Loftslagsspá og Norðurheimskaut

HafísVísindin eru til lítils gagns, ef við getum ekki beitt þeim til að gera spár um framtíðina.  Þannig höfum við til dæmis veðurspá, hagspá og síðast en ekki síst loftslagsspá.  Loftslag á Norðurheimskautinu hlýnar nú hraðar en á nokkru öðru svæði á jörðu.  Hvað með framhaldið?  Mest áberandi af breytingum á þessu svæði er bráðnun hafíss, en hann hefur dregist saman sem nemur 75% síðan á áttugasta áratug síðustu aldar.   Fyrsta myndin sýnir flatarmál hafíss á norðurhveli (svarta þykka línan).  Lituðu línurnar sýna ýmis líkön af þróun hafíss á norðurhveli allt til ársins 2100.  Þetta er einn þáttur af spá, sem James Overland og félagar hafa nýlega birt um framtíðarhorfur loftslags á norðurslóðum.  Þetta er byggt á flóknu reiknilíkani, þar sem vaxandi CO2 er mikilvægur þáttur, en einnig breytingar sem verða á endurskini eða albedo jarðar þegar hafísinn fer af og dökkt hafið drekkur í sig sólarhitann.  Takið eftir að það er mikil breidd í hafísspánum  sem sýndar eru af lituðu línunum, en mér þykir merkilegast að raunveruleikinn (svarta línan) er fyrir neðan þær allar. Sem sagt: spárnar fyrir hafísinn eru sennilega of bjartsýnar.  Hafís á norðurhveli verður sennilega horfinn að fullu í kringum 2050. HitafarÞeir reikna út tvennskonar loftslagslíkön, sem sýnd eru í annari myndinni.  Annars vegar er bjartsýnislíkan þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði verulega úr CO2 útblæstri á jörðu í náinni framtíð (bláa línan), en hins vegar er svartsýnislíkan, sem byggist á business-as-usual, þ.e.a.s. að við jarðarbúar höldum áfram uppteknum hætti og mengum CO2 út í andrúmsloftið á sama hátt og nú ríkir (rauða línan).  Spáin er fyrir Norðurheimskautssvæðið (60oN–90oN) og nær því einnig yfir Ísland.  Kúrfurnar eru frávik frá langtíma meðaltalinu fyrir árin 1981 til 2005, en líkanið nær til ársins 2100 en ég sýni aðeins tvo mánuði hér: janúar og maí.  Takið eftir að línuritið sýnir ekki absolút hitastig, heldur hlutfallslega hækkun, miðað við 1981-2005 meðaltalið fyrir viðkomandi mánuð.  Það er augljóst að líkönin sýna stórfelda hlýnun á norðurhveli, jafnvel fyrir bjartsýnasta líkanið.  Hlýnun er hlutfallslega miklu meiri að vetri til en sumri.  Nú er bara að fylgjast með, og einnig sjá hvernig líkön verða bætt og endurbætt í náinni framtíð. 


Bloggfærslur 17. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband