Framrás atburða í Bárðarbungu og Holuhrauni

fjöldi skjálftaFjöldi skjálfta er einn mælikvarði á virkni Bárðarbungu.  Fyrsta myndin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta undir eldstöðinni frá upphafi óróans hinn 16. ágúst 2014.   Betri mæling væri að skoða uppsafnað skjálftavægi, því skjálftarnir eru að sjálfsögðu misstórir,  en ég hef ekki aðgang að þeim gögnum.  Í þessu tilfelli skiftir það ekki svo miklu máli, því stóru skjálftarnir (um 5 til 5,5) hafa alltaf verið fyrir hendi.   Það er greinilegt að eftir umbrotin miklu í lok ágúst og byrjun september, þá hægði mikið á,  og skjálftavirkni var nokkuð stöðug  þar til hægði á henni enn meir í kringum 13. október.   

Flatarmál hraunsAnnað línurit sem ég læt fylgja hér með, er þróun á flatarmáli hraunsins í Holuhrauni. Gögnin eru frá Fjarkönnun ehf.,  TerraSAR gervihnetti og vef Veðurstofunnar.  Eins og myndin sýnir, þá óx flatarmál hraunsins nokkurn veginn línulega í september, en í október hefur kúrvan greinilega beygt af og vex nú flatarmálið hægar en áður. Það geta verið tvær orsakir á því: (1) að meira magn af kviku fari í að gera hraunið þykkara, eða (2) að framleiðsla á kviku upp á yfirborð sé að minnka.  Aðeins upplýsingar um þykkt hraunsins geta skorið úr um það, en ég hyllist að því að það hafi smátt og smátt dregið úr hraunrennsli.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari þróun, því hægt er að nota þessa kúrvu til að spá fyrir um hvenær hraun hættir að renna.  Það gerist þegar kúrvan er orðin lárétt.   Verður það samtíma því, að sig íshettunnar yfir Bárðarbungu hættir?  Enginn veit, en við fylgjumst spennt með.

 


Ebóla hefur sett London Mining á hausinn

Isua

Eitt stærsta námuverkefni á Grænlandi er fyrirhuguð járnnáma London Mining í Isua á vestur Grænlandi. Hér er heilt járnfjall, sem inniheldur um einn milljarð tonna af járni.   Járngrýtið átti að flytja í 105 km langri pípu til hafnar, um borð í 250 þúsund tonna skip.  Síðan fer járngrýtið til Kína í vinnslu.  Myndin til hliðar er af Isua svæðinu, tekin úr gervihnetti. Allt bergið er rautt af ryðguðu járni. Til hægri sést jökulröndin.  Í fyrra veitti Grænlandsstjórn London Mining 30 ára leyfi til vinnslu á svæðinu.  London Mining hefur rekið stóra járnnámu í Sierra Leone í vestur Afríku. Henni hefur nú verið lokað vegna Ebólu plágunar, sem þar geisar. Auk þess hefur verð á járni hrapað undanfarið á mörkuðum, um 40%. Afleiðingin er sú, að verðbréf London Mining hafa fallið frá 95 pence niður í 4,5 pence á einu ári.  Félagið er því gjaldþrota og allar framkvæmdir á Grænlandi eru stöðvaðar.  Óvíst er því um framtíð járnvinnslu á Greænlandi, eins og allan námugröft þar, yfir leitt.

 


Bloggfærslur 18. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband