Rætur hryðjuverkamanna

hry_juverk.jpgHvað segir félagsfræðin og mannfræðin um uppruna hryðjuverkanna? Ekki mikið, en þó er ýmislegt að koma fram. Til dæmis er bent á eitt athyglisvert í sambandi við samanburð á innflytjendum í París og Bandaríkjunum. Bandaríski mannfræðingurinn Scott Atran hefur kannað þetta mál. Í Bandaríkjunum er talið að innflytjendur nái þeirri menntun og efnahag, sem einkennir meðalmanninn í landinu eftir aðeins eina kynslóð. Í Frakklandi eru innflytjendur fimm til tuttugu sinnum líklegri að vera fátækari og minna menntaðir en miðstéttin, jafnvel eftir þrjár kynslóðir í landinu. Stéttaskiftingin er, þrátt fyrir allt, miklu lífseigari í Frakklandi en í Ameríku.   Uppruni fanga í fangelsum þessara landa segir einnig sína sögu. Í Frakklandi eru múslimar á bilinu 8 til 10% af allri þjóðinni, en þeir eru um 60 til 75% af öllum föngum landsins. Það er svipað hlutfall og hjá ungum svertingjum í Bandaríkjunum.  En í Frakklandi sitja margir í steininum vegna hugmyndafræði sinnar. Í Bandaríkjunum er það öðruvísi. Þar eru svertingjarnir fangar aðallega vegna smáglæpa, tengdum neyslu og verslun með eiturlyf. Skoðanakannarnir sýna að í Frakklandi hafa 27% af öllu ungu fólki (milli 18 og 24 ára) frekar jákvæða skoðun á ISIS. Meðal þeirra eru margir atvinnulausir utangarðsmenn, sem líta á ISIS sem samtök, þar sem þeir séu velkomnir og sjá jihad sem aðferð til að breyta heiminum sér í vil.   Þannig tókst þremur fyrrum föngum í París að ná heimsathygli í síðustu viku og breyta heiminum á sinn hátt, þótt það kostaði þá lífið. Mannfræðingarnir telja að milli 7 og 14% allra múslima í heiminum styðji árás Al Quaeda á Bandaríkin árið 2001. Ef svipað hlutfall styður ISIS nú, þá er það hvorki meira né minna en um 100 milljón manns. En hve margir þeirra væru tilbúnir að berjast og deyja fyrir slíkan málstað? Það veit enginn. Slíkt hugarfar myndast aðeins við sérstakar aðstæður, eins og til dæmis í litlum klíkum múslima í fangelsi, þar sem þeim finnst að allur hinn vestræni heimur vinni á móti sér. Mannfræðingarnir telja því að klíkurnar myndist ekki í moskunum heldur fyrst og fremst í fangelsum, eða þá á fótboltavellinum. Ekki í moskum, því að þar er þögn og menn talast ekki við. Ræturnar eru fátækt, misrétti, atvinnuleysi og félagsleg vandamál, sem hafa að mestu leyti skapast vegna auðvaldsskipulagsins sem stýrir heiminum í dag.


Bloggfærslur 19. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband