn og vísindasöfn mikilvægur þáttur í menningarstarfsemi þjóðar. Þau eru einn meginn tengiliðurinn milli hins forvitna almennings og vísindamanna eða sérfræðinga, sem vilja veita fólkinu fróðleik og aðgang að furðum og dásemdum vísindanna. Á Íslandi er náttúruminjasafni svo lítið sinnt að það er reyndar þjóðarskömm. Ef til vill er þetta ástand aðeins ein sönnunin í viðbót að íslensk stjórnvöld virðast ekki telja vísindi vera hluta af menningarstarfsemi. Að nafninu til og samkvæmt lögum eigum við þrjú svokölluð höfuðsöfn: Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Vel hefur verið hlúið að Þjóðminjasafni, sem er með um 50 starfsmenn og veglegt húsnæði. Einnig fer nokkuð vel um Listasafn Íslands með um 17 starfsmenn. Hins vegar virðist nú búið að gefast upp með hugmyndina um Náttúruminjasafn Íslands, sem hafði tvo starfsmenn og hafði reyndar ekkert opið sýningarsvæði. Nú hefur verið ákveðið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að skipa ekki í stöðu safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands. Þar með er safnhugmyndin komin í algjöran dvala. Tilkynning um þetta efni barst út á netinu nú í vikunni frá fyrrum safnstjóra, en það vekur furðu að ekkert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum. Það er því vel þess vert að rifja upp dálitla sögu. Árið 1947 færði Hið Íslenska Náttúrufræðifélag ríkinu að gjöf mikið safn af gripum og skjölum sem félagið hafði eignast. Þetta var kjarninn að Náttúrugripasafni Íslands, sem fyrst var til húsa í Safnhúsinu á Hverfisgötu og síðar lengi inni á Hlemmi í Reykjavík, þar til því var endanlega lokað vorið 2008. Á meðan hafði starfsemi þróast þannig að Náttúrufræðistofnun Íslands var mynduð og heyrir hún undir umhverfisráðuneyti. Virðist svo sem að sú stofnun hafi haldið nær öllum gripum þeim sem fyrrum voru í vörslu gamla Náttúrugripasafnsins og einnig starfsmönnum. En nú byrjar vitleysan. Árið 2007 voru gerð lög um Náttúruminjasafn Íslands, sem heyrir undir menntamálaráðherra. Þetta átti að verða eitt af þremur höfuðsöfnum þjóðarinnar. Á meðan hefur Náttúrufræðistofnun blómgast, en nær ekkert var hafist að við uppbyggingu Náttúrufræðasafns Íslands. Safneign Náttúrufræðistofnunar er hins vegar orðin mikil. Nú eru til dæmis talin rúmlega 260 þúsund tegundasýni í dýrasafni þess, steina- og steingervingasafnið hefur að geyma um 30 þúsund sýni, borkjarnasafnið geymir um 20 þúsund lengdarmetra af borkjörnum og í plöntu- og sveppasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru samtals um 160 þúsund eintök af íslenskum plöntum. Auk þess var Náttúrufræðistofnun falið í lögum frá 1993 að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn í vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru. En þótt Náttúrufræðistofnun hafi verðmætt safn íslenskrar náttúru, þá er hér ekki safn sem almenningur hefur aðgang að, né sýningarsalir og annað húsnæði sem gera kleift að flytja boðskapinn og upplýsingar um íslenska náttúru til skólabarna, áhugamanna og alþýðu. Það er fyllilega ljóst að stjórnvöld hafa algjörlega klúðrað þessu máli og gert stór mistök í skipulagningu við myndun á þessum tveimur stofnunum. Önnur þeirra er virk og blómgast, en hin er nú nær dauð. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Náttúruminjasafnið uppfyllir hvorki lögbundnar skyldur sínar sem safn né höfuðsafn.
Ef Ísland ætlar að státa af því að vera menningarland í nútíma skilningi, þá er greinilega þörf á því, enn einu sinni, að skapa heilsteypta stefnu um náttúruminjasafn, eða sambærilega stofnun sem myndar tengilið milli vísindanna og almennings og miðlar vísindaþekkingu. En það er alls ekki ljóst að hefðbundið náttúruminjasafn sé lausnin, þar sem fjallað er um öll eða flest svið náttúrunnar. Ef til vill er skynsamara að skapa sérhæft safn, sem vísar til sérstöðu íslenskrar náttúru og umhverfis okkar. Hér á ég einkum við eldfjöllin, loftslagsbreytingar, hafið og jökla. Við þurfum safn þar sem börn, erlendir ferðamenn og aðrir gestir verða hrifin af sérstökum og oft einstökum þáttum íslenskrar náttúru, og sækja sér frekari fróðleik um mikilvæga þætti í umhverfi okkar.
Ég hef áður fjallað um klofninginn milli vísinda, lista og annara þátta menningar, og má lesa um það hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1092887/ Við verðum að efla þátt vísindanna í menningarþjóðfélagi okkar, og styrkja tengslin milli almennings og vísindastofnana, eins og söfn geta gert best.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað ég er sammála. Þetta er algjör hneisa. Það er líka undrunarefni hvað nær allir eru sinnulausir um þetta. Enginn öflugur þrýstingur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.5.2012 kl. 16:31

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tek hjartanlega undir með þér.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 20:26

3 identicon

Orð í tíma töluð / rituð.

Númi (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 23:55

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Haraldur. Takk fyrir þennan pistil. Þetta voru orð í tíma töluð. Það er skömm að því að íslensk börn fái að læra í skóla hvernig best sé að hagnast á að ræna banka, en náttúrulega raunveruleikanum er haldið frá þeim.

Ég ásaka stjórnvöld og skólayfirvöld sérstaklega fyrir þessi svik við skólabörn þessa volaða og úrræðalausa lands. Stjórnvöld sjá ekki mikilvægu sólina fyrir einskis verða myrkrinu.

Svo segjast þau vera náttúruverndarsinnuð stjórnvöld! Þvílíkur brandari!

Börn þessa lands eiga rétt á raunverulegri fræðslu um staðreyndir, en ekki endalausum heilaþvotti og lygaspuna í opinbera skólakerfinu, sem dregur mörg þeirra til dauða, því þau þola ekki þennan einsleita og hættulega heilaþvott.

Þetta er umbúðalaus sannleikurinn, og skömmin er skuldlaust á ábyrgð "náttúruverndarsinnuðu" stjórnvaldanna vanhæfu!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.5.2012 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband