Kjarnorkuvetur og útdauði tegundanna

vopnabúrÞað var á tímum kalda stríðsins, um 1980, að vísindamenn fóru að rannsaka hvaða hnattræn áhrif gætu orðið af kjarnorkustríði milli heimsveldanna, aðallega þá Sovíetríkjanna og Bandaríkjanna. Á þeim tíma voru kjarnorkuvopnabirgðir stórveldanna gífurlegar, en hvort þeirr átti þá tugir þúsunda kjarnavopna í búrum sínum, eins og fyrsta myndin sýnir. Megin uppistaðan í hugmyndinni um kjarnorkuvetur er sú, að í kjarnorkustyrjöld myndi kvikna mikið eldhaf í stórborgum heimsveldanna. Lítil dæmi um slíkt gerðust í lok seinni heimsstyrjladar, árið 1945, þegar Hiroshima og Nakasaki brunnu. Magnið af eldsneyti í stórborg er gífurlegt og slíkt eldhaf, sem varir dögum og vikum saman, framleiðir mikið magn af fínu sóti, sem lyftist upp í heiðhvolf, fyrir ofan 10 til 15 km hæð. Það safnast sótið fyrir en sót hefur þann eiginleika að það endurkastar sólargeislum burt frá jörðu betur en nokkuð annað þekkt efni. Slíkt sót getur varið í heiðhvolfi árum saman og á meðan kælir það jörðina um margar gráður. Loftslagsáhrifin eru því miklu verri en áhrif geislavirkra efna í kjarnorkustríði og þessi áhrif eru hnattræn: þau eru jafn slæm fyrir sigurvegarann og hina sigruðu. Þessi uppgötvun hafði mjög mikið áróðursgildi á dögum kalda stríðsins og hjálpaði til að samfæra almenning og jafnvel suma leiðtoga um að kjarnorkustríð væri fáviska ein.cold-dark-ehrlich-sagan-5183m7htmql_ss500.jpg

Nokkrar mikilvægar spurningar koma fram þegar rætt er um kjarnorkuvetur: 1) Hvað er magnið af vopnum, sem beitt er? 2) Hver verður kólnunin og hve lengi varir hún? Árið 1983 birtu þeir Richard Turco, Carl Sagan og félagar í Bandaríkjunum merka grein í tímaritinu Science, þar sem hugtakið “nuclear winter” eða kjarnorkuvetur kom fyrst fram.  Líkön þeirra Turco og félaga sýna eftirfarandi: Í styrjöld með 5000 MT af kjarnorkuvopnum og bruna eitt þúsund borga mun myndast svart ský af sóti í heiðhvolfi að magni um einn milljarður tonna. Þá mun ekki sjást til sólar og myrkur mun ríkja. Kólnun væri 15 til 42 °C yfir 14 til 35 daga eftir styrjöldina. Vísindamenn bæði í austri og vestri voru sannfærðir um hættuna, kynntu niðurstöður sínar fyrir almenningi og reyndu að hafa áhrif á stjórnir stórveldanna. Ekki virtist það gera mikið gagn, en þó er talið að Mikail Gorbachev hafi áttað sig á hættunni, sem getur stafað af slíkum kjarnorkuvetri. Árið 1984 kom út bók eftir Carl Sagan og félaga: “The Cold and the Dark”, sem fjallaði um hættuna á mannamáli. Myndin er af forsíðu hennar. Reyndar var Carl Sagan aðal hugmyndafræðingur bak við málið um kjarnorkuvetur. Richard Turco og hinir voru flestir stúdentar, sem höfði lært hjá honum. Árið 1990 gerður Turco og félagar enn meira þróuð líkön, með svipuðum niðurstöðum. En svo kom styrjöldin í Kúvait árið 1991 og setti mikið strik í reikninginn hjá vísindamönnum. Olíulindir í Kúvait brunnu stjórnlaust dögum og vikum saman og sót barst út um allt nágrennið sem svartur reykur. Vísindamenn spáðu mikilli kólnun, en sótið náði lítt eða ekki til heiðhvolfs og áhrifin urðu því lítil eða engin. Að vísu voru olíueldarnir ekki alveg sambærilegir við kjarnorkustríð, en þetta hafði samt neikvæð áhrif á þróun hugmyndarinnar.  Árið 2007 var önnur mikil rannsókn gerð á hugsanlegum áhrifum kjarnorkustyrjaldar, með raunsæjum vopnabirgðum. Þetta líkan sýndi að yfirborð jarðar myndi kólna að meðaltali um –7 °C til –8 °C og kólnun mundi vara í nokkur ár. Eftir tíu ár væri yfirborðshiti jarðar enn aðeins um–4 °C samkvæmt þessu líkani.   Áhrifin væru því lík og þegar ísöld gengi yfir jörðina.   Þannig standa málin í dag, en eftir að þiðna tók í kalda stríðinu hefur dregið úr spennu varðandi kjarnorkuvetur. Hann er samt alvarlegur raunveruleiki, jafnvel í kjarnorkustyrjöld tveggja ríkja eins og Indlands og Pakistan.   Ég held að í grundvallaratriðum séu fyrstu niðurstöðurnar nokkuð nærri lagi: kjarnorkustyrjöld stórveldanna getur orsakað kjarnorkuvetur, sem kann að vara árum saman og valda ótrúlegri truflun á lífríki. Nú í dag, þegar samskifti austurs og vesturs virðast aftur vera að versna, er ekki úr ráði að dusta rykið af gömlum kenningum og hugsa aftur um hið óhugsanlega: kjarnorkuvetur. Á síðastliðnu ári hafa Rússar framleitt marga nýja kjarnokuknúna kafbáta, sem eru vopnaðir langdrægum eldflaugum með kjarnorkusprengjur um borð. Ekki er útilokað að Bandarikjamenn fari nú aftur að hugsa til Keflavíkurflugvallar, sem lengi var aðal eftirlitsstöð þeirra varðandi ferðir rússneskra kafbáta inn í Atlantshafið úr norðri.  Enn líklegra er kjarnorkustríð milli Indlands og Pakistan. Ég mun fjalla um hugsanleg áhrif þess á loftslag í seinni pistli.


Bloggfærslur 6. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband