Nation-building er orsök hryðjuverkanna

Ég var í París hinn 7. janúar 2015, daginn sem hryðjuverkin voru framin í Charlie Hebdo. Ég var EKKI í París nú á föstudaginn, þegar nýju hryðjuverkin voru framin, þar á meðal í Bataclan hljómleikasalnum, aðeins um 300 metrum frá Charlie Hebdo.   Reyndar var vettvangur hryðjuverkanna nú á svæði í austur hluta borgarinnar, sem mér finnst lítt spenandi, fyrir utan hinn einstaka Père Lachaise kirkjugarð, þar sem finna má leiði Jim Morrison (The Doors), Maria Callas, Oscar Wilde, Balzac, Delacroix ofl. Í París ríkir nú mikil sorg og allt er nú gert til að komast til rótar í þessu máli. En að mínu áliti eiga hryðjuverkin í París og víðar í heiminum undanfarið rót að rekja til aðgerða heimsveldanna á tuttugustu öldinni og í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Uppúr 1990 kom fram ein tegund af heimsveldisstefnu í Bandaríkjunum, sem fékk hið virðulega nafn “nation-building”. Það voru hugmyndafræðingar, sem störfuðu á vegum George W. Bush, George H W Bush og Tony Blair, sem voru helstu áróðursmenn fyrir nation-building og þeir eru oftast nefndir “neocons”, eða neo-conservatives.  Fremstir þar í flokki voru Paul Wolfowitz, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Æðsta markmið neocons var að reisa Amerískt heimsveldi, þar sem ríkti Pax Americana eða Ameríski friðurinn. Einkum höfðu neocons augastað á mið-austurlöndum, þar sem auðlindir af olíu og gasi eru miklar. Það kemur ekki á óvart að margir neocons og einnig Bush fjölskyldan hafa sterk tengsl í olíufyrirtækjum og félögum tengdum olíuleit, eins og Haliburton, Schlumberger og Hughes Tool Co.

            Já, en þú gengur bara ekki inn og tekur yfir landið og allar auðlindir þess? Nei, þeir höfðu aðra og smekklegri aðferð, sem þeir kalla “nation-building”. Í nær öllum miðausturlöndum var fólkið þá undir hælnum á harðstjóra eða herforingjaráði og lýðræði var af skornum skammti eða ekki neitt. Nú sáu neocons sér leik á borði: þeir lögðu til að Bandaríkin (og fylgifiskar þeirra, þar á meðal Bretar og einnig Ísland undir merki Davíðs og Halldórs í Irak) gerðust einskonar frelsarar eða brautryðjendur í “nation-building” eða þjóðarreisn, steyptu af stóli harðstjórn, kollvörpuðu mönnum eins og Saddam Hussein og stilltu upp stjórn auðsveipra heimamanna, sem væri þeim velviljuð og boðaði einnig lýðræði að nafninu til meðal fólksins. Við vitum vel hvernig þetta hefur mistekist í Írak, Afghanistan, Libýu og nær alls staðar, þar sem nation-building aðferðinni hefur verið beitt. Það hefur orsakað algjöra upplausn þjóðfélagsins, margra alda gamlar hefðir eru fótum troðnar, þjóðfélagið leysist upp. Undir stjórn harðstjóranna og herforingjaráðsins ríkti áður viss stöðugleiki í þessum löndum. Auðvitað voru mannrétindi þá fótum troðin, en samfélagið virkaði og naglar eins og Hussein gættu þess, að klerkastéttinni væri haldið í skefjum. Nú er efnahagur flestra þessara landa í rústum og öfgahópar múslima hafa náð fótfestu, stjórnin er veikburða og hefur ekki fylgi almennings. Því miður virðist svo að íbúar mið-austur landa séu ekki tilbúnir að leggja út í lýðræðislegt þjóðfélagskerfi. Heimsspekin og hugarfarið sem lýðræði byggir á virðist láta strax í minni pokann, þegar klerkarnir kalla fólkið til bæna, fimm sinnum á dag. Múhammeð trompar allt. Sama sagan er nú að endurtaka sig í Sýrlandi. Bashar al-Assad hafði nokkurn veginn stjórn á landinu, en vegna afskipta vesturlanda og annara erlendra áhrifa er stjórn hans í molum. Enn og einu sinni skapast þá ríkur jarðvegur fyrir hryðjuverkahópa, þegar gamla stjórnarkerfið er hrunið.


Bloggfærslur 16. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband