Rosetta er komin til halastjörnunnar Comet 67P

Comet 67PEftir tíu ára ferðalag úti í geimnum, þá er geimfarið Rosetta loks komið til halastörnunnar Comet 67P.  Nú er geimfarið í aðeins um 130 km fjarlægð frá halastjörnunni og sendir ótrúlegar myndir heim til baka, til Geimferðastofnunar Evrópu.  Hér með fylgir ein slík mynd.  Þetta er stórmerkilegt augnablik í geimrannsóknum Evrópu.  Halastjarnan er um 4 km í þvermál og ótrúlega óregluleg í laginu.  Reyndar er hún eins og tvær kartöflur, sem hafa vaxið saman.  Maður bíður bara eftir því að þær detti í sundur og hver fari sína leið.  Halastjarnan er á hraða um  135 þúsund km á klst. En samt sem áður mun Rosetta senda 100 kg rannsóknatæki niður á yfirborðið til að kanna halastjörnuna nánar.  Menn halda að margar halastjörnur séu eins og drullugir snjóboltar, sem eru samansettir af blöndu af ís og grjóti.  Nú mun hið sanna koma í ljós.  Fylgjumst með!


Særými vex á Íshafinu og öldur birtast

SærýmiÞað er nýtt haf að opnast.  Hnattræn hlýnun er að svifta hafíshulunni af Íshafinu.  Ein afleiðing þess er að nú myndast öldur á Íshafinu, þar sem áður var samfelld breiða af hafís.  Ölduhæð er háð vindstyrk og einnig særými, eða fjarlægðinni, sem vindurinn getur blásið yfir hafið.  Nú vex særými með ári hverju á norðurslóðum, vegna þess að hafísinn er að hverfa. Hafsvæði, sem áður voru hulin hafís mikinn hluta ársins, eru nú opið haf og vindurinn nær að koma af stað miklum öldugangi.  Allt í einu er særými orðið eitt til tvö þúsund km og öldur rótast upp, sjólag versnar þar sem áður var kyrr sjór.  Myndin sýnir til dæmis áhrif storms, sem gekk yfir norðurslóðir árið 2012. Rauðu og gulu svæðin sýna háar öldur, allt að 5 metrar.  Hinar nýju siglingaleiðir í norðri, þar á meðal norðan Íslands,  geta verið erfiðar af þeim sökum, einkum á ágúst og september, þegar hafísinn er minnstur og særými er mest.


Bloggfærslur 6. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband