Kjarnorkuvetur eftir stríð milli Indlands og Pakistan

pakistan_nuclear_missile.jpgKjarnorkustyrjöld milli stórveldanna væri svo hryllileg tilhugsun, að hún virðist óhugsandi. En styrjöld milli tveggja ríkja, sem hafa yfir einhverjum kjarnavopnum að ráða, er alls ekki svo fjarstætt dæmi. Ísrael og Íran? Jú, þeir hata hvorn annan, múslimar öðru megin og gyðingar hinu megin. Ísrael hefur átt kjarnorkusprengjur í meir en 20 ár. En Íran ekki ennþá. Indland og Pakistan? Hér er stóra vandamálið. Þar er hatrið ekki síðra, hindú trú öðrumegin og múslimar hinumegin og fullt af sprengjum þegar fyrir hendi á báða bóga. Á meðan Ameríkanar hafa reynt að koma í veg fyrir að Íran komi sér upp kjarnavopnum, þá hefur Pakistan haldið stöðugt áfram að bæta við vopnabúr sitt.  Nú er talið að Pakistan hafi á milli 100 og 120 kjarnorkusprengjur, en Indland, nágranninn fyrir sunnan, hefur um 90 til 110 kjarnavopn.   Sérfræðingar telja því að langlíklegasta kjarnorkustyrjöldin í framtíðinni sé á milli Pakistan og Indlands. Pakistan hefur fremur lélegan her, og hugsar sér því að vinna slaginn strax með stórum sprengjum, sem að sjálfsögðu leggja bæði löndin í algjöra auðn.  Michael J. Mills og félagar (2014) hafa nýlega birt merkilega grein í vísindaritinu Earth´s Future um áhrif slíkrar styrjaldar á loftslag á jörðu. Hér er loksins komið fram það vísindarit, sem margir hafa beið eftir, helgað því að beita vísindunum til að spá fyrir um framtíðina – hugsanlega, raunverulega eða ímyndaða framtíð. Í líkani þeirra byrja þeir með kjarnorkustyrjöld, þar sem hvor þjóð beitir 50 kjarnorkusprengjum og er hver sprengja jafn stór og sú sem grandaði borinni Hiroshima í Japan árið 1945, eða jafnt og 15 kílótonn af venjulegu sprengiefni. Eitt kílótonn er eitt þúsund tonn, og er ein Hiroshima kjarnsprengja því jafn kraftmikil og 15 þúsund tonn af venjulegu sprengiefni. Þetta er þá um eða undir helmingur af vopnabúrinu í hverri þjóð. Bruni borganna leiðir af sér sót ský, sem rís upp í heiðhvolf og reiknast magn sóts um 5 Tg eða 5 milljón tonn. Þegar stórborg brennur, þá er hitinn svo gífurlegur að jafnvel tjaran í malbiki gatnanna brennur líka. Sótið sem myndast dreifist jafnt um heiðhvolf umhverfis jörðu. Eins og sést á annari mynd, þá er magn af sóti í lofti mjög hátt fyrsta árið en varir allt að 13 ár um heim allan. Sót hefur þann hæfileika að það drekkur í sig og endurvarpar meira magni af sólargeislum en nokkuð annað efni. Það hleypir því mjög litlu af sólargeislum niður til jarðar. Þetta veldur því að heiðhvolf hitnar en jörðin kólnar að sama skapi. Eftir 13 ár hefur megnið af sóti fallið til jarðar og áhrifin dvína. Yfirborðshiti jarðar kólnar um 1,1 gráðu um heim allan fyrsta árið og heldur áfram að kólna í fimm ár, niður um 1,6 gráður. Þá byrjar jörðin aftur að hlýna. Úrkoma minnkar í meir en einn áratug um heim allan. Hafís breiðist hratt út fyrstu fimm árin á norðurslóðum, eins og önnur mynd sýnir (bláa línan), og enn meir og lengur á suðurskautinu (rauð lína) í um 20 ár. Heimshöfin kólna í allt að 20 ár niður á 300 metra dýpi.sót

Vegna þess að heiðhvolf hlýnar um allt að 30 stig, þá verður stórfelt tap af ósón frá lofthjúp jarðar. Af þeim sökum streyma útfjólubláir geislar sólarinnar óhindrað niður á jörðina árum saman og valda sjúkdómum, stökkbreytingum og krabbameini. Þannig mætti lengi telja, því Mills og félagar hafa gert líkan einnig af áhrifum á landbúnað og fleira. Hörmungarnar eru ótrúlegar, þótt aðeins sé um að ræða styrjöld með 100 kjarnavopn. Gleymum því ekki, að Rússar og Bandaríkjamenn eiga sennilega ennþá um 10 til 20 þúsund kjarnavopn í sínum vopnabúrum í dag. Samt sem áður trúi því að kjarnorkuver séu ein skynsamlegasta orkulind mannkyns í framtíðinni, en kjarnavopn geta líka bundið enda á okkar skammvinna skeið á jörðu.hafís


Sléttbakurinn verður elsta spendýr jarðar: um 200 ára

ke_jan.jpgElsta dýr jarðar var kúfskel, sem fannst við Grímsey, undan norður strönd Íslands árið 2007. Hún var 507 ára gömul, þegar hún var drepinn í þágu vísindanna. Ég hef bloggað um hana hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280069/     En elsta spendýr jarðar er einnig að finna í grennd við Ísland og það er sléttbakurinn., en hann getur orðið meir en 200 ára gamall og vigtað um 100 tonn.  Honum fækkar nú óðum vegna ofveiði. Í dag telja vísindamenn að í Norður-Atlantshafi séu aðeins um 700 dýr eftir af þessari hvalategund, en stofnarnir sem lifa í Norður-Kyrrahafi telja allt að 8000 dýr. Michael Keane og félagar birtu nú í vikunni merka grein um erfðamengi sléttbaksins í vísindaritinu Cell. Þar koma margar spurningar fram, meðal annars: hvernig getur hann náð svo háum aldri? Hverjir eru helstu ættingar hans? Hvernig hefur hann forðast sjúkdóma eins og krabbamein öll þessi ár? Annar helsti draumur manna er að lifa lengur (hinn er að sjálfsöðu að verða ríkur…) og þess vegna er mikill áhugi á að rannsaka sléttbakinn frekar. Myndin sýnir hvar sléttbakurinn og hvalirnir yfirleitt sitja í keðju tegundanna og hverjir eru næstu ættingjar hans. En hvalir þróuðust frá landdýrum fyrir um 50 milljón árum síðan.  Hann virðist vera skyldari nautgripum og hrossum en öðrum tegundum, hvað snertir erfðamengi. Það er merkilegt að stórir hvalir, sem hafa meir en þúsund sinnum fleiri frumur í líkamanum en menn, hafa miklu minni líkur á að sýkjast af til dæmis krabbameini. Stóru hvalirnir virðast hafa einhvern náttúrulegan eiginleika, sem heldur krabbameini í skefjum eða kemur í veg fyrir það. Nú geta sérfræðingarnir skoðað þetta nýbirta erfðamengi sléttbaksins til að reyna að finna þá þætti, sem veita hvalnum lengra og heilbrigðara líf.


Bloggfærslur 8. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband