Koldíoxíð frá Bárðarbungu

Uppleysanleiki CO2 í kvikuNýlega var sagt frá því að tveir verðir laganna hefðu átt í erfiðleikum með að anda í grennd við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Ég tel líklegast að það hafi verið koldíoxíð gas sem olli því, en ekki brennisteinstvíoxíð. Koldíoxíð er algeng gastegund í eldgosum. Hún er ekki eitrandi, en ef koldíoxíð eða CO2 er fyrir hendi í miklum mæli, þá dregur úr súrefni í loftinu og af því orsakast vandi við öndun og jafnvel köfnun. Þannig fórst einn maður í kjallara sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í gosinu árið 1973.

Þetta verkur spurningar um magnið af koldíoxíði, sem berst upp í gosinu í Holuhrauni. Mér er ekki kunnugt um neinar beinar mælingar á því, en við getum samt farið nærri um útlosun á þessu gasi í gosinu til þessa.   Til samanburðar var magnið af CO2 í basalt kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi árið 2010 um 0,15%. Magn af koldíoxíði er nokkuð þekkt í basalt kviku almennt, en uppleysanleiki þess er háður þrýstingi eða dýpi. Fyrsta myndin sýnir uppleysanleika á CO2 í kvikum af ýmsum gerðum við mismunandi þrýsting. Lóðréti ásinn sýnir CO2 í ppm (partur úr milljón), en sá lárétti sýnir þrýsting í kílóbörum. Eitt kílóbar er þrýstingurinn á um 3 km dýpi niðri í jarðskorpunni. Það er viðeigandi að álíta að kvikan undir Bárðarbungu, sem nú kemur upp í Holuhrauni hafi verið á um 8 til 10 km dýpi, samkvæmt dýpi jarðskjálfta. Þá er magn af CO2 í kvikunni um 1500 ppm eða 0,15% af kvikunni. Það er á bilinu milli kvikutegundanna basanít og þóleíit, eins og rauði hringurinn sýnir.

Nú er talið að um einn rúmkílómeter af basalt kviku hafi komið upp í Holuhrauni. Það mun vera um 2,8 gígatonn af kviku (gígatonn er einn milljarður tonna). Ef kvikan inniheldur 0,15% CO2, þá er útlosun af koldíoxíði í gosinu því orðin um 4 milljón tonn (0,004 gígatonn). Hvað er þetta mikið, miðað við útblástur allra eldfjalla á jörðu af CO2 á einu ári? Nú er áætlað að heildarútblástur allra eldfjalla á jörðu sé um 300 milljón tonn á ári (0,3 gígatonn). Gosið í Holuhrauni er því búið að losa meir en eitt prósent af árlegum skammti eldfjallanna.

KoldíoxíðEr þetta mikið magn, í samhengi við útblástur mannkyns af koltvíoxíði vegna bruna á olíu, kolum og jarðgasi? Mannkynið losar um 35 gígatonn af CO2 á hverju ári. Eldfjöllin losa aðeins um eitt prósent af þessu magni á ári hverju, til samanburðar. Þetta er vel þekkt staðreynd, en samt sem áður koma stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar oft fram með alvitlausar staðhæfingar um, að eldgos dæli út miklu meira magni af koldíoxíði en mannkynið. Hvar fær slæikt fólk þessar upplýsingar? Eða eru þær ef til vill einungis heimatilbúnar, til að henta stjórnmálamönnum í hvert sinn?

Seinni myndin sýnir hvernig CO2 hefur vaxið stöðugt (rauða línan) í lofthjúp jarðar, frá 1960 til dagsins í dag. Blái ferillinn sýnir stærstu eldgosin á þessu tímabili, en sýndar eru breytingar á brennisteinstvíoxíði í lofthjúpnum. Er það ekki alveg augljóst, að eldgosin hafa ekki haft nein áhrif á CO2 í lofthjúpnum?

 


Bloggfærslur 7. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband