Færsluflokkur: Jarðskjálftar

Hver voru upptök Lissabon skjálftans árið 1755?

lisbon.jpgMestu náttúruhamfarir sem um getur í Evrópu eru tengdar jarðskjálftanum í Lissabon í Portúgal, árið 1755, en þrátt fyrir mikilvægi þessa atburðar í mannkynssögunni, þá vitum við harla lítið um upptök hans. Það var Allraheilagamessa í kaþólska heiminum hinn 1. nóvember, og fólk þyrptist í kirkjur landsins að venju. Allt í einu reið yfir stór jarðskjálfti um kl. 940 um morguninn og skömmu síðar annar enn stærri. Nær allar kirkjur landsins og aðrar steinbyggingar hrundu til grunna, fullar af fólki. Um 40 mínútum síðar skall stór flóðbylgja, milli 7 og 15 metrar á hæð, á hafnarhverfið og byggð nærri sjó í Lissabon. Á sama tíma kviknaði í borginni, sennilega mest út frá kertum og öðrum ljósum sem skreyttu allar kirkjur þennan morgun. Borgareldurinn var algjör og borgin brann í þrjá daga. Lissabon var rúst ein á eftir. Um 90 þúsund fórust í Portugal (íbúafjöldi í Lissabon var þá um 230 þúsund) og flóðbylgjan drap einnig um tíu þúsund í Marokkó. Lissabon var þá ein ríkasta borg á jörðu, en hún hafði safnað auð sem miðstöð hins mikla siglingaveldis Portúgal. Gull og gersemar streymdu til borgarinnar í meir en tvö hundruð ár frá löndum Mið- og Suður Ameríku, þar sem Portúgalar rændu og rupluðu og grófu upp gersemar, sem allar voru fluttar til Lissabon. Allt þetta fór forgörðum í eldsvoðanum og flóðinu og þar á meðal konungshöllin, með sitt 75 þúsund binda bókasafn. Tapið á menningarlegu verðmæti í þessum bruna minnir helst á brunan á bókasafni Alexandríu í Egyptalandi til forna.

Jarðskjálftinn mikli er talinn vera amk. 8,7 að styrkleika. Skjálftinn, var talinn eiga upptök um 200 km fyrir vestan Portúgal, kl. 940 að morgni. Skjálftarnir voru þrír, og sá stærsti í miðjunni. Hans var vart um nær alla Evrópu, til Luxemborgar, Þýskalands og jafnvel Svíþjóðar. Mikið tjón varð einnig í Alsír og Marokkó. Það er reyndar merkilegt, að hvorki staðsetning á upptökum né tegund skorpuhreyfingarinnar er enn þekkt fyrir þennan risastóra skjálfta. Lengi vel hafa jarðvísindamenn verið á þeirri skoðun að hann ætti upptök sín í brotabelti, sem liggur á milli Azoreyja og Gíbraltar og stefnir austur-vestur.   Það mikið og langt misgengi á mótum Afríkuflekans og Evrasíuflekans í Norður Atlantshafi, sem nefnist Gíbraltar-Azores brotabeltið. Það liggur í austur átt frá Azoreseyjum og nær alla leið til Gíbraltarsunds. En slík brotabelti mynda yfir leitt ekki svo stóra skjálfta sem þennan. Nýlega hefur komið fram sú skoðun (M.A. Gutscher ofl.), að undir Cadizflóa og undir Gíbraltar sé að myndast sigbelti, þar sem jarðskorpa Norður Atlantshafsins sígur undir jarðskorpu Marokkó og Íberíuskagans. Allir stærstu jarðskjálftar sögunnar hafa einmitt myndast við hreyfingar á sigbeltum sem þessu. En þessi hugmynd um sigbelti undir Gíbraltar er enn mjög umdeild og ráðgátan um upptök skjálftans mikla er alls ekki leyst.

Myndin sýnir hugmyndir um staðsetningu á upptökum skjálftans árið 1755 (stórir brúnir hringir). Einnig sýnir myndin upptök seinni skjálfta á þessu svæði, sem hafa verið staðsettir með nokkri nákvæmni og svo staðsetningu sigbeltisins undir Gíbraltar.

Flóðbylgjan breiddist hratt út um allt Norður Atlantshaf og hefur sennilega náð til Íslands eftir um fimm tíma. En engar heimildir eru til um flóðbylgju hér á landi í tengslum við skjálftann mikla árið 1755. Sveinbjörn Rafnsson hefur frætt mig um hvað gerðist á Íslandi á þessum tíma. Hinn 11. september 1755 varð mikill jarðskjálfti á Norðurlandi sem þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lýsa í skýrslu til danska vísindafélagsins. Hinn 17. október til 7. nóvember 1755 var eldgos í Kötlu. En einmitt meðan á þessu gosi stóð varð eyðing Lissabonborgar 1. nóvember 1755. Uppástunga Sveinbjörns er sú, að Íslendingar hafi hreinlega ekki tekið eftir Lissabonbylgjunni vegna eldgossins í Kötlu og menn hafi kennt Kötlu um allt saman. Það er engin ástæða til að ætla að nokkuð samband sé á milli eldgossins í Kötlu og skjálftans í Lissabon.

            Náttúruhamfarirnar höfðu gífurleg áhrif á hugarfar fólks í Evrópu og ollu straumhvörfum í heimspeki og bókmenntum, einkum hjá raunsæjum pennum eins og Voltaire og Rousseau. En það er nú stór kafli að fjalla um, útaf fyrir sig.


Tuttugu ár af stórskjálftum

skja_769_lftar.jpgMyndin sýnir hvar stórskjálftar (stærri en 7.0) hafa orðið á jörðu undanfarin tuttugu ár (1995 til 2015). Nýjasti skjálftinn af þeiri stærð var sá sem reið yfir Afghanistan nú hinn 26. október (svarti hringurinn), með upptök á um 200 km dýpi undir Hindu Kush fjöllum. Þessi dreifing stórskjálfta sem myndin sýnir segir okkur magt merkilegt. Í fyrsta lagi eru nær allir skjálftarnir á mótum hinna stóru fimmtán jarðskorpufleka, sem þekja jörðina. Í öðru lagi eru nær allir stórskjálftarnir á mótum þeirrar tegundar flekamóta sem við köllum sigbelti. Það eru flekamót, þar sem einn flekinn sígur niður í möttulinn undir annan fleka og við núning milli flekanna koma skjálftar fram. Slík sigbelti eru einkum algeng allt umhverfis Kyrrahafið. Takið einnig eftir, að aðeins örfáir stórskjálftar myndast á úthafshryggjum eða þeirri tegund af flekamótum, þar sem gliðnun á sér stað. Til allrar hamingju fyrir okkur, sem búum á slíkum flekamótum á Íslandi.


Hreyfimynd af Bárðarbungu, fyrri hluti

Skjálftavirknin undir Bárðarbungu hófst hinn 16. ágúst 2014.  Síðan hefur Veðurstofa Íslands skráð mörg þúsund skjálfta, bæði undir Bárðarbungu og í kvikuganginum, sem teygir sig til norðurs um 70 km veg, alla leið í grennd við Öskju.  Til að skilja skjálftavirknina betur, þá þarf að skoða hana í tíma og rúmi. Margir hafa beitt ýmsu forritum og gert tilraun til að skapa hreyfimynd úr þessum merkilegu gögnum Veðurstofunnar.  Að mínu mati er besta hreyfimyndin sú, sem hér fylgir með.  Hana hefur Einar Hjörleifsson skapað. Betri útgáfa af myndbandinu er á YouTube hér: https://www.youtube.com/watch?v=3PTEDxrIRoM

eða hér: <iframe width="640" height="360" src="//www.youtube.com/embed/3PTEDxrIRoM?feature=player_detailpage" frameborder="0" allowfullscreen></iframe>

eða á mbl.is hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/19/skjalftavirknin_skodud_i_tima_og_rumi/

Kortið er frá Landmælingum Íslands. Skjálftastaðsetningar eru frá Veðurstofu Íslands.  Stærð jarðskjálfta er sýnd með stærð hringja. Rauðir hringir sýna skjálfta síðustu klukkutímana.  Síðan verða þeir bláir púnktar.   Klukkan efst til vinstri sýnir ár, mánuð, dag, klukkustund og mínútur.  Þessi bíómynd er nokkuð hröð, en hver klukkutími í raunveruleikanum er innan við eina sekúndu hér í bíó.  Neðri glugginn sýnir dreifingu skjálfta á þversniði frá vestri til austurs í gegnum Vatnajökul og nágrenni.  Lóðrétti ásinn er dýpi, í kílómetrum, niður í 20 km, en það eru nokkurn veginn neðri mörk jarðskjálftanna.  Langflestir skjálftar eru á bilinu 5 til 12 km.  Hægri glugginn sýnir samskonar þversnið, en þar er það skjálftavirknin í suður-norður átt, niður í 20 km. Þessi gluggi sýnir því mjög vel hvernig kvikugangurinn mjakast norður á bóginn, undan Dyngjujökli og í átt til Öskju.  Glugginn neðst til hægri sýnir fjölda skjálfta á dag, bæði undir Bárðarbungu og  umhverfis kvikuganginn til norðurs.  Skjálftar af stærðinni 3 og stærri eru sýndir með rauðu í þessum glugga.   Hér í þessari bíómynd kemur í heild vel fram myndrænt samhengi milli skjálftavirkni í Barðarbungu og í kvikuganginum, fyrst til austurs og síðan til norðurs.   Hér eru nokkrar athuganir við virknina, en atburðarásin er hröð:

1. Skjalftar hefjast í norður brún öskju Bárðarbungu á 5 til 10 km dýpi seint hinn 15. ágúst.  Þeir dreifa sér fljótlega í hring um öskjubrúnina hinn 16. ágúst. 

2. Um hádegisbil hinn 16. ágúst  brýst kvikugangur út úr Bárðarbungu og stefnir hratt til suðausturs. 

3. Um klukkan 22 þann dag (16. ágúst) breytir kvikugangurinn snögglega um stefnu til norðausturs á um 10 km dýpi. Skjálftar eru einnig öðru hvoru undir Kistufelli í norðvestri á 5 til 10 km dýpi. 

4. Kvikugangurinn þróast til norðausturs allt til um klukkan 8 hinn 23. ágúst.

5. Klukkan 9 að morgni hinn 23. ágúst gerist ótrúlega snöggt stökk, þegar kvikugangurinn hliðrast til vesturs og rýkur áfram hratt til norausturs á 10 til 15 km dýpi.   Þessi leiftursókn er eiginlega stórkostlegasti atburðurinn í þessari virkni Bárðarbungu.   Sennilega hefur hár kvikuþrýstingur verið kominn í kvikuþrónni og í kvikuganginum, en nú fengið skyndilega útrás, þegar kvikan fann sér leið aðeins vestar og inn í nýja sprungu til norðausturs.  Samtímis heldur skjálftavirkni áfram undir öskjubrúnum Bárðarbungu. 

6. Kl. 7 að morgni hinn 24. ágúst hefur kvikugangurinn náð norður brún Dyngjujökuls, en hér grynnkar hann í fyrsta sinn og sendir upp skjálfta grynnir en 5 km.   Meginvirknin er samt enn á 10 til 15 km dýpi. 

7. Kvikugangurinn heldur áfram til norðausturs en byrjar að hægja á sér um kl. 6 að morgni hinn 26. ágúst.   Þar á eftir er skjálftavirkni víða í ganginum eða  ofan hans.

8. Um kl. 10 um morguninn hinn 29. ágúst hófst eldgosið,, samkvæmt mynd úr gervihnetti.   Á þeim tíma var skjálftavirkni dreifð í ganginum norðan Dyngjujökuls. 

Við þökkum Veðurstofu Íslands fyrir leyfi að birta skjálftagögnin.


Gosúlfurinn

 

 

Úlfur - úlfurSmalinn í dæmisögu Esops hrópar “úlfur, úlfur!”  til að vekja athygli á sér og til að stríða fólkinu á bænum.   Einn daginn birtist úlfurinn út úr skóginum og smalinn hrópar hástöfum, en fólkið er nú hætt að trúa honum.  Úlfurinn nemur eitt lambið á brott á meðan strákurinn æpir og enginn hlustar lengur á.   Forna dæmisagan er að sjálfsögðu öfgafullt dæmi, en hún minnir okkur á hvað trúverðugleikinn er mikilvægur en brothættur. 

Sérfræðingar sem fjalla um eldgos og aðra náttúruvá verða að þræða hinn örmjóa stíg milli þess að veita upplýsingar og ráðgjöf um yfirvofandi atburð annars vegar, og að forðast þess að lesa ekki of mikið í gögnin og draga ótímabæra ályktun hins vegar.  Eitt frægasta dæmið í þessu sambandi gerðist á  La Soufriere eldfjalli á eynni Guadeloupe í Karíbahafi árið 1976.  Órói hófst í eldfjallinu  og franskir sérfræðingar ráðlögðu að öll byggðin skyldi rýmd, þar á meðal borgin Basse-Terre með 60 þúsund íbúa.  Jarðvísindamaðurinn, sem lagði þau slæmu ráð hafði góð sambönd og mikla hæfileika til að samfæra fólk, enda varð hann síðar menntamálaráðherra Frakklands.  Óróanum fylgdi aukin hveravirkni á svæðinu.  Borgin var tæmd og allt héraðið var lokað fyrir allri umferð í sex mánuði, sem hafði gífurleg áhrif á afkomu fólksins og efnahag eyjarinnar.  Ímundið ykkur að komast ekki heim í háft ár, að loka öllum verslunum og iðnaði!  Aldrei kom gosið.  Merki um eldgos er að kvika kemur upp á yfirborð jarðar í einhverju formi, annað hvort sem hraunkvika eða aska, sem kemur úr kviku við sprengigos.  Einn sérfræðingur á La Soufriere lýsti því yfir að hann hefði fundið glerkorn (storknuð kvika)  í efni sem kastaðist upp í hverasprengingum.  Þar með var dregin sú ályktun að gos væri hafið og svæðið því rýmt.   Síðari rannsóknir sýndu fram á að sérfræðingurinn hafði rangt fyrir sér, en hann hafði  misgreint kristalla af steindinni epídót sem gler.  Það voru dýr mistök, sem minna okkur á að jafnvel svokallaðir sérfræðingar geta haft rangt fyrir sér. 

Á ensku er oft notað orðatiltækið “to err on the right side.”   Ef þú gerir villu, þá er betra að hún sé réttu megin.  Allur er varinn góður, segjum við.  Það er víst betra að hafa spáð gosi, sem ekkert varð úr, en að hafa ekki spáð gosi, þegar gos brýst svo út.  En eftir hvað mörg platgos hættir fólkið að trúa þér?  

Hvað orsakaði stóra skjálftann?

 

Í morgun kom stærsti skjálftinn í Bárðarbungu til þessa.  Hann var 5,7 að styrk og á 6,2 km dýpi.  Hann er staðsettur djúpt undir norður brún öskju Bárðarbungu, samkvæmt Veðurstofunni.  Athugið að á þessum jarðskjálftaskala er til dæmis skjálfti af stærðinni 5 hvorki meira né minna en 33 sinnum stærri en skjálfti af stærð 4.  Þessi mikli skjálfti er af sömu stærðargráðu og skjáftarnir tíu undir Bárðarbungu, sem Meredith Nettles og Göran Ekstrom rannsökuðu í grein sinni árið 1998.  Það voru skjálftar frá 1976 til 1996, sem þau könnuðu, á dýpi allt að 6,7 km.   Hvað er það, sem hleypir af stað svona stórum skjálftum undir eldfjallinu?  Hvað þýðir það fyrir framhaldið?  Sérfræðingar hafa gefið í skyn að þeir telji skjálftann  í morgun  vera afleiðingu af kvikuflæði út úr kvikuþró undir öskjunni og inn í ganginn.  Það væri þá þak kvikuþróarinnar, sem er að síga niður og skjálftinn verður á brúninni.  Samkvæmt þeirri túlkun ætti kvikuþróin að ná niður á 6,2 km dýpi.    Kvikuþrær undir íslenskum eldfjöllum sem hafa öskjur eru fremur grunnt undir yfirborði.  Þanni er talið að kvikuþró sé á 2 til 3 km dýpi undir Kröflu, 2 km undir Kötlu og um 3 km undir Öskju.  Kvikuþró á allt að 6 km dýpi undir öskju Bárðarbungu væri því mjög ólíkt því sem við höfum vanist.  Þess vegna ber að athuga hinn möguleikan að stóri skjálftinn sé af tegundinni sem Ekstrom stingur uppá: tengdur hreyfingu á hringlaga sprungu, sem er í jarðskorpunni UNDIR kvikuþrónni.  Ég hef fjallað um líkan Ekstroms áður hér:  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1428037/

Og einnig hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1428340/

 Skjálftafræðingar eiga eftir að ákvarða af hvaða tegund þessi skjálfti er, út frá "first motion" eða könnun á hreyfingu fyrstu bylgjunnar í skjálftanum.  En á meðan verðum við að taka til greina að hann sé samkvæmt líkani þeirra Ekstroms.  Ef sig er að gerast í öskjunni og veldur jarðskjálftanum, þá ætti það að koma fram á GPS mælinum á Dyngjuhálsi. Svo er ekki.  Þá grunar mann að orsökin á þessum stóra skjálfta sé önnur en öskjusig.


Skjálftasagan í hnotskurn

EinarEinar hefur sent okkur kvikmynd af sögu  og dreifingu jarðskjálfta undir Bárðarbungu og umhverfi. Takið eftir að aðeins skjálftar með gæði yfir 60% eru sýndir.  Guli hringurinn er miðgildi á staðsetningu skjálfta hverrar klukkustundar, svarta línan sýnir sögu á miðgildi.  Það er fróðlegt að sjá hvernig virknin hoppar á milli, ýmist í kvikuinnskotinu eða öskjunni og víðar.   Rautt eru skjálftar frá 23. ágúst. Takið eftir hvað gangurinn rýkur hratt norður þann dag.  Gangurinn er reyndar kominn norður fyrir jökulsporðinn, og ef hann kemur upp á yfirborðið, þá væri það á íslausu landi.  Norður endi gangsins er nú kominn á sama stað og upptök Holuhrauns eru, en þar gaus árið 1797, eins og jarðfræðikort ISOR sýnir (sjá síðustu blogg færslu).  Hættan á jökulhlaupi minnkar því   stöðugt.  Svarta línan fylgir hreyfingu þungamiðju skjálftanna.   Smellið á hér til að skoða kvikmyndina:

https://dl.dropboxusercontent.com/u/40576923/bardarbunga.gif

Fréttir um gos eru misvísandi.  Ef til vill er hafið gos undir jökli, en ekkert bendir þó til þess, ef skoðuð eru gögn um rennsli í Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga.  Áin sýnir sína venjulega daglegu sveiflu frá um 220 til 150 rúmmetrum á sekúndu, eins og línuritið sýnir. Engin vöxtur er þar enn.   Sóri skjálftinn í nótt, sem var af stærðinni 5,3, var undir öskjubrúninni á Bárðarbungu og á um 5,3 km dýpi.  Er hann vegna hreyfinga á hringbrotinu, sem afmarkar öskjuna, eða vegna enn dýpri hreyfinga?  Það verður fróðlegt að sjá hvaða tegund af skjálfta þetta er: lóðrétt misgengi eða önnur hreyfing.Jökulsa Upptypp

Fyrsta kvikmyndin úr Bárðarbungu

KvikmyndEinn góðvinur þessa bloggs, sem gengur undir nafninu H. Sig, hefur gert fyrstu kvikmyndina, sem sýnir innri gerð Bárðarbungu.  Hann hefur sótt gögn um jarðskjálftavirknina undir Bárðarbungu síðan á laugardagsmorgun til vefsíðu Veðurstofunnar. Síðan gerði hann þrívíddar plott af þessum gögnum og bjó til þessa ágætu kvikmynd. Hún sýnir dreifingu skjálftanna í tíma og rúmi.  Láréttu ásarnir eru lengd og breidd, en lóðrétti ásinn er km, sem nær niður á 25 km. Takið eftir að skalinn á lóðrétta ásnum er rúmlega tvisvar sinnum stærri en á láréttu ásunum.  Myndin teygir því dálítið úr gögnunum uppá við.  Litir á púnktunum breytast með tíma, þannig að elstu skjálftarnir eru sýndir með bláum púnktum, þá gulir, brúnir og þeir yngstu rauðir púnktar.   Örin bendir í norður átt.   Slóðin á þessa 3D-mynd er:

http://gfycat.com/FaithfulRipeIntermediateegret

Smellið á þennan link til að skoða kvikmyndina.   Myndin sýnir mjög vel að jarðskjálftarnir mynda hring eða lóðréttan hólk í jarðskorpunn undir Bárðarbungu.  Þetta styður algjörlega kenningu Ekströms, sem ég hef bloggað um hér áður.  Það er mjög áhugavert hvernig skjálftarnir raða sér upp í tíma umhverfis tappann. Fyrst virðist ein hlið tappans vera að brotna, síðan önnur og svo framvegis, allan hringinn.  Það er rétt að benda á, að staðsetningar á jarðskjálftum á vef Veðurstofunnar eru mjög misjafnar að gæðum.  Eins og kemur fram þar, þá eru gæðin frá 30 til 99%.  Ekki hefur verið tekið tillit til þess í gerðar kvikmyndarinnar.  Ef lélegar staðsetningar væru teknar út, þá er líklegt að útlínur tappans verði enn skýrari.


Innri gerð Bárðarbungu

kortBárðarbunga er á heimslista hjá Göran Ekström yfir mjög óvenjulega jarðskjálfta, og er merkilega sögu að segja af því. Í október árið 1996 urðu margir skjálftar á eða við brúnir öskju Bárðarbungu, undir Vatnajökli, eins og sýnt er á fyrstu mynd.   Hvort þessi skjálftavirkni sé tengd gosinu í Gjálp það ár er umdeilt efni,  en það skiftir reyndar ekki máli hér í þessu sambandi.  Það hafa orðið alls tíu stórir en fremur grunnir (3 til 8 km)  jarðskjálftar í Bárðarbungu á tuttugu ára tímabili (frá 1976 til 1996), sem mynda hring umhverfis öskjuna. Þeir eru allir af stærðinni 5,1 til 5,6 og á 3,3 til 6,7 km dýpi. tappinn  Flestir skjálftar á Íslandi eru tengdir gliðnun flekamótanna, en þessir skjálftar undir Bárðarbungu sýna aftur á móti þrýsting í jarðskorpunni.  Meredith Nettles og Göran Ekström hafa túlkað þessa skjálfta sem afleiðingu af  þrýstingi af keilulaga jarðskorputappa undir Bárðarbungu, eins og myndin sýnir.  Það er hringlaga sprungukerfi undir öskjunni, sem afmarkar jarðskorputappann.  Ofan á tappanum situr  kvikuþró, skammt undir yfirborði, eins og þriðja myndin sýnir.  Þegar kvika safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni, þá vex þrýstingur þar, sem hefur þær afleiðingar að tappanum er ýtt niður,  hringlaga sprungur myndast umhverfis tappann og valda jarðskjálftum.   Upp í gegnum miðjan tappann teikna þau Nettles og Ekström rás, sem kvika leitar upp um frá möttli til kvikuþróarinnar fyrir ofan tappann.  innri gerðÞessi mynd er sú fyrsta sem hefur verið dregin af jarðskorpunni undir Bárðarbungu og á hún eflaust eftir að verða bætt og endurbætt með tímanum. Askjan sem sést á yfirborði Bárðarbungu er um 10 km í þvermál, og er líklegt að grunna kvikuþróin sé svipuð að stærð.  Nú virðist skjálftavirknin raða sér í hringlaga form eftir útlínum öskjunnar, eins og kemur fram á síðustu myndinni.  Er það orskað af hreyfingu tappans, sem Ekström sér undir Bárðarbungu?  Er þá kvika að safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni ofan tappans? Samkvæmt hans líkani er þá von á skjálftum af stærðargráðunni 5, þegar tappinn þrystist niður. Bárðarbunga

 


Órói í Bárðarbungu

skjálftarSterk skjálftahryna hófst undir Bárðarbungu í morgun, eins og sést á fyrstu mynd. Skjálftarnir eru smáir, en þeim fylgir einnig órói í jarðskorpunni, sem kemur fram á mælum bæði í Vonarskarði og á Dyngjuhálsi.  Það er sýnt á annari mynd. Sjálfsagt eru hér kvikuhreyfingar í jarðskorpunni á ferðinni. óróiBárðarbunga er tvímælalaust ein allra stærsta eldstöð landsins. Þangað má rekja hin risastóru Þjórsárhraun, sem runnu fyrir um 2000 til 8000 árum.  Bárðarbunga situr í hjarta íslenska heita reitsins. Einn skjálftinn var að styrkleika 3,1 á 4,2 km dýpi, en stærsti skjálftinn til þessa er 3,5 á 5,6 km dýpi, dálítið norðar.

Gegnumlýsing eldfjalla

MtSt HelensÞað hefur reynst erfitt að átta sig á virkum eldfjöllum, meðal annars vegna þess, að við höfum takmarkaðar upplýsingar um innri gerð þeirra.  Nú er að gerast framför á þessu sviði, vegna þess að jarðskjálftafræðingar eru farnir að gegnumlýsa eldfjöllin með jarðskjálfatbylgjum. Gott dæmi um það eru rannsóknir á Mount St Helens eldfjalli í Bandaríkjunum. Þar varð frægt sprengigos hinn 18. maí árið 1980 og síðan hafa ýmsar rannsóknir farið fram á því fjalli.  Gregory Waite og félagar settu upp fyrir nokkru nítján jarðskjálftamæla umhvefis og ofaná eldfjallið.  Þeir könnuðu mikinn fjölda af jarðskjálftabylgjum, sem fóru í gegnum fjallið og jarðskorpuna undir.  Með því móti gátu þeir greint svæði, þar sem bylgjurnar fara hægar í gegnum jarðlögin. Þau svæði eru talin vera kvikuhólf eða svæði þar sem kvika er ríkjandi en ekki fast berg.  Beint undir eldfjallinu er svæði í jarðskorpunni, á 2 til 3,5 km dýpi, þar sem jarðskjálftabylgjur fara treglega í gegnum eða hægja á sér. Þetta virðist vera kvikuþró eldfjallsins.  Þar undir er annað svæði á um 5,5 til 8 km dýpi,  sem einnig getur verið kvikuþró.  Myndin sýnir þversnið af eldfjallinu og greinir svæðin, sem eru sennilega kvikuhólf.  Á bleiku svæðunum fara skjálftabylgjur hægar, en á grænu og bláu svæðunum fara bylgjurnar með meiri hraða.  En þessi könnun nær aðeins niður á um 10 km dýpi í jarðskorpunni.   Nú er annar hópur vísindamanna að undirbúa gegnumlýsingu á Mount St Helens, sem mun ná niður á um 80 km dýpi og rannsaka dýpri pípulagnirnar fyrir kvikuna.  Þeir munu nota bæði bylgjur, sem koma frá fjarlægum jarðskjálftum og bylgjur frá dynamít sprengingum á yfirborði til að gegnumlýsa St Helens með 3500 jarðskjálftamælum.  Viðbíðum spennt eftir niðurstöðunum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband