Er Öskjuvatn að hitna?

Dýptarkort af ÖskjuvatniÞað vekur athygli í fjölmiðlum, að nú er Öskjuvatn íslaust. Vatnið er um 4,4 km á breidd og um 220 m djúpt, en það myndaðist við mikið ketilsig í kjölfar Öskjugossins árið 1875. Öskjuvatn var mælt af Sigurjóni Rist og félögum árið 1975, en Jón Ólafsson efnafræðingur birti merka grein um eðli og efni vatnsins árið 1980.  Svörtu púnktarnir á kortinu sýna mælistöðvar hans. Kort Sigurjóns af vatnsbotninum er hér til hliðar. Volgrur á botni og við ströndina vestan og suðvestan vatnsins mældust allt að tíu stig og yfirborðshiti vatnsins um 7 stig árið 1980. Á eða við vatnsbakkan eru víða volgrur með allt að 84 stiga hita. Það er því ljóst að vatnið hefur lengi verið óvenju heitt og að jarðhiti er töluverður. Guðmundur Sigvaldason benti á 1964 að sum svæði væru íslaus á vatninu yfir veturinn, en að öðru leyti kortir upplýsingar um ísalög á þessu afskekkta vatni. Það kemur því ekkert á óvart að vatnið sé íslaust nú í byrjun apríl. Nú verður fróðlegt að sjá hvort mælingar sýni hærri hita en árið 1980, eða hvort það er mælikvarði um hlýnandi veðurfar að Öskuvatn er nú laust við ísinn snemma vors. En svarið við spurningunni hér fyrir ofan: Er Öskuvatn að hitna?  er þá þessi: Það hefur alltaf verið heitt frá upphafi.Öskjuvatn

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það að ísa festi ekki yfir volgrum á grynningum er auðvitað gerólíkt og að kynda allt vatnið svo að allt yfirborð þess sé íslaust.

Hér er mynd sem var tekin 12. júlí í fyrra og sýnir talsverðan ís á vatninu.

http://www.flickr.com/photos/borealtravel/6620695587/

Hér er mynd sem var tekin 30. júní 2009 og sýnir vatnið að mestu þakið ís

http://www.flickr.com/photos/nigesphotobox/3774863033/in/photostream/

Það kemur því á óvart að vatnið sé skyndilega íslaust í lok mars. Sérstaklega þegar snævi þakið umhverfið á myndunum núna 18. og 27. mars er borið saman við myndirnar hér á undan.

http://www.vatnajokulsthjodgardur.is/starfsemi/a-dofinni/nr/604

Þann 18. mars fór hittinn við Mývatn niður í -19,9 og hitinn á Grímsstöðum á Fjöllum fór niður í -18,8 stig. Þannig að það er ekki eins og við séum að tala um einhver óskapleg hlýindi á svæðinu sem séu að valda þessu.

Svarið við spurningunni: Er Öskjuvatn að hitna? er: Já, það er greinilega að hitna.

gummih (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 10:28

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Öskjuvatn getum svo sem verið að hitna þó það sé heitt fyrir, ef út í það er farið.

En ég var að skoða gervitunglamynd frá 8. febrúar og þar sést að vatnið var þá alveg ísilagt - ef það segir eitthvað. Linkur er hér: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/imagery/subsets/?subset=Arctic_r01c03.2012039.terra.500m

(Ath myndin er frekar stór)

Emil Hannes Valgeirsson, 3.4.2012 kl. 12:08

3 identicon

Hef verið að blaða í ýmsum rituðum heimildum um gos í Öskju, allt frá stóratburðunum í mars 1875 og fram til gossins 1961. Það virðist sammerkt þessum atburðum, að talsverður aðdragandi sé að gosum í og við eldstöðina. Jarðhræringar fundust í byggð árið 1874 og smágos virðist hafa orðið í janúar 1985 að því viðbættu, að einnig urðu gos í tvígang a.m.k. á Sveingjársprungunni áður en ósköpin dundu yfir þ. 28. mars. Reyndar héldu umbrotin áfram í allnokkurn tíma á Sveinagjársprungunni eftir því sem heimildir greina. Í Öskju sjálfri er greint frá að nokkur smágos hafi orðið allt frá árinu 1921 fram undir 1929. Allnokkur aðdragandi virðist einnig hafa verið að gosinu sem hófst 26.10. 1961, bæði jarðhræringar sem fundust í byggð og svo sáu t.d. gangnamenn 9. október gjósandi leirhveri. Var að rifja upp skemmtilega frásögn Birgis heitins Kjaran bæði af flugferð jarðvísindamanna og ökuferð eftir að gosið hófst í ritgerðasafni hans sem heitir "Auðnustundir" og kom út árið 1964 Takk fyrir þessa umfjöllun, dr. Haraldur.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.4.2012 kl. 15:01

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Dagsettar athuganir og ljósmyndir eins og þær hér fyrir ofan eru verðmætt inlegg í söguna um Öskjuvatn. En það er ekkert sem jafnast á við hitamælingar, sem eru gerðar á nákvæmlega sama stað, á sama hátt, hvað eftir annað, og helst á dýpi í miðju vatninu. Í sjálfu sér er auðvelt að setja upp sjálfvirkan síritandi hitamæli hér, með GSM sambandi í Veðurstofuna. Ekkert mál fyrir sæmilega góðan tæknifræðing. Grein Jóns Ólafssonar sýndi að það er mikill hitamunur á ýmsum stöðum í vatninu. Ég er ekki enn sannfærður um, að vatnið sé að hitna, en það má vel vera.

Haraldur Sigurðsson, 3.4.2012 kl. 16:27

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vatn sem hefur lagt í vægu frosti í febrúar en er íslaust í nístingsgaddi í mars hefur greinilega hitnað nóg í millitíðinni til að losa sig við ísinn.  Ekki þarf gráðu í eðlisfræði eða jarðfræði til að átta sig á slíku.  Það sem ekki fæst svar við nema með nákvæmum mælingum er hversu heitt vatnið er.  Hugsanlega eru þó til gervitunglamyndir af svæðinu sem sýna hitastig yfirborðs.

Marinó G. Njálsson, 3.4.2012 kl. 17:38

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Allar fyrirliggjandi upplýsingar virðast benda til þess að vatnið sé að hitna og þá er þetta bara spurning um að sannreyna kenninguna. Eru ekki til innrauðar myndir úr gervitunglum sem myndu sýna slíka hitaukningu?

Guðmundur Ásgeirsson, 6.4.2012 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband