Hlýnun heldur áfram

Þegar ég er að kenna, þá reyni ég að forðast að endurtaka efni, jafnvel þótt það sé mjög mikilvægt. Mér finnst það sýna lítilsvirðingu gagnvart nemendum, ef maður er að endurtaka.  En auðvitað er það oft gert. Ég minnist til dæmis á Ríkisútvarpið. Þeir kalla endurtekið efni “Útvarpsperlur” og þeim fer nú mjög fjölgandi.  Hér fyrir neðan fylgja nokkrar “perlur” varðandi hlýnun.  Nú þarf ég því miður að endurtaka atriði sem ég hef fjallað um varðandi hnattræna hlýnun, reyndar nokkrum sinnum áður. Mér virðist að lesendur hafi alls ekki tekið eftir þessu.  Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða “cherry picking” aðferð, en lítur ekki á heildina.   Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna.  Reyndar eru heimshöfin miklu mikilvægari mælikvarði á hitafar en lofthjúpurinn.  Skoðið til dæmis efni, sem ég setti inn á bloggið hinn 1. júlí 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1404256/

Þar kemur fram, að meðalhiti, bæði haf og lofthjúpur, hefur verið stígandi ár hvert.   Takið einnig til dæmis færslu mína frá 25. júni 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1402441/  Þar kemur fram að hafið hefur verið að hitna stöðugt, og hlýnun hafsins nær niður á meir en 400 m dýpi.  Takið færslu, sem ég gerði 23. janúar 2013 einnig um hlýnun hafsins: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/ 

En ef til vill er samt athyglisverðast að skoða færslu mína frá 29. nóvember 2012  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1270732/

Þar bendi ég á þá einföldu staðreynd, að aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC).  Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti.  Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti.  Þessar einföldu staðreyndir kenna okkur, að hlýnun hafsins er mörgum sinnum mikilvægari hvað varðar hnattræna hlýnun en hitafar lofthjúpsins.  Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram.


Bloggfærslur 1. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband