Surtsey

Bætt í albúm: 2.4.2010

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur.

Ég þakka þér fróðlegar greinar um margvísleg efni.

Faðir minn Gunnar M. Magnús(1898-1988) rithöfundur og skáld, kom víða við í skrifum sínum. Mest var það prósa af ýmsu tagi. Hann var mikill baráttumaður fyrir sjálfstæðri tilveru Íslendinga, gegn ameríska hernum á Íslandi, og hvers kyns landsölu og landafsali. Ég hef verið að skoða gögn, sem hann lét eftir sig, og fann m.a. óbirt ljóð frá árinu 1965, sem hann nefndi Surtsey.

Mér datt í hug að senda þér þetta ljóð, en í safnið þitt um eldfjallalist hef ég ekki séð póesí ennþá.

Ljóðið er svona:

Surtsey

Til vonar og vara skaut ég upp kollinum

á köldum nóvemberdegi,

til þess að veita þér athvarf,

Íslendingur,

- til þess að veita þér athvarf

á flóttanum

þegar þú átt ekkert land

og seldir hafa verið gróandi dalir

og glitrandi ár,

brimhvítir fossar

og firðir bláir,

sindrandi hörpusandar,

silungsvötn, hverir

og skógur í dal,

berjabrekkur

og “blómmóðir besta”

og gróin leiði

Þorsteins og Páls, -

og í grænu laufi gróandi skóga

í golunni þýtur:

Allt eins og blómstrið eina

yfir þeirri þjóð,

sem einu sinni var,

yfir því landi, sem einu sinni var þitt.

Og þegar þú leggur frá landi

á flóttanum

og harmurinn blæs af fjöllum ofar,

og grátur fossins ymur í skörðum,

en þangið í útsoginu

blakar til þín

sem hinstu kveðju,

og þú leggur á sundið

með seinustu ferju

úr Herdísarvík,

þá tek ég þig í faðm mér

og veiti þér athvarf.

Þá skal ég gjósa og gjósa

mjúkum vindléttum vikri

og breiða yfir ykkur voðina

og þögnina

og myrkrið

og gleymskuna.

Ég skal veita ykkur útför

að fornum íslenskum sið, -

grafa ykkur undir vikri og hrauni.

Og eftir þúsund ár

munu þeir grafa í vikurinn

og finna bein af þessari þjóð,

sem einu sinni var, -

og mala úr þeim kalkefni

fyrir börnin,

sem erfðu hið stolta,

selda land.

- Og þá er athvarf mitt þrotið.

                                                 10. janúar 1965

 

P.s. Ég las inn á símsvarann þinn nafn mitt, og sagði í leiðinni, að ég væri gamall skólabróðir úr Gaggó Aust, svo sem satt er, en hefur kannski skotið þér skelk í bringu! Kannski hugsað: Æ,æ, bekkjar-reunion!! En svo er ekki.

Kveðjur,

Gunnsteinn Gunnarsson,

Dalbraut 16, 105, Reykjavík.

S. 8992111.

gunnsteinn38@gmail.com





Gunnsteinn Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband