Færsluflokkur: Eldfjallalist

Gosgrín

MartinRowson

Bretar tóku gosinu í Eyjafjallajökli ekki vel.  Það vakti ótta á Bretlandseyjum og lokun allra flugvalla.  Nú er annað hljóð komið í strokkinn.  Það er ótrúlegt hvað menn eru fljótir að venjast breyttum aðstæðum.  Ef gos hefst í Bárðarbungu segjast bretar ekki munu láta það hafa áhrif á flugsamgöngur.  Þeir eru jafnvel farnir að grínast með gos, fyrir gos.  Hér með fylgir skopmynd, sem Martin Rowson hefur teiknað fyrir dagblaðið Guardian.  Norræni goðinn  kallar eftir fórnarlambi til að seðja eldfjallsguðinn.  Óvinsælir stjórnmálamenn frá ýmsum heimshornum (aðallega frá miðausturlöndum) bíða í einu horninu og vonast til að sleppa.  


Gongshi - Steinar fræðimannsins

GongshiUm 200 f. Kr. tóku kínverjar að nota sérkennilega steina til að skreyta garða sína.  Fyrir suma táknuðu steinarnir fjöllin, og voru þannig mikilvægur þáttur í hugleiðingum.  Stundum voru smærri en sérstakir steinar færðir inn í stofu og stillt upp sem listaverki, eða þá  til að færa fjallið inn í húsið.     Nafnið Gongshi má þýða sem steinn andans, en það vísar að sjálfsögðu  til hugleiðingar.  Japanir tóku upp þennan sið frá kínverjum, en í Japan er steinninn nefndur Suiseki.  Á ensku er Gongshi kallaður scholar´s rock, eða steinn fræðimannsins eða þá spirit stone.   Upphaflega voru Gongshi steinar valdir valdir úti í náttúrunni vegna sérkennilegs forms steinsins. Oftast voru þeir kalksteinar eða marmari, sem hafði fengið á sig fantatískt form vegna veðrunar og rofs yfir langan tíma.  Kínverjar líta á slíka steina sem gersemar og setja þá á stall í heimili sínu.  GongshiÞað skiftir öllu máli að steinninn hafi skapast úti í náttúrunni og að honum hafi ekki verið breytt af mannshöndinni á neinn hátt.  Á síðari árum hefur risið upp heill iðnaður í Kína við að falsa slíka steina með slípun og öðrum aðferðum, til að líkja eftir hinum fornu náttúrusteinum, og nú eru eftirlíkingarnar allstaðar boðnar fram til sölu.  Það fer ekki framhjá neinum íslending, að Gongshi steinar eru nauðalíkir íslenskum hraunsteinum eða gjalli. 


Listamaðurinn fundinn!

Heklugos 1970Fyrir um tíu árum rakst ég á þetta sérkennilega málverk í Kolaportinu í Reykjavik.   Það er ekki aðeins mynd af eldgosi, heldur hefur listamaðurinn notað vikur, ösku og gjall í byggingu myndarinnar. Verkið er ekki merkt og hefur því hangið uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi án þess að listamannsins sé getið. Nú hefur komið í ljós, að það er gert af Lýð S. Guðmundssyni árið 1970.   Lýður sá Heklugosið árið 1970 og safnaði vikri og ösku þá til að setja inn í þessa einstöku mynd. 


Ný mynd Eldfjallasafns er eftir Eyjólf J. Eyfells

EyfellsNýasta mynd Eldfjallasafns er af Heklugosinu árið 1947.  Þetta er olíumálverk eftir Eyjólf J. Eyfells (1886-1979).  Hann var fæddur Eyjólfur Jónsson, en tók svo miklu ástfóstri við heimalönd sín undir Eyjafjöllum, að hann kaus sér eftirnafnið Eyfells.  Eyjólfur var mikið náttúrubarn og sjálflærður í list sinni, natúralisti, sem sótti fyrirmyndir algjörlega í íslenska náttúru. Það var oft sagt að Eyfells hefði ætið “verið heppinn með veður” í list sinni.  Eyjólfur málaði mikinn fjölda mynda, enda málaði lengur en nokkur annar íslenskur málari, í um 70 ár, frá 1908 til 1978.  

Myndin sýnir Heklugosið árið 1947. Þá gerðist það að eldfjallið klofnaði frá suðvestri til norðausturs, og Heklugjá opnnaðist um 3 km langan veg.  Þetta er algeng hegðun eldfjallsins, eins og önnur mynd sýnir, en þar er Heklugjá sýnd sem svart strik og hraun yngri en 1970 sýnd með ýmsum litum. HeklaEyfells málar ekki upphaf gossins, heldur þegar það var komið vel á veg. Hér eru þrír gígar sýndir virkir í sprungunni miklu, sem liggur eftir elfjallinu endilöngu og miklir ljósir bólstrar af eldfjallagasi, ösku og gufu rísa til himins.


Sánkti Helena gosið árið 1980: Nýtt listaverk í Eldfjallasafni

Roger WerthEinn dag í sumar komu kurteis og vingjarnleg amerísk hjón inn í Eldfjallasafn í Stykkishólmi.  Hann kvaðst vilja færa mér eldgosamynd að gjöf og dró upp úr tösku sinni þetta fágæta og einstæða verk.  Hann er Roger A. Werth, ljósmyndari og blaðamaður í Washington fylki í Bandaríkjunum.  Hinn 18. maí árið 1980 tók hann frægustu eldgosaljósmynd allra tíma, á fyrstu mínútum sprengisossins í Sánkti Helenu eldfjalli.  Næsta dag var myndin á forsíðum allra dagblaða Bandaríkjanna og skömmu síðar á forsíðum Time, Newsweek, Life, National Geographic og fjölda tímarita um heim allan.   Myndin hlaut Pulitzer Prize verðlaunin sem besta blaðaljósmynd ársins. Roger sagði mér alla söguna þennan dag í Eldfjallsafni.  Gosið hófst klukkan 8:32 ð morgni.  Hann starfaði í bænum Longview, skammt frá Sánkti Helenu og stökk strax upp í flugvél til að mynda gosið.  Hann valdi að fljúga sunnan við fjallið, þar sem gjóskustrókurinn sást mun betur.  Að norðan verðu var gjóskuflóð í gangi, sem gerði alla flugumferð hættulega. Þarna horfir hann beint inn í miðjan mökkinn, en hæð hans náði 18 km fyrir ofan eldfjallið þegar gosið náði hámarki. Gosið í Sánkti Helenu er eitt af frægustu gosum seinni tíma.  Frægðin stafar first og fremst af því að þetta er fyrsta gosið innan Bandaríkjanna á meginlandi Ameríku í langan tíma, fyrir utan Alaska.  Samt sem áður var gosið alls ekki stórt. Heildarmagn gosefna, sem kvika, var um 0,5 rúmkílómetrar, sem er heldur minna en Surtseyjargosið árið 1963 til 1968, en um tíu sinnum meira en gosið í Eyjafjallajökli árið 2010.  Nú er mynd Rogers til sýnis á áberandi stað við innganginn í Eldfjallasafni.


Kötlugos eftir Arreboe Clausen

Kötlugos 1918 Arreboe ClausenHér er nýjasta mynd Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Hún er olíumálverk af Kötlugosinu árið 1918. Myndin er máluð af mjög sérstæðum manni, sem fæddur var í Stykkishólmi: Arreboe Clausen (1892 -1956). Faðir Arreboe var kaupmaðurinn Holger P. Clausen í Stykkishólmi, en um hann lék evintýraljómi, einkum í sambandi við ferð hans til Ástralíu í leit að gulli. Hann hafði getið sér frægðar á Snæfellsnesi árið 1880, þegar hann bauð sig til framboðs til Alþingis. Holger tók það ráð að reisa tjald á kjörstað, þar sem voru veittar óspart vínveitingar til kjósenda á kostnað Clausensverslunar. Að sjálfsögðu hlaut hann kosningu með miklum meirihluta til Alþingis, en þessi atburður er ávallt kallaður “Brennivínskosningin” síðan. Í þá daga greiddu menn atkvæði sitt í heyrenda hljóði. Siðar kom Holger öllum á óvart og reyndist bæði róttækur og frjálslyndur á þingi. Arreboe Clausen starfaði mörg ár sem einkabílstjóri forsætisráðherra Íslands. Af honum eru margar sögur, tengdar þessu sérstæða starfi. Til dæmis segir Ólafur Thors við Arreboe einkabílstjóra sinn, árið 1942: „Góði minn, nú er ég orðinn forsætisráðherra. Nú verður annar hvor okkar að hætta að drekka! “ Eitt sinn var Arreboe spurður, hvað væri að gerast á bak við tjöldin í stjórnmálum Íslands, og vildi hann ekkert um það segja. „Ert þú ekki innsti koppur í búri allra stjórnmálaflokka?“ Arreboe svaraði snöggt: „Jú, ég er það, en sá koppur lekur ekki.“ Málverkið af Kötlugosinu hefur Arreboe málað eftir frægri ljósmynd, sem Kjartan Guðmundsson tók af gosinu. Að lokum skal geta þess, að Arreboe var faðir þeirra Clausensbræðra, Hauks og Arnar, sem lengi voru fremstu frjálsíþróttamenn Íslands.

Uppruni Nafnsins Basalt

Krotsteinn touchstoneBasalt er algengasta bergtegund á Jörðu, og hún er einnig útbreitt á tunglinu, á Mars og hinum innri plánetum sólkerfisins. Basalt hraun mynda nær allan hafsbotninn umhverfis Jörðu. Hvaðan kemur þá þetta mikilvæga nafn? Það er sennilega upprunnið í Egyptalandi fyrir meir en fimm þúsund árum. Egyptar nota nafnið basanos fyrir svartar og vel slípaðar steinplötur, sem voru notaðar til að greina gæði málma, einkum gulls. Basanos er krotsteinn (touchstone), en þegar gull eða annar málmur var dreginn yfir svörtu plötuna, þá skildi gullið eftir sig gyllta rák, eins og fyrsta myndin sýnir. Litur rákarinnar sem myndaðist á plötunni var mælikvarði á gæði gullsins.  Kleópatra basaltÚr orðinu basanos í Egyptalandi kom síðan orðið basants í Grikklandi hinu forna og enn síðar orðið basalt í latínu Rómarveldis. Egyptar höfðu annað og mun mikilvægara brúk fyrir basalt, en það var sem hráefni í fagarar höggmyndir, ker og skálar. Hér til hliðar er til dæmis fögur mynd úr basalti af sjálfri Kleópötru frá því um 40 fyrir Krist. Maður skilur vel að hann Markús Antóníus hafi fallið fyrir henni … og einnig Júlíus Keisari. Basalt hefur verið eftirsótt hráefni fyrir listamenn í Egyptalandi, í fyrsta lagi vegna þess að það er nær svartur steinn, og í öðru lagi vegna þess hvað bergið er fínkornótt. Þess vegna verður áferðin óvenju jöfn og vel slípuð, eins og sjá má á styttunni af Kleópötru, þar sem allur búkurinn glansar af fegurð. Haddadin basaltNú er búið að finna grjótnámunar þar sem basaltið var unnið til að skapa þessar frábæru myndarstyttur af Kleópötru og faróum Egyptalands. Námurnar eru flestar í einu basalthrauni, sem er um 25 milljón ára gamalt. Það er Haddadin basalt hraunið, fyrir vestan og norðvestan Kaíró borg, eins og kortið til hliðar sýnir. Engin eldvirkni hefur verið í Egyptalandi síðan þetta hraun rann.

Eldgosið í Mont Pelée árið 1902

Hraungúll og myndun gjóskuflóðsÁrið 1902 varð eitt frægasta eldgos sögunnar, þegar eldfjallið Mont Pelée gaus á eynni Martinique í Karíbahafi. Það gos er frægt af endemum, ekki vegna þess að gosið hefði verið sérlega stórt, heldur vegna hins mikla mannfalls, en um 28 þúsund manns fórust.  Eldfjallið Pelée hafði gosið áður árin 1792 og 1851.  Pelée þýðir sá sköllótti, sem vísar til þess, að í sögunni hefur efri hluti eldfjallsins jafnan verið gróðurlaus, vegna tíðra eldgosa.Samt sem áður hafði blómgast allstór borg við rætur þess. Það var borgin Saint Pierre, sem var oft nefnd París Karíbahafsins. Þar var mikil náttúrufegurð, gleði, fjör og blómleg verzlun.  Enda var Saint Pierre þá höfuðborg eyjarinnar Martinique, sem enn er ein af nýlendum Frakka í Karíbahafi.  Ég kynntist Mont Pelée náið árin 1970 til 1974, þegar ég starfaði við rannsóknir á eldfjöllum í Karíbahafi.  Það var í febrúar árið 1902 að  tekið var eftir því að gas streymdi í vaxandi mæli frá eldfjallinu og vart var við jarðskjálfta.  Í lok apríl höfðu smásprengingar hafist, og er sennilegt að þá hafi hraungúll verið að myndast á fjallstoppnum.  Slíkir hraungúlar verða til þegar mjög seig kvika hleðst upp yfir gígnum, og skriður af mjög heitu bergi og ösku kunna að falla úr hlíðum hraungúlsins.  Rústir Saint PierreJarðhræringarnar orsökuðu óróa meðal borgarbúa, en yfirvöld gerðu lítið úr þessu og vildu fyrir alla muni halda borgurum í Saint Pierre þar til almennum kosningum þar hinn 11. maí væri lokið. Svo virðist sem að yfirvöld hafi komið í veg fyrir flótta frá borginni til að hafa góða þáttöku í kosningunum, en gígurinn er aðeins um 8 km fyrir norðan Saint Pierre. En áhrif eldgoss á sveitir umhverfis borgina orsökuðu það, að fjöldi fólks streymdi inn í Saint Pierre. Fyrstu fórnarlömb í gosinu fórust hinn 5. maí, þegar gjóskuflóð náði niður í sveitir fyrir norðan borgina. Samt voru viðbrögð hins opinbera lítil eða engin, og landstjórinn yfir Martinique flutti til borgarinnar til að róa almenning.  Fórnarlömb í gjóskunniÞað var skömmu eftir kl. 8 að morgni hinn 8. maí, að hörmungarnar skullu yfir.  Gjóskuflóð úr hlíðum fjallsins streymdi á miklum hraða til suðurs og skall yfir borgina. Sennilega var gjóskuflóðið myndað þegar stór hluti af hraungúlnum hrundi fram, heit kvikan myndaði mikla skriðu af glóandi heitum bergbrotum, vikri, ösku og gasi. Gjóskuflóðið náði til Saint Pierre á nokkrum mínútum þennan Uppstigningardagsmorgun.  Fanginn Ciparis komst afAð minnsta kosti 28 þúsund mans fórust í Saint Pierre af völdum gjóskuflóðsins. Þau fórust í fyrsta lagi vegna hitans, sem var gýfurlegur, og einnig vegna þess að anda að sér mjög heitri ösku sem brenndi slímhúð og leiddi strax til dauða. Aðeins tveir komust af í borginni. Annar var skósmiðurinn Leon Compere, en honum tókst að komast út úr borginni, mikið brenndur.  Hinn var fanginn Louis Cyparis (1875-1929), sem var í dýflisunni undir fangelsi borgarinnar þegar gjóskuflóðið gekk yfir. Hann fanst á lífi í rústunum, og varð síðan frægur um heim allan, en hann var sýndur í hinum vinsæla sirkusi Barnum & Bailey sem fanginn frá Saint Pierre.  Við gosið í Mont Pelée árið 1902  varð mesta mannfall sem orðið hefur í eldgosi síðan gosin miklu í Krakatá árið 1883 (um 35 þúsund fórust) og í Tambóra í Indónesíu árið 1815 (um 117 þúsund fórust). Frakkar hófu strax rannsóknir á eldgosinu og orsökum þess og sendu jarðfræðinginn Alfred Lacroix (1863-1948) til Martinique.  Nálin á Mont PeléeRit hans, sem kom út árið 1904, markar að nokkru leyti upphaf eldfjallarannsókna, en hann er sá fyrsti sem skilur mikilvægi gjóskuflóða.  Mont Pelée gýs 1929Hann gaf þeim nafnið nuées ardentes, eða glóandi flóð.  En Mont Pelée var ekki búinn að ljúka sér af, heldur hélt áfram að gjósa.  Fljótlega eftir gjóskuflóðið tók að rísa risavaxin súla af bergi eða kviku upp af gígnum. Þessi mikla nál af bergi reis um 15 metra á dag, og náði alls 350 metra hæð yfir umhverfið.  Súlan myndaðist vegna þess að kvikan var mjög seig og rann ekki, heldur ýttist beint upp og storknaði til að mynda nálina.  Það minnir því helst á tannkrem sem er kreist upp úr túbunni. Þegar súlakólnaði þá brotnaði hún og sprakk í mola og lækkaði smám saman. Gos hófst aftur í Mont Pelée árið 1929 og varði þar til 1932. Hér með fylgja tvö listaverk úr Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem sýna eldfjallið í þessu gosi. Það fyrra er olíumálverk eftir Edward Kingsbury, sem sýnir allt fjallið snjókvítt af ljósri ösku. Woodbury gos 1929Hin myndin er eirstunga eftir Charles H. Woodbury, sem sýnir rjúkandi hraungúlinn á toppi eldfjallsins.  Síðan hefur Mont Pelée ekki gosið, en borgin Saint Pierre hefur aldrei náð sinni fornu frægð.

Eldfjallalist frá Nýju Gíneu

Tavurvur gýsÉg ferðast varla svo inn á eldfjallasvæði, að ég rekist ekki á nýtt listaverk fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Svo var einnig í ferð minni til Nýju Gíneu og til Rabaul eldstöðvarinnar í maí árið 2011.  Ég var við athuganir út á auðninni milli gíganna Tavurvur og Rabalanakaia, þegar ég hitti nokkra krakka sem voru að selja ýmsa muni.  Ungi ljóshærði kaupmaðurinn seldi mér málverk eftir föður sinn Mika.  Myndin sýnir gos í Tavurvur gígnum, en af einhverjum ástæðum er Mika sérlega hrifinn af hvítum fjallabílum og bætir þeim oft inn á myndir sínar.  Þeir búa á eynni Matupit, inni í miðri Rabaul öskjunni. Reyndar er hún ekki lengur eyja, heldur hefur hún lyftst upp um 17 metra vegna jarðhræringa og er nú komið þurrt land á milli Matupit og meginlandsins.  Eyjan heldur áfram að rísa dag frá degi um nokkra millimetra.  

Málverkasali í RabaulAnnars var ég nokkuð undrandi á því hvað það er mikið af ljóshærðum börnum og einnig ungum ljóshærðum konum í Nýju Gíneu.  Ég fékk þrjár skýringar á þessu fyrirbæri:  (a) þau þvo sér um hárið með peroxíð, (b) það er svo lítið ferskt vatn að fá á Matupit að þau fara í bað í sjónum á hverjum degi og það lýsir hárlitinn, (c) ljóshærðir Ástralir hafa farið hér um í mörg ár og skilið eftir erfðaefni sitt meðal innfæddra.  Ég veit ekki hvað er líklegasta skýringin, og ef til vill eru allar virkar. 

 


Útibú Eldfjallasafns í Arion banka

Hinn 5. maí 2011 flutti ég fyrirlestur í Arion banka í Reykjavík um eldgos og áhrif þeirra á viðskifti.  Í því sambandi var sett upp sýning á um tuttugu listaverkum úr Eldfjallasafni í anddyri bankans.  Það eru flest verk sem ekki hafa verið sýnd áður í Eldfjallasafni í Stykkishólmi vegna takmarkaðra húsakynna safnsins.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband