Færsluflokkur: Rabaul

Þegar borgin Rabaul fór í eyði

Rabaul fyrir 1994 Öðru hvoru hafa eldgos afgerandi áhrif fyrir byggð.  Árið 79 e.Kr. grófust borgirnar Pompei og Herkúlaneum undir vikri og ösku frá Vesúvíusi á Ítalíu. Á Bronzöld hvarf borgin Akrotiri á eynni Santorini undir marga metra af ösku.  Síðasta gosið sem eyddi borg, eða meiri hluta borgarinnar, var árið 1994 í Papua Nýju Gíneu, þegar tveir gígar gusu samtímis í Rabaul öskjunni.  Borgin var stofnuð af Þjóðverjum árið 1884, þegar þeir tóku land í Nýju Gíneu fyrir nýlendu þá sem þeir nefndu Kaiser-Wilhelmsland. Þjóðverjar voru mjög seinir að ná sér í nýlendur, og þá var allt besta landið komið í hendur annara ríkja, einkum Breta, Frakka og Portúgala.  Þeir urðu því á láta sér nægja mjög fjarlæg og erfið landssvæði eins og Nýju Gíneu. Þeir hófu námurekstur og ráku stórar plantekrur í hinni nýju nýlendu.  En Þjóðverjum var strax ljóst að besta höfnin í nýlendunni var einmitt í Rabaul öskjunni, og reistu því höfuðstöðvar sínar hér.  Hér byggðu þeir vel skipulagða og vandaða borg, sem tók sig vel út í flóanum innan í öskjunni. Borgin var prýdd glæsilegum breiðgötum, þar sem hávaxin tré veittu vegfarendum kærkominn skugga frá hitabeltissólinni.  Þannig varð Rabaul höfuðborg yfir stóru landsvæði, sem er meir en fjórum sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og með um sjö milljón íbúa í dag.  Þjóðverjar áttuðu sig fljótt á því að Rabaul er mikil eldstöð, en tvö mikil gos höfðu orðið samtímis í Vulcan og Tavurvur gígunum á öskjubrúninni nokkrum árum áður en Þjóðverjar komu í land, eða árið 1878.  Í því gosi reis upp ný eldeyja á öskjubrúninni, sem Þjóðverjar nefndu Vulcan. Rabaul eftir 1994

            Strax í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar réðust Ástralir inn í Kaiser-Wilhelmsland, og í stríðslok ráku þeir Þjóðverjana á brott, eftir mikið mannfall.  Þá tók við landsstjórn Ástrala fram að síðari heimsstyrjöldinni.  Í fyrstu gekk allt vel, en svo skullu hörmungarnar yfir á nýjan leik. Árið 1937 hófust tvö eldgos samtímis, bæði í Tavurvur og í Vulcan gígnum. Gosin árið 1937 voru mjög skaðleg, og 507 manns fórust í þorpum umhvefis Vulcan gíginn.  Öskufall var gífurlegt í borginni, en hreinsun öskunnar var langt kominn þegar næstu ósköpin dundu yfir.  Þegar  Japanir hófu þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni, þá var þeim ljóst að þeir þyrftu að ná yfirráðum í Rabaul, bestu höfninni í suður hluta Kyrrahafsins. Þeir gerðu því innrás árið 1941 og tóku Nýju Gíneu af Áströlum.  Bandamenn voru mjög gramir yfir þessum óförum, og nú hófust stanzlausar loftárásir Bandarískra herflugvéla, sem vörpuðu miklu ógrynni af sprengjum á borgina.  Brátt var Rabaul orðin  eins og eyðimörk eftir sprengjuárasirnar, en Japanir grófu á meðan mikinn fjölda af jarðgöngum inn í fjöllin umhverfis, og komu sér fyrir neðan jarðar til að forðast sprengjurnar úr lofti.  Enn í dag má jafnvel sjá kafbátabyrgi, sem eru inni í löngum göngum frá sjó.  Eyðileggingin af völdum loftárása var algjör þegar stríðinu lauk árið 1945.  Ástralir tóku við stjórn enn á ný, þar til nýja lýðveldið Papua Nýja Gínea var stofnað árið 1975.  Rabaul reis af grunni aftur, og blómstraði fljótt í borg með meir en tuttugu þúsund íbúa.  Fyrsta myndin hér fyrir ofan er tekin úr lofti og sýnir hvernig borin teygði sig umhvergis norður og austur hluta öskjunnar.   Höfnin var ómissandi, einkum fyrir útflutning á kókoshnetuolíu og öðrum verðmætum frá plantekrum landsins.  Öskufall

            Í september árið 1994 byrja báðir gígarnir, Vulcan og Tavurvur, aftur að gjósa samtímis.  Ríkjandi vindátt bar öskuna beint yfir borgina. Innan skamms var komið eins meters þykkt öskulag yfir allan austur og suður hluta borgarinnar, þök féllu undan þunganum og hús hrundu.  Neðri myndin sýnir eyðileggingu af völdum öskufallsins. Nær allar byggingar voru yfirgefnar og íbúarnir streymdu á brott.  Alls lögðu 50 þúsund manns á flótta frá hættusvæðinu.  Þeir settust að í nýrri borg fyrir sunnan öskjuna: Kokopo.  Eina byggingin sem enn stóð er Rabaul Hotel, en eigandinn Susie McGrade neitar að gefast upp og heldur rekstri hótelsins áfram í gangi, úti í miðri auðninni.  Framtíðin er ekki sérlega björt fyrir Rabaul, en höfnin góða er enn mjög mikilvæg og reyndar ómissandi fyrir þennan hluta Nýju Gíneu. 

 

 


Eldstöðin Rabaul

Radarmynd af RabaulEitt af virkustu eldfjöllum jarðar er Rabaul í Papua Nýju Gíneu. Ég hef nýlega fengið tækifæri til að kanna Rabaul eldstöðina, og er satt að segja enn undrandi á hvað hér er mikið umn að vera, neðan jarðar og ofan.  Rabaul er askja, sem er um 14 sinnum 9 km á stærð, og á öskjubrúninni eru margir virkir gígar.  Það er alveg einstakt varðand Rabaul, að hér hafa tveir gígar verið virkir samtímis, sitt hvoru megin á öskjubrúninni. Þetta gerðist fyrst árið 1878, þegar gígarnir Vulcan og Tavurvur gusu saman, og svo aftur árið 1937 og nú síðast árið 1994.  Rabaul askjan er flói sem er að mestu neðansjávar, og af þeim sökum völdu Þjóðverjar flóann sem bestu höfn nýlendu sinnar í Nýju Gíneu á nítjándu öld.  Efri myndin er radarmynd af Rabaul öskjunni, tekin af NASA.  Vinstra megin eða vestan við flóann er gígurinn Vulcan, en beint á móti, hægra megin, er gígurinn Tavurvur, og eru um 6 km milli gíganna.  Það er augljóst að gígarnir tveir eru nátengdir, og að þeir gjósa saman úr sömu kvikuþrónni undir öskjunni.  Jarðeðlisfræingar hafa sýnt fra á, að risastór kvikuþró liggur á 3 til 5 km dýpi undir allri öskjunni, og mun kvikan koma þaðan í síðustu gosum.  En svo kemur í ljós önnur kvikuþró á um 8 km dýpi, og sú þriðja hefur fundist rétt fyrir norðaustan öskjuna.  Það er ekki furða að Rabaul er með allra virkustu elstöðum jarðar.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband