Sjávarborð hækkar stöðugt

sja_769_varhae.jpgSjávarborð hækkar um heim allan vegna hnattrænnar hlýnunar. Ég er staddur í Newport, Rhode Island, á austur strönd Bandaríkjanna. Hér hafa menn almennt vaxandi áhyggjur af hækkandi sjávarborði, sem veldur vatni í kjallaranum, rofi á ströndinni og flóði yfir suma vegi meðfram sjónum. Þetta er reyndar vandamál, sem allir berjast við á austur strönd Ameríku í dag.   Hér í Newport hækkar sjávarborð að meðaltali um 2,72 mm á ári.

Í Reykjavík hefur sjávarborð einnig hækkað að meðaltali um 3,6 mm á ári frá 1956 til 2007, eins og myndin sýnir. Síðustu ár hefur hækkunin verið meiri, og er um 5,5 mm á ári fyrir tímabilið 1997 til 2007. Ég hef ekki séð nýrri mælingar en við getum fastlega gert ráð fyrir að hækkunin sé ekki minni í dag. Hluti af hækkun sjávarborðs í Reykjavík er þó tektónísk, þ.e. hún stafar af því að jarðskorpan sígur stöðugt undir höfuðborginni, um það bil 2,1 mm á ári.

Það er athyglisvert að hækkun sjávarborðs virðist gerast hraðar nú í Reykjavík en áður. Það sama kemur fram í gögnum frá austur strönd Ameríku og víðar. Hækkunin getur orðið mjög hröð ef ísinn umhverfis Suðurskautið bráðnar. Sumir vísindamenn telja að í náinni framtíð (á 22. öldinni) geti sjávarborð hækkað um jafnvel 30 cm á áratug, þegar ísbreiðan á vestur hluta Suðurskautsins losnar frá meginlandinu og bráðnar í heitari sjó.

Fyrir þremur árum töldu flestir vísindamenn að hækkun sjávar á ströndum Ameríku verði í mesta lagi 30 cm árið 2100 miðað við sjávarborð í dag. En í dag telja margir þeirra að hækkunin geti jafnvel orðið 180 til 210 cm við næstu aldamót. Ef svo fer, þá eru það einhverjar mestu náttúruhamfarir, sem mannkyn hefur orðið fyrir. Milljónir verða að flýja heimili sín og margar borgir með ströndum landsins verða yfirgefnar.  Þrátt fyrir þessar grafalvarlegu niðurstöður vísindanna, þá neita þingmenn Repúblikana í Bandaríkjunum að viðurkenna hnattræna hlýnun, og stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn.  En framundan kunna að vera einhverjir mestu landflutningar, sem mannkynið hefur upplifað, þegar íbúar yfirgefa sökkvandi stórborgirnar og leita inn á hærri landsvæði meginlandanna.


Þegar allt bráðnar

untitled_1291468.jpgSífrerinn í norðri er að bráðna hratt. Sumar afleiðingar þess eru strax ógnvænlegar, eins og losun af miltisbrandi upp úr gömlum gröfum, sem eru nú að þiðna í Síberíu. Aðrar afleiðingar eiga eftir að koma í ljós á næstunni. Sífrerinn eða freðmýrar er miklu umfangsmeiri en flesta grunar, en hann nær yfir um 24% af öllu norðurhveli jarðar. Í sífreranum leynast um 1700 milljarðar tonna af kolefni, sem mun berast út í andrúmsloftið þegar hann bráðnar. Þá berst þetta kolefni út í andrúmsloftið sem CO2 og metan gas, CH4. Bráðnun sífrerans er hægfara þróun, sem mun smátt og smátt valda losun af kolefni, mest metan, út í andrúmsloftið næstu tvær aldirnar. Árið 2300 er talið að sífrerinn hafi gefið frá sér um 400 milljarða af metan út í andrúmsloftið. Til samanburðar er útlosun mannkynsins af kolefni vegna brennslu af kolum og olíu nú um 8 milljarðar tonna á ári. Ef við höldum áfram að brenna kolum og olíu í sama magni og nú, þá bætum við við meir en 2000 milljörðum tonna á sama tíma. Við mengum því enn meir en sífrerinn getur -- nema ef við breytum um hátterni. Sífrerinn er því ekki stóra vandamálið, heldur er maðurinn sjálfur stóra hættan hvað varðar loftslagsbreytingar og hnattræna hlýnun. Þúfurústir og melatíglar eru vitneskja um sífrera og þessi fyrirbæri eru nokkuð algeng á hálendi Íslands.


Bloggfærslur 3. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband