Hvernig tunglið varð til

tungl.jpgTunglið er alltaf þarna, uppi á himninum, okkur til aðdáunar. Það veldur einnig sjávarföllum, sem eru mikilvæg fyrir lífríki jarðar. En hvernig myndaðist tunglið? Flest bendir til þess að tunglið hafi myndast fyrir um 4,5 milljörðum ára vegna áreksturs loftsteins eða lítillar plánetu á jörðina, eða aðeins um 40 milljón árum eftir að jörðin myndaðist. Kenningin er sú, að loftsteinn á stærð við Mars hafi rekist á jörðina og þá hafi kastast mikið magn af efni frá jörðinni, sem myndaði disk af grjóti og ryki umhverfis jörðina. Tunglið myndaðist síðan úr þessum disk. Það eru viss vandamál varðandi þetta líkan, eins og það að jörð og tungl hafa nær nákvæmlega sömu efnasamsetningu og ekkert efni hefur enn fundist, sem gæti verið efni úr stóra loftsteininum.  Getur það verið vegna þess að efni úr loftsteinum og ytri lögum jarðar blönduðust vel saman?  Er tunglið aðallega myndað úr efni frá loftsteininum eða úr efni frá jörðinni? Nú hefur komið í ljós að það er lag á mörkum kjarnans og möttuls jarðar, og Miki Nakajima og félagar hafa stungið uppá að þetta lag séu leifarnar af loftsteininum stóra.

Nú hefur einnig komið í ljós að tunglið hefur hærra magn af kalíum ísótópum (K41) heldur en jörðin. Það er því mælanlegur munur á efnasamsetningu tungls og jarðar. Það bendir til þess að áreksturinn hafi verið mjög kröftugur, og að mikill hluti af möttli jarðar og loftsteinninn hafi blandast í gas skýi umhverfis jörðina. Tunglið myndaðist síðan við kólnun á þessu skýi. Á þessum tíma, skömmu eftir myndun jarðar, var himingeimurinn hættusvæði, vegna mikils fjölda smástirna og loftsteina, sem orsökuðu tíða árekstra fyrstu milljónir ára í sögu jarðar.


Bloggfærslur 15. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband