Steve Sparks fær verskulduð verðlaun

Steve SparksÞað eru engin Nóbelsverðlaun gefin í jarðvísindunum, en alveg sambærileg verðlaun eru Vetlesen verðlaunin. Þau eru veitt annað hvort ár við hátiðlega athöfn í Columbia Háskóla í New York og verðlaunaupphæðin er nokkuð rífleg, eða 25 milljón krónur. Nú í sumar verða verðlaunin veitt Steve Sparks. Hann er tvímælalaust jarðvísindamaðurinn, færði eldfjallafræðina inn í nútímann, en Steve er einnig það sem við viljum gjarnan kalla “Íslandsvinur”.   Það má með réttu segja að Steve sé fyrsti vísindamaðurinn, sem beitti aðferðum elisfræðinnar og stærðfræðinnar til að rannsaka eldfjöll og virkni þeirra. Reyndar hafði kennari hans, George Walker, hafið síkar rannsóknir og einnig samstarfsmaður hans Lionel Wilson. Steve byggði á síðan þeim grunni, sem þeir reistu og hóf eldfjallafræðina upp á veglegan stall meðal raunvísindanna. Við Steve hittust fyrst á þilfari hafrannsóknaskipsins Trident í austur hluta Miðjarðarhafsins í september árið 1975. Ég var þá að hefja rannsóknir á dreifingu eldfjallaösku í setlögum á botni Miðjarðarhafsins, sem leiddu til starfa minna á eldeynni Santorini í Eyjahafi. Steve var að ljúka doktorsgráðu sinni um þessar mundir, en það var strax augljóst að hér var topp maður í vísindunum á ferð, þrátt fyrir strákslegt útlit. Leiðangrinum lauk í Napólí á Ítalíu og þar sem sú höfn er steinsnar frá Pompeii, þá tókum við þá ákvörðun að fara saman í heimsókn í borgina frægu, sem grófst undir ösku og vikri frá gosinu mikla í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Það leiddi til þess að Steve kom í heimsókn til mín í Rhode Island og úr því spannst margra ára samvinna um rannsóknir á Íslandi, Vestur Indíum, Miðjarðarhafi og víðar. Þá kom strax í ljós, að Steve er ekki aðeins gættur þeim hæfileikum að hafa alla eðlisfræðina og stærðfræðina á fingrum sér, heldur er hann einstaklega samvinnuþýður og hefur lag á því að mynda sterka starfshópa. Ofan á allt saman, þá er Steve einn gjafmildasti maður, sem ég þekki í vísindunum: hans kappsmál er að niðurstöður rannsókna birtist sem fyrst og ekkert atriði fyrir hann hvar hans nafn er í röð höfundanna á greininni. Enda er hann þá og þegar með nokkrar aðrar greinar í smíðum. Afkastageta hans er ótrúleg og ekkert hefur dregið úr því. Ég veit ekki hvað rís hæst þegar litið er yfir vísindaferil Steve Sparks, enda of snemmt að dæma slíkt. Mig grunar að hann myndi velja uppgötvunina um blöndun kviku. Við rákumst fyrst á þetta fyrribæri þegar við vorum að kanna vikurlögin í Öskju frá gosinu mikla árið 1875. Þar voru algengir vikurmolar, sem voru greinilega blanda af ljósu líparíti og dökku basalti. Þessar tvær kvikur höfðu sem sagt blandast fyrir gos. Í grein í Nature árið 1977 sýndum við fram á hvernig slík blöndun getur hleypt elgosum af stað. Það er of langt að fjalla um hin mörgu verkefni sem við Steve höfum unnið saman, en ég er hreykinn af að hafa átt slíkan frábæran félaga við rannsóknir eldfjallanna.


Bloggfærslur 24. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband