Saga Íslenska Heita Reitsins

lawver2002.jpg

Fyrstu ár mín í jarðfræðinni, í kringum 1963, varð ég hugfanginn af því hvað Mið-Atlantshafshryggurinn væri mikilvægur fyrir skilning okkar á jarðfræði Íslands. Á þessum árum reyndu flestir framsæknir ungir jarðfræðingar að finna Íslandi stað í hinum nýju vísindum sem snertu úthafshryggi og landrek. Margir hinna eldri voru þó skeptískir og vildu ekkert af landrekskenningunni heyra lengi vel. En árið 1971 kom Jason Morgan fram með kenninguna um heita reiti og möttulstróka og gerði okkur ljóst að einn slíkur væri staðsettur undir Íslandi. Allt í einu fór athygli okkar að beinast að þessu nýuppgötvaða fyrirbæri og með árunum hefur mikilvægi heita reitsins orðið mun skýrara en vægi úthafshryggsins minnkað að sama skapi. Nú er okkur ljóst að sérstaða Íslands stafar af heita reitnum, sem situr djúpt í möttlinum og framleiðir mikið magn af kviku og heldur landinu vel ofan sjávarborðs.

En heiti reiturinn undir Íslandi á sér langa sögu, sem er um 16 sinnum lengri en öll jarðsaga Íslands. Ég hef aðeins stuttlega fjallað um þessa sögu hér á blogginu í pistlinum   http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1559307/   og bent á tengsl við Síberíu. Nú lagar mig til að skýra frekar frá þróun hugmynda og staðreynda um sögu heita reitsins okkar. Saga vísindanna er mikilvæg og okkur ber skylda til að viðurkenna og minnast þeirra, sem gert hafa fyrstu uppgötvanirnar á hverju sviði. Það er einmitt hlutverk þeirra fræða, sem við nefnum sögu vísindanna. Enn er of snemmt að skrifa þessa sögu varðandi Íslenska heita reitinn, en hér er byrjunin.

Árið 1994 birtu Lawrence A. Lawver   og Dietmar Müller, jarðeðlisfræðingar í Texas, grein sem nefnist “Iceland hotspot track”, eða slóð íslenska heita reitsins. Þeir könnuðu jarðskorpuhreyfingar eða flutning flekanna á norðurhveli jarðar. En ólíkt flekunum, þá hreyfast heitir reitir lítið eða ekkert með árunum, þar sem þeir eru akkeraðir eða fastir djúpt í möttlinum og því óháðir reki flekanna á yfirborði jarðar. Lawver og Müller sýndu fram á að heiti reiturinn, sem er nú undir Íslandi, var undir Kangerlussuaq á Austur Grænlandi fyrir um 40 milljón árum, undir Umanak firði á Vestur Grænlandi fyrir um 60 milljón árum, undir Ellesmere eyju fyrir 100 til 130 milljón árum,   og að fyrir þann tíma hafi heiti reiturinn sennilega myndað Mendeleyev hrygginn og einnig Alpha hryggin í Íshafinu. Lengra ráku þeir ekki sögu heita reitsins í þetta sinn, sem nú er undir Íslandi. Rauðu dílarnir á myndinni sýna ferilinn, sem heiti reiturinn hefur farið eftir á þessum tíma. Tölurnar eru milljónir ára.

Þá kemur að annari grein, sem birtist árið 2002, einnig eftir Lawver og félaga. Þar kanna þeir flekahreyfingar yfir heita reitinn enn fyrr í jarðsögunni og rekja slóðina alla leið til Síberíu fyrir um 250 milljón árum (grænu stjörnurnar á myndinni). Það ég best veit, þá er þetta í fyrsta sinn sem tengslin milli Íslands og Síberíu eru viðruð meðal vísindamanna. Við vitum þá nú um uppruna heita reitsins, sem Ísland situr á í dag. Í síðara bloggi mun ég fjalla um þær miklu hamfarir þegar þessi heiti reitur kom fyrst upp á yfirborðið.


Bloggfærslur 7. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband