Skjálftavirkni undir Öskju

Askja kortÞað hefur verið fylgst náið með jarðskjálftavirkni á svæðinu í grennd við Öskju undanfarin ár. Í fyrsta lagi var sett upp stórt net af skjálftamælum í sambandi við Kárahnjúkavirkjun, og í öðru lagi voru það umbrotin árið 2007 undir Upptyppingum fyrir austan Öskju, sem hvöttu jarðeðlisfræðinga til dáða. Hvað segja þessi gögn um kvikuþróna undir Öskju? Janet Key og félagar frá Cambridge háskóla hafa nýlega gefið út skýrslu sem fjallar um skjálftavirkni undir Öskju undanfarin ár, en þau hafa keyrt mikið net af skjálftamælum umhverfis Öskju samfellt frá árinu 2008. Fyrsta myndin er kort af Öskjusvæðinu, og sýnir dreifingu skjálftanna. Eins og kemur fram á mynd númer tvö, þá eru skjálftar  á fremur litlu dýpi í jarðskorpunni sýndir með grænum lit, eða frá 2 til 8 km. Hins vegar eru skjálftarnir á  miklu dýpri sýndir með gulum lit, eða frá 12 til yfir 30 km. Þannig eru skjálftar á tveimur vel afmörkuðum svæðum, og þeir dýpri eru tengdir flæði af kviku upp úr möttlinum og inn í jarðskorpuna undir eldstöðinni.  Grynnri skjálftarnir á 2 til 8 km dýpi kunna að vera tengdir kvikuþrónni. Þriðja myndin sýnir þversnið í gegnum jarðskorpuna undir Öskju, á norðaustur línu sem liggur undir Herðubreið (lína A-A´ á fyrstu myndinni).  Dýpi skjálftaÍ þversniðinu sést greinilega að mikið er um grunna skjálfta undir Öskjuvatni, á um 2 til 6 km dýpi, en engir djúpir skjálftar hér. Djúpu skjálftarnir virðast koma fyrir norðar í Öskju, einkum undir Öskjuopi, þar sem sprungugosið árið 1961 brautst út. Samkvæmt túlkun jarðeðlisfræðinga benda djúpu skjálftarnir til að kvikuhreyfingar hafi verið í gangi djúpt undir Öskju í mörg ár. Á sama tíma hafa Freysteinn Sigmundsson og félagar safnað radar gögnum úr gervihnetti (InSAR) frá 2000 til 2009 um hreyfingar jarðskorpunnar í Öskju. Þar kemur í ljós að botninn á Öskju hefur stöðugt verið að síga um 3 cm á ári, sennilega vegna streymis af kviku út úr kvikuþró á um 3 km dýpi. Þversnið skjálftaEn árið 2010 komu fram breytingar á þyngdarmælingum yfir Öskju, sem Hazel Rymer og félagar hafa framkvæmt, en þær gefa til kynna að þetta ferli sé að snúast við. Meira um það í næsta bloggi, og spá Rymer´s um gos á næstunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Sæll Haraldur
Takk fyrir skemmtilegar og stórfróðlegar greinar. Ég tek eftir að þú talar um kvikuþró undir Öskju. Nýleg grein í New Scientist dregur í efa tilvist kvikuþróa eða hólfa undir jarðskorpunni, sem menn hafa lengi ímyndað sér að séu til staðar í eldfjöllum einkum þar sem er að finna "heita reiti" (e:hot spots) eins og á Íslandi og á Havaíeyjum. Ég veit að þú ert sérfræðingur á þessu sviði og væri því fróðlegt að heyra álit þitt á þessu atriði.

Júlíus Valsson, 5.4.2012 kl. 16:23

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er eitt svar við þessu. Efnagreiningar sýna, að mikið af kvikunni sem kemur upp á yfirborð getur ekki komið beint úr möttlinum, heldur verður hún að hafa dvalið um lengri eða skemmri tíma í kvikuþró í skorpunni. Auk þess er sum kvika líparítkvika, sem er vafalaust upprunin í skorpunni en ekki möttli. Svo er andesít kvika, eins og sú sem gaus árið 2010 úr Eyjafjallajökli, en hún er sennilega blanda af líparít og basalt kviku. Sú blöndun hefur gerst í kvikuþró. Jafnvel basalt kvika, eins og sú sem kom upp í Lakagígum árið 1783, er ekki komin beint úr möttli. Tilvist kvikuþróa er örugg og tvímælalaus. En enginn veit hversu stórar þær eru.

Haraldur Sigurðsson, 5.4.2012 kl. 20:27

3 identicon

Mig langar bara til þess að þakka þér fyrir þessa frábæru og fræðandi pisla. Ég vinn sem leiðsögumaður og nýti mér óspart fræðslu þína

Rósa Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2012 kl. 22:15

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Frekar varðandi kvikuhólf. Ég hef alltaf álitið að þau séu álika og harmónikka. Hólfið er belgur, sem þenst út þegar kvika streymir inn, en fellur síðan saman og hverfur að mestu leyti þegar kvika streymir upp á yfirborðið, eða út í jarðskorpuna til hliðar. Myndun á öskjum eða calderas á yfirborði er ein sönnunin fyrir tilvist kvikuþróa. Þegar mikið magn af kviku berst upp á yfirborðið, þá tæmist þ´roin að einhverju leyti og þá hrynur fjallið, eða þak þróarinnar dettur niður og myndar öskju á yfirborði. Það er þess vegna, sem Öskjuvatn er svo sérstætt í jarðsögunni: síðasta og nýjasta askjan sem hefur myndast á Jörðu.

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2012 kl. 00:07

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Kærar þakkir fyrir afar fróðleg svör.

Júlíus Valsson, 6.4.2012 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband