Vantar Jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi

10jul2011Það er stórt gat í jarðskjálftamælaneti Íslands. Gatið eru Vestfirðir og allt Snæfellsnes, en hér eru engir mælar. Við vitum nær ekkert um skjálftavirkni á svæðinu, og aðeins skjálftar sem eru af stærðinni 2 eða stærri mælast nú inn á landsnetið sem Veðurstofan rekur. Næsta varanlega jarðskjálftastöðin sem Veðurstofan rekur er í Ásbjarnarstöðum í Borgafirði. Í sumar var gerð fyrsta tilraun með fimm skjálftamæla á Snæfellsnesi af jarðeðlisfræðingnum Matteo Lupi við háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann mældi skjálfta á Snæfellsnesi frá 20. júní til 25. júlí 2011. Hann setti upp fjórar stöðvar umhverfis Snæfellsjökul, og eina í Álftarfirði, í grennd við megineldstöðina Ljósufjöll. Lupi og félagar eru enn að vinna úr gögnunum, en það kom strax í ljós, að staðbundnir skjálftar mældust, sem eiga upptök sín undir Snæfellsnesi, bæði í Álftafjarðarstöðinni og umhverfis Jökul. Myndin sem fylgir sýnir til dæmis staðbundinn skjálfta sem varð undir Snæfellsjökli hinn 10. júlí. Slíkir smáskjálftar geta veitt okkur miklar upploýsingar um eðli og hegðun eldfjalla á Nesinu. Sjá hér varðandi fyrra blogg mitt um þetta mikilvæga mál: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1051312/

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Ég hef stundum furðað mig á rólegheitunum á Snæfellsnesinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.10.2011 kl. 13:17

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Já, það virðist allt fremur rólegt á yfirborðinu, en við vitum ekkert um hvað er að gerast undir niðri.

Haraldur Sigurðsson, 18.10.2011 kl. 14:58

3 identicon

Hvernig mæla voru þeir með þessir Þjóðverjar? Eru ekki komnir einhverjar nýtískulegri, jafnvel stafrænar græjur skárri og meðfærilegri en þessar gömlu risastóru tromlur sem allir þekkja?  Eitthvað á viðráðanlegu verði, sem heimamenn gætu einfaldlega sett upp, þó ekki væri nema vegna eigin öryggis?

Ég fylgist daglega með skjálftunum á vedur.is, en mig rámar aðeins einu sinni í að hafa séð jarðskjálfta út á sjálfu Snæfellsnesinu koma þar fram, það var um miðbik nessins, á móts við Elliðahamar eða því sem næst. Það hefur þá verið umtalsverður skjálfti fyrst hann kom fram á jafn fjarlægum mælum?

Kveðjur,

BJ 

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 18:05

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nú eru jarðskjálftamælar orðnir minni, léttari og þurfa minni orku. Þannig er hægt að reka stöðvar með sólarorku eða litlum rafhlöðum. Upplýsingar eru sendar sjálfkrafa um GSM síma. Mér er ekki kunnugt um verð, en mér skilst að það kosti um kr. 2 M að setja upp og reka hverja stöð.

Haraldur Sigurðsson, 18.10.2011 kl. 19:09

5 identicon

Hvað þarf marga mæla til þess að dekka nesið svona þokkalega?

2 millur eru ennþá allt of mikið:  Nú þegar Páll Theódórsson er búinn að smíða litla, handhæga, nákvæma og góða aldursgreiningamæla með C14 aðferðinni, þá er bara að virkja hann í þetta nýja verkefni, að koma með ódýra, handhæga og góða jarðskjálftamæla, honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því!

BJ 

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 19:28

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég tel að það þurfi amk. tvo mæla umhverfis Jökul og tvo í Ljósufjöllum. Auðvitað væri hægt að smíða slíka mæla. En ég tel hentugast fyrir alla, að slíkir mælar væru reknir af Veðurstofunni, og einnig er mikilvægt að hafa gögnin aðgengileg á netinu fyrir alla.

Haraldur Sigurðsson, 18.10.2011 kl. 19:54

7 identicon

Þar sem opinberar stofnanir hafa gefist upp við að sinna þeim skyldum sem á þær eru lagðar, þá taka einfaldlega aðrir við keflinu. Gott dæmi um þetta er Landmælingar Íslands, en það er nú síðasti staður á landinu þar sem menn leita sér landkorta, hvort sem þau eru prentuð eða stafræn. 

Aðgengi á netinu að niðurstöðunum frá 4 sjálfvirkum jarðskjálftamælum á Snæfellsnesi er barnaleikur sem hvaða miðlungstölvunörd mundi leysa blindandi með aðra hendi fyrir aftan bak!  

BJ 

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 20:12

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ágæt hugmynd, Björn, sem er vel vert að athuga nánar. Eldfjallasafn í Stykkishólmi gæti vissulega rekið slíka skjálftamæla, ef við finnum þennan miðlungstölvunörd sem þú ræðir um.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 19.10.2011 kl. 13:11

9 identicon

Sæll Haraldur !

Ég held að Veðurstofan hafi sett upp mæli í Stóra Langadal í vor, a.m.k. ræddu þeir við mig og fengu leyfi fyrir verkinu. Veit ekki hvort það tengist eitthvað þessum ágæta þjóðverja ?

Bjarni

Bjarni (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 21:09

10 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Veðurstofan var í samvinnu við jarðeðlisfræðinginn frá Bonn háskóla með uppsetningu skjálftamælanna á Nesinu í sumar, þar á meðal í Stóra Langadal, sem var stöðin næst Ljósufjöllum.

Haraldur Sigurðsson, 20.10.2011 kl. 22:58

11 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Gott mál því að við verðum að fylgjast með landinu nú á tímum aukinna eldsumbrota!

Sigurður Haraldsson, 25.10.2011 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband