Þegar Færeyjar voru við Grænland

FæreyjarNorður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma.  Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar.  Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma.  Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund.  Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins.  Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum.  Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis.  Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.  Grænland-FæreyjarÞar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands.  Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands.  Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.


Bloggfærslur 9. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband