Þyngdarmælingar spáðu gosi í Öskju 2010

ÞyngdarmælingarÞegar kvika færir sig úr stað eða streymir inn eða út úr kvikuþró undir eldfjalli, þá kunna að verða miklar breytingar á massa, og ef til vill má mæla slíkar breytingar með þyngdarmælingum á yfirborði. Aðdráttarafl Jarðar er breytilegt á hverjum stað, vegna mismunandi bergtegunda og breytilegrar eðlisþyngdar í jarðskorpunni, og þyngdaraflið getur því breytst þegar kvika færist til undir eldstöðinni. Breski jarðeðlisfræðingurinn Hazel Rymer og félagar hafa gert þyngdarmælingar í Öskju síðan árið 1985. Allt til ársins 2007 voru breytingarnar í eina átt. Á þeim tíma minnkaði þyngdaraflið stöðugt undir Öskju, sem þau töldu benda til þess að kvika væri að streyma út úr eða frá kvikuþrónni og inn í jarðskorpuna í kring um Öskju. Árið 2008 breyttist ferlið verulega, eins og myndin fyrir ofan sýnir, en þá byrjaði þyngdaraflið undir miðjunni á Öskju að hækka, sem sennilega var merki um að kvika streymdi nú inn í kvikuþrónna undir Öskju. Þessu hélt áfram árið 2009 og 2010. Það ár spáði Hazel Rymer í fjölmiðlum að gos yrði á næstunni í Öskju. Myndin sýnir niðurstöður Rymer og félaga á þyngdarmælingum, en ekki er mér kunnugt um niðurstöður mælinga á síðasta ári. Það er rauða brotalínan sem skiftir okkur máli, en hún er í miðju öskjunnar. Þar kemur greinilega fram breytingin sem varð árið 2007.  SkjálftarViðbót af nýrri kviku sem steymt hefur inn í kvikuþrónna undir Öskju síðan 2007 er talin vera 70 milljarðar kílógramma, á um 3 km dýpi samkvæmt þyngdarmælingunum. En hvað með jarðskjálftavirkni undir Öskju? Önnur myndin er gerð með gögnum í Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og sýnir tíðni og dreifingu á dýpi jarðskjálfta frá síðustu aldamótum og til dagsins í dag. Eitt virðist vera augljóst: djúpu skjálftarnir voru ríkjandi frá 2007 til 2010 en eru ekki fyrir hendi síðan. Það er ekkert sem bendir til að grynnri skjálftar séu algengari síðustu tvö árin, heldur virðast þeir vera færri. Ég tek það fram að hér eru aðeins sýndir skjálftar af stærðinni 3 og meira.  Að lokum er þess vert að benda á, að óróamælingar Veðurstofunnar í Öskju sýna engar breytingar undanfarna daga.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Júlíusson

Við skulum vona það.  Annars er það í útlöndum, þar sem ég bý, að útlöndum eru allir æstir að koma til Íslands þegar eitthvað er að gerast.

Það er spenna en einnig telja margir að Íslendingar geta tamið þetta, þ.e. svona sightseeing tour yfir hættisvæðin.

Þegar ég var með fyrrverandi þurfti ég alltaf að benda henni á hætturnar, vegna þessa var ég hættur að vera spennandi;)b

Stefán Júlíusson, 6.4.2012 kl. 00:29

2 identicon

Það verður áhugavert að sjá niðurstöður úr hitamælingum Jarðvísindastofnunar.

Ég sá eða heyrði eitthvað um þá tilgátu að CO_2 væri mögulega ábyrgt fyrir ísleysinu. Sú tilgáta er áhugaverð. Ég finn reyndar engin töluleg gildi um áhrif CO_2 á frostmarksbreytingu, bara vísindagreinar (sem ég nenni nú ekki að lesa í augnablikinu).

Ég vænti þess að slíkt myndi benda til þess að kvikan í kvikuhólfinu væri að afgasast, mögulega vegna kólnunar vænti ég. Ég veit reyndar ekki hvort gasið næði yfirborði án þess að til kæmu einhverjar jarðhræringar sem brytu upp skorpuna. Ég átta mig heldur ekki á því hversu MIKIÐ magn þyrfti til að valda frostmarkslækkun eða hvort það er raunhæft miðað við stærð kvikuhólfsins, en tilgátan er í versta falli áhugaverð.

Magnús Tumi Páll Einarsson (IP-tala skráð) 6.4.2012 kl. 01:38

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég hef grun um, að umræðan um CO2 í Öskju sé vegna hugsanlegrar hættu sem feðamenn kunna að verða fyrir. CO2 gas sem kann að sreyma upp á yfirborðið gæti safnast fyrir í dældum og lægðum, eins og í Víti og valdið köfnum af CO2 gasi. Uppleysanleiki CO2 í vatni eykst með dýpi eða þrýstingi, en minnkar með hækkandi hita. Ef vatnið hitnar, þá minnkar magn af CO2 sem getur leystst upp í því. Vatnið getur ekki hitnað eingöngu vegna hækkandi CO2 magns, nema þá að mjög heitt CO2 streymi inn í vatnið. Fyrri mælingar í vatninu benda til að það séu sterkir straumar í því, og af þeim sökum eru litlar líkur á að CO2 safnist í djúpvatni, eins og gerst hefur árin 1984 og 1986 í Monoun og Nyos vötnum í Kameroon í Afríku.

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2012 kl. 02:19

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Frekara efni varðandi CO2 og banvænu gígvötnin í Kameroon í Afríku, sjá kaflan sem ber heitið Gígvötnin í Afríku (bls. 207) í bók minni Eldur Niðri (2011).

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2012 kl. 06:54

5 identicon

Frostmarkslækkun af völdum CO2 í vatni er að nokkru leyti háð sýrustigi vatnsins en gera má ráð fyrir að hún sé af stærðargráðunni 0,1°C fyrir hvert gramm af CO2 sem leyst er í lítra vatns. Leysni CO2 í vatni við 0°C er rúm 3 g/L svo upplausn gassins ætti ekki að hafa veruleg áhrif á frostmark vatnsins.

Auðvitað er ekki útilokað að mikið flæði CO2 upp í gegnum vatnið geti að einhverju leyti hindrað eða tafið ísmyndun en frostmark vatnsins breytist varla að ráði.

Finnbogi (IP-tala skráð) 6.4.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband