Þegar síðasta skipið sigldi frá Grænlandi

hvalsey2_copy.jpgAfdrif íslensku nýlendunnar á Grænlandi á miðöldum er og verður áfram stærsta ráðgátan í sögu norðurslóða.   Því miður eru heimildir af mjög skornum skammti. Það síðasta sem við vitum með vissu var íslenskt brúðkaup í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi hinn 16. september árið 1408 (sjá mynd). Brúðurin var Sigríður Björnsdóttir, en brúðguminn Þorsteinn Ólafsson. Árið 1406 var Þorsteinn á ferð frá Noregi til Íslands ásamt nokkrum merkum Íslendingum og bar skip þeirra af leið þar til það braut við Grænland. Íslendingarnir voru nú tepptir á Grænlandi um fjögurra ára skeið. Hjónin sigla loks frá Grænlandi á Norsku kaupfari til Noregs árið 1410, og komast að lokum til Íslands árið 1413. Þorsteinn varð síðar lögmaður og hirðstjóri. Þrjú vottorð um brúðkaup þeirra á Grænlandi hafa varðveist og eru þau síðustu skjölin frá norrænum mönnum á Grænlandi. Þar á eftir slær á algjörri þögn eftir búsetu um fimm til sjö þúsund norrænna manna á Grænlandi í meir en fjögur hundruð ár. Einhverjir hafa tórað eftir búðkaupið því aldursgreiningar á minjum í fornleifauppgreftri benda til starfsemi norrænna manna hér allt til um 1450.  Ef til vill týndi sá síðasti lífinu rétt fyrir um 1540, ef marka má frásögn Jóns Grænlendings.   Hann var íslenskur sjómaður, sem sigldi út á Atlantshaf með kaupmönnum frá Hamborg í Þýskalandi. Þá hrakti af leið og komu loks til Grænlands um 1540. Þeir fóru á land á eyðiey, þar sem fyrir voru kofar og fiskihjallar, eins og á Íslandi. Þar finna þeir látinn mann sem liggur á grúfu. Á höfði hafði hann hettu, vel saumaða, og klæði úr vaðmáli og selskinnum. Hjá honum lá tálguhnífur úr járni, mjög slitinn. Var þessi einsetumaður ef til vill síðasti víkingurinn?

Næstu ferðir til Grænlands, sem heimildir eru til um, er leiðangur Martins Frobisher, en hann kemur að suðvestur Grænlandi í júní árið 1578. Hér lendir hann og finnur kassa með járnnöglum í, sem kunna að hafa verið leifar frá norrænum Grænlendingum. Nokkrum árum síðar, árið 1586, siglir John Davis upp með vesturströnd Grænlands, og kemur víða við en sér engin ummerki eftir norræna menn. Hins vegar kvartar hann yfir því að Eskimóar eru sífellt að stela frá þeim ýmsum járnmunum. Kristján IV konungur Dana fer nú að hafa áhyggjur af þessum áhuga Breta á Grænlandi og geriri út leiðangra árin 1605 og 1606, meðal annars til að leita uppi Eystribyggð, sem þá var haldið að væri á austur strönd Grænlands. Þar fundu þeir enga norræna menn. Trúboðinn Hans Egede var líka á þeirri skoðun að Eystribyggð væri á austur ströndinni og tilgangur Grænlandsferðar hans árið 1721 var fyrst og fremst að bera boðskap krists til norrænna manna þar og afkomenda þeirra. Þegar enginn af hinum fornu hetjum var heima, þá snéri hann sér að því að kristna Inúítana. Sumir hafa ályktað að norræna fólkið hafi haft mikil samskifti á miðöldum við sæfara frá Bretlandi, sem stunduðu fiskveiðar á vestanverðu Atlantshafi og einnig hvalveiðar á þessum slóðum. Mér er ekki kunnugt um neinar heimildir sem styrkja þá kenningu.


Bloggfærslur 1. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband