Gegnumlýsing eldfjalla

MtSt HelensÞað hefur reynst erfitt að átta sig á virkum eldfjöllum, meðal annars vegna þess, að við höfum takmarkaðar upplýsingar um innri gerð þeirra.  Nú er að gerast framför á þessu sviði, vegna þess að jarðskjálftafræðingar eru farnir að gegnumlýsa eldfjöllin með jarðskjálfatbylgjum. Gott dæmi um það eru rannsóknir á Mount St Helens eldfjalli í Bandaríkjunum. Þar varð frægt sprengigos hinn 18. maí árið 1980 og síðan hafa ýmsar rannsóknir farið fram á því fjalli.  Gregory Waite og félagar settu upp fyrir nokkru nítján jarðskjálftamæla umhvefis og ofaná eldfjallið.  Þeir könnuðu mikinn fjölda af jarðskjálftabylgjum, sem fóru í gegnum fjallið og jarðskorpuna undir.  Með því móti gátu þeir greint svæði, þar sem bylgjurnar fara hægar í gegnum jarðlögin. Þau svæði eru talin vera kvikuhólf eða svæði þar sem kvika er ríkjandi en ekki fast berg.  Beint undir eldfjallinu er svæði í jarðskorpunni, á 2 til 3,5 km dýpi, þar sem jarðskjálftabylgjur fara treglega í gegnum eða hægja á sér. Þetta virðist vera kvikuþró eldfjallsins.  Þar undir er annað svæði á um 5,5 til 8 km dýpi,  sem einnig getur verið kvikuþró.  Myndin sýnir þversnið af eldfjallinu og greinir svæðin, sem eru sennilega kvikuhólf.  Á bleiku svæðunum fara skjálftabylgjur hægar, en á grænu og bláu svæðunum fara bylgjurnar með meiri hraða.  En þessi könnun nær aðeins niður á um 10 km dýpi í jarðskorpunni.   Nú er annar hópur vísindamanna að undirbúa gegnumlýsingu á Mount St Helens, sem mun ná niður á um 80 km dýpi og rannsaka dýpri pípulagnirnar fyrir kvikuna.  Þeir munu nota bæði bylgjur, sem koma frá fjarlægum jarðskjálftum og bylgjur frá dynamít sprengingum á yfirborði til að gegnumlýsa St Helens með 3500 jarðskjálftamælum.  Viðbíðum spennt eftir niðurstöðunum. 


Bloggfærslur 25. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband