Fyrstu norðurfararnir

untitled_1291704.jpgHvenær komu menn fyrst inn á Norðurheimskautssvæðið? Á Ísöldinni var þetta vægast sagt erfitt svæði til að búa á, kalt, dimmt og erfitt yfirferðar. Það er vitað að menn voru fyrst á ferðinni á Ísöldinni frá Síberíu til Norður Ameríku fyrir um 18 þúsund árum, en nú hefur komið í ljós vitneskja um að maðurinn hafi farið á norðurslóðir miklu fyrr á Ísöldinni, eða fyrir um 45 þúsund árum. Árið 2004 fundust tól úr steini og beini í Uralfjöllum í Rússlandi sem reyndust vera 35 þúsund ára, og einnig hafa fundist nýlega leifar af slátruðum mammútum eða loðfílum frá sama tíma.  En merksti fundurinn til þessa varð árið 2012, þegar 11 ára rússneskur snáði, Zhenya að nafni, rakst á leggi af hálfrosnum loðfíl, sem stóðu út úr árbakkanum við Yenisei flóa í norður Síberíu, um 2000 km fyrir sunnan norðurpólinn. Rannsókn leiddi í ljós að fílnum hafði verið sátrað af mönnum fyrir um 45 þúsund árum. Þetta sýnir að maðurinn hefur snemma aðlagað sig að helkulda Ísaldarinnar í norðri, sennileg með góðum skinnklæðum og vel vopnaður spjótum til að eiga við stór dýr eins og loðfíla.  Loðfílar og önnur mjög stór dýr voru algeng á steppunum við jökulröndina á Ísöld. Maðurinn hefur sótt inn á þetta svæði til að afla sér fæðu frá hinum stóru dýrum, en það þurfti mikið vit og mikla samvinnu margra veiðimanna að ná að drepa slík dýr með fremur frumstæðum spjótum með steinoddi. En þarna úr einu dýri eru komin á matarborðið mörg tonn af kjöti, sem getur haldið lífinu í heilu þorpi í marga mánuði. Á ferðum sínum um Síberíu leitaði maðurinn meðal annars enn austar, þar sem hann komst þurrum fótum frá Síberíu og til Alaska fyrir um 18 þúsund árum og hóf að nema land í Ameríku.


Bloggfærslur 5. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband